Bólivía - Mechado de pierna de cerdo
Bólivía er land í Suður-Ameríku sem á landamæri að Brasilíu, Paragvæ, Argentínu, Perú og Chile. Höfuðborg landsins heitir Súkre og í landinu búa rúmlega 11 milljónir manna á svæði sem er um tíu sinnum stærra en Ísland. Opinber tungumál landsins eru 37 talsins. Spænsku tala flestir íbúanna en margir tala Quechua (21%) og Aymara (14%). Áður en Spánverjar lögðu Bólivíu undir sig árið 1525 var landið á tímabili hluti af veldi Inka. Árið 1825 fékk landið hins vegar sjálfstæði og landið fékk nafnið Bólivía eftir sjálfstæðisbaráttuhetjunni Simón Bolívar. Bolívar var jafnframt fyrsti forseti landsins. Bólivía er fátækasta landið í Suður-Ameríku og er þróunarland. Um 53% íbúanna lifa undir fátæktarmörkum og misskipting auðs er mikil. Helstu atvinnuvegir landsins eru landbúnaður, fiskveiðar, skógarhögg, námugröftur og framleiðsla á vefnaði og fötum. Um 92% landsmanna eru kristinnar trúar, flestir kaþólskir.
Matarmenning Bólivíu eru blanda af spænskum mat og matarmenningu frumbyggjanna. Spánverjar kynntu hráefni eins og hrísgrjón, hveiti, nautakjöt, svínakjöt og kjúkling fyrir landsmönnum. Á hálendinu er maturinn oftast sterkari en á láglendinu, en þar er meira notað af ávöxtum, grænmeti og fiski. Aðalmáltíðin í Bólivíu er hádegismaturinn. Hann er mikilvægasta máltíð dagsins og varir oft í þó nokkurn tíma og margir réttir eru á boðstólum. Eftir matinn er siesta. Kvöldmatur er yfirleitt ekki borðaður fyrr en eftir átta á kvöldin og er mun einfaldari máltíð en hádegismaturinn.
Mechado de pierna de cerdo
1 kg svínasteik (helst með puru)
1 msk salt
1 stór laukur
1 stór tómatur
2 stórar gulrætur
1 græn paprika
2 tsk salt
1/2 tsk svartur pipar
1/2 tsk cumin
1 tsk óreganó
3 hvítlauksrif
1 dl chilimauk (t.d. sambal olek)
1 msk olía
1/4 tsk sæta
1 msk edik
2 1/2 dl corona
1. Byrjið á að skera allt grænmetið niður í strimla.
2. Stingið svo göt á svínasteikina og troðið nokkrum grænmetisstrimlum inn í steikina.
3. Nuddið steikina með salti og geymið til hliðar.
4. Setjið restina af grænmetinu í stóra skál og geymið.
5. Blandið öllum kryddunum, fyrir utan chilimaukinu og hvítlauknum, saman í skál.
6. Setjið hvítlaukinn í hvítlaukspressu og steikið á pönnu í smá olíu ásamt chilimaukinu.
7. Setjið kryddin, hvítlaukinn og chilimaukið á grænmetið og blandið vel.
8. Hitið ofninn í 175°C.
9. Setjið steikina og grænmetið í eldfast mót með loki og eldið í um 2 og hálfan tíma. Takið lokið af síðasta hálftímann.
10. Berið fram með meðlæti að eigin vali en venjulega eru ofnbakaðar kartöflur eða sætar kartöflur hafðar með.
Mér fannst þessi réttur bara fínn. Ekkert sem ég ætla að gera aftur seinna en ágætis kvöldmatur svo sem.
Afríka: 16 af 54 (29%)
Asía: 9 af 49 (18%)
Evrópa: 16 af 46 (34%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 5 af 12 (42%)
Samtals: 61 af 198 (30,8%)
Ummæli
Skrifa ummæli