Papúa Nýja Gínea - Kjúklingur og grænmeti í kókosmjólk
Papúa Nýja Gínea er eyríki í Eyjaálfu í
Suðvestur-Kyrrahafi sem á landamæri að Indónesíu en er einnig norður af
Ástralíu og vestan við Salómonseyjar. Höfuðborg landsins heitir Port Moresby og
í landinu búa um 8 milljónir manna á svæði sem er rúmlega fjórum sinnum stærra
en Ísland. Flestir íbúanna eru kristinnar trúar en margir blanda hefðbundinni
andatrú landsins við kristnina. Það var ekki fyrr en seint á 19. öld sem
Evrópubúar hófu landnám á Papúa Nýju Gíneu og það voru Bretar og Þjóðverjar upp
úr 1884. Eyjaskeggjar höfðu átt í viðskiptum við fólk frá Suðaustur-Asíu í
nokkur þúsund ár með fjaðrir paradísarfuglsins, sem lifir þar í landi. Papúa
Nýja Gínea varð sjálfstætt ríki árið 1975. Landið glímir við fjölda vandamál,
enda er landið þróunarland. Meðal vandamálanna er ofbeldi gegn konum, en fjöldi
nauðgana er gríðarlega hár. Sömuleiðis eru 50-150 "nornir" drepnar ár
hvert í landinu fyrir svartagaldur. Þrátt fyrir öll vandamál landsins er það
einstakt á mörgum sviðum. Þar er m.a. að finna dýr sem hvergi finnast annars
staðar og þar má finna einu pokadýrin utan Ástralíu. Landið er hálent og þar
vaxa gríðarmiklir regnskógar. Það er því erfitt yfirferðar og stöðugt finnast
þar nýjar tegundir dýra og plantna. Skógarnir eru þó í mikilli hættu m.a. vegna pálmaolíuframleiðslu og gull- og
kopargreftri.
Þegar kemur að menningu er Papúa Nýja Gínea
sennilega eitt það fjölbreyttasta í heimi. Í landinu búa hundruðir mismunandi
þjóðflokka sem skiptast í nokkur þúsund samfélög. Sum samfélagana hafa átt í
stíði sín á milli í mörg hundruð ár. Sumir þjóðflokkanna voru alveg einangraðir
vegna þess hve hálent og erfitt yfirferðar landið er. Á Papúa Nýju Gíneu eru
töluð yfir 800 "upprunaleg/papúsk" tungumál. Það er um 12% allra
tungumála heims. Flest þeirra tala aðeins nokkur hundruð til nokkur þúsund
manns. Það fjölmennasta nefnist Enga og það tala um 200.000 manns. Tok Pisin,
sem er kreólamál úr ensku, er eins konar "lingua franca" landsins og
opinbert tungumál þess ásamt ensku og hiri motu.
Ef ég ætti að skrifa um menningu Papúa Nýju Gíneu
myndi það sennilega enda í heilli bók. Nánast hvert þorp hefur sína eigin
menningu. Landið er sannkölluð paradís mannfræðinga.
Matarmenning Papúa Nýju Gíneu er sjálfsagt jafn
fjölbreytt. En helstu hráefnin sem eru notuð eru þó hrísgrjón, sagógrjón, sætar
kartöflur, sjávarfang, kjúklingur, villibráð, svínakjöt og alls kyns grænt
grænmeti.
Þótt mér finnist landið einstaklega merkilegt verð ég að segja að mér fannst uppskriftin þaðan það ekki.
Kjúklingur og grænmeti í kókosmjólk
2 msk olía
3-4 kjúklingabringur eða úrbeinuð læri
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
1 dós kókosmjólk
1 tsk engiferduft
200 g grasker, í bitum
200 g frosið spínat
salt og pipar
1. Byrjið á að skera kjúklinginn í þægilega
stóra bita og steikið á pönnu í nokkrar mínútur eða þar til þeir verða gullnir
að lit.
2. Bætið
hvítlauknum út í og steikið áfram í 2-3 mínútur.
3. Setjið kókosmjólkina, engiferduftið,
graskerið og spínatið út í og blandið öllu vel saman.
4. Eldið þar til kjúklingurinn er tilbúinn og saltið
svo og piprið.
5. Rétturinn er venjulega borinn fram með
hrísgrjónum, blómkáls/brokkolígrjón væru því vel við hæfi hér.
Þessi réttur fannst mér alveg hrikalega bragðlaus og ómerkilegur. Það er kannski ekki skrýtið þegar einu kryddin eru engiferduft, hvítlaukur og pipar (og meira að segja bætti ég við pipar). Ég get ekki mælt með þessum.
Afríka: 16 af 54 (29%)
Asía: 7 af 49 (14%)
Evrópa: 16 af 46 (34%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 4 af 12 (33%)
Samtals: 58 af 198 (29,3%)
Ummæli
Skrifa ummæli