Kómoreyjar - Humar með vanillusmjöri
Það vita sennilega ekki margir af þessu afríska eyríki sem er staðsett á milli norðurodda Madagaskar og Mósambík. Eyjarnar eru þrjár talsins og eru allar eldfjallaeyjar. Höfuðborg landsins heitir Móróní og í landinu búa tæplega 800 þúsund manns á svæði sem er álíka stórt og Vestur-Húnavatnssýla. Opinber tungumál landsins eru kómoríska, arabíska og franska. Fyrstu íbúar eyjanna komu sennilega frá Malasíu eða Indónesíu og komu ekki seinna en á sjöttu öld. Seinna komu aðrir hópar fólks og settist að á eyjunum. Íbúar eyjanna tóku upp Íslam á einhverjum tímapunkti en viðskipti við Persa, Indverja og Araba var mikil á miðöldum. Fyrstu Evrópumennirnir sem komu til eyjanna voru Portúgalar árið 1503. Árið 1841 innlimuðu Frakkar landið í ríki sitt en landið fékk svo aftur sjálfstæði árið 1978. Pólitísk átök hafa verið algeng síðan þá. Kómoreyjar eru meðal fátækustu ríkja heims og mikið atvinnuleysi er í landinu. Eins er misskipting auðs gríðarlega mikil.
Matarmenning
Kómoreyja hefur litast mikið af indverskri matargerð en alls kyns karrýréttir
eru vinsælir. Mjölbananar, bananalauf, kassava og kókoshnetur eru mikið notaðar
ásamt sjávarfangi. Þjóðarréttur Kómoreyja er humar í vanillusósu. Það er einmitt
rétturinn sem ég eldaði frá landinu.
Humar með vanillusmjöri
Humar með vanillusmjöri
120 g smjör
1 shallotlaukur, smátt saxaður
80 ml hvítvín
1/2 vanillustöng
salt
pipar
soðinn humar
1. Byrjið á að bræða smá af smjörinu á pönnu á miðlungshita.
2. Bætið shallotlauknum út á og steikið hann þar til hann verður mjúkur.
3. Setjið hvítvínið út á og látið smjörið malla í nokkrar mínútur eða þar til mest allur vökvinn er horfinn.
4. Hrærið restina af smjörinu út á pönnuna
5. Skafið vanillu úr hálfri vanillustöng og bætið út á.
6. Saltið og piprið eftir smekk.
7. Sjóðið humarinn í söltu vatni í örfáar mínútur.
8. Berið smjörið og humarinn fram með meðlæti að eigin vali eða hafi sem forrétt.
Afríka: 17 af 54 (31%)
Asía: 9 af 49 (18%)
Evrópa: 16 af 46 (34%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 5 af 12 (42%)
Samtals: 62 af 198 (31,3%)
Ummæli
Skrifa ummæli