Suður Kórea - Bibimbap
Suður-Kórea er land í Austur-Asíu sem á landamæri að Norður-Kóreu. Höfuðborg landsins heitir Seúl og í landinu búa rúmlega 51 milljón manns á svæði sem er nánast jafn stórt og Ísland. Suður-Kórea er töluvert þéttbyggðari en Ísland. Þar búa um 507 manns á hvern ferkílómetra á meðan hér eru 3,2. Þar til árið 1948 voru Norður- og Suður-Kórea sama landið, Kórea. Fyrir utan hersetu Japana árin 1919-1945 var Kórea sjálfstætt ríki frá 7. öld f.kr. og allt til dagsins í dag. Suður-Kórea er í dag þróað lýðræðisríki sem býður þegnum sínum upp á ákaflega góð lífskjör og mestan jöfnuð meðal íbúa (lægsta gini-stuðul í heimi). Opinber tungumál Suður-Kóreu er kóreska og kóreska táknmálið og flestir íbúanna standa utan trúfélaga.
Suður-Kórea
hefur mjög sérstaka menningu. Hún er vissulega mjög lík norður-kóreskri en
löndin hafa þróast frá hvort öðru í þessi 70 ár frá því þau voru aðskilin.
Suður-Kórea er í dag leiðandi í framleiðslu á ýmsu afþreyingarefni í
Austur-Asíu, sérstaklega í popptónlist (K-pop) og sápuóperum (K-drama) og öðrum
sjónvarpsþáttum. Eflaust man einhver eftir „Gangnam Style“ með PSY sem varð
mjög vinsælt um allan heim árið 2012. Þá er Suður-Kórea einnig þekkt fyrir
tækninýjungar og framleiðslu. Samsung og LG eru meðal þekktra kóreskra tæknifyrirtækja.
Matarmenning
Suður-Kóreu er mjög sérstæð. Maturinn í Suður-Kóreu byggist að mestu á
hrísgrjónum, grænmeti, sjávarfangi og kjöti. Hvert hérað setur sinn svip á
matinn en almennt eru sesamolía, sojasósa, doenjang (gerjað baunamauk),
hvítlaukur, engifer, chiliflögur, gochujang (gerjað chilimauk) og napakál mikið
notuð hráefni í matargerðinni. Auk þess ber að nefna kimchi og núðlur, sem
einnig eru mjög vinsæl hráefni. Mikil drykkjumenning er í Suður-Kóreu og fólk
drekkur að jafnaði rúmlega 12 lítra á ári af áfengi (á Íslandi er talan 7,1). Drykkjumenning
Suður-Kóreu er þó allt önnur en á Íslandi og alls kyns hefðir og venjur eru í
kringum hana. Sömuleiðis voru ýmsir siðir þegar kemur að borðhaldi í
Suður-Kóreu. Áður fyrr byrjaði alltaf elsti karlinn að fá sér á diskinn en
konur borðuðu í öðru herbergi. Máltíðir voru hljóðlátar og yngsta kynslóðin
fékk síðust að borða en mátti heldur ekki klára fyrr en sá elsti var búinn. Fæstir
fara eftir þessum reglum enn í dag.
Rétturinn sem ég ákvað að gera frá Suður-Kóreu nefnist Bibimbap og er mjög vinsæll þar í landi enda yfirleitt gerður úr afgöngum eða því sem finnst í ísskápnum þann daginn.
Bibimbap
fyrir 4
Kjötið
100 g nautahakk
1 msk sojasósa
1 msk sesamolía
1 tsk sæta (má sleppa)
1/4 tsk saxaður hvítlaukur
Grænmetið
spínat
250 g spínat
1 tsk vorlaukur, smátt saxaður
1/2 tsk hvítlaukur, smátt saxaður
1/4 tsk salt
1 tsk sesamfræ
1 msk sesamolía
baunaspírur
350 g baunaspírur
1 tsk vorlaukur, smátt saxaður
1/2 tsk hvítlaukur, smátt saxaður
1/2 tsk salt
1 tsk sesamfræ
1 msk sesamolía
annað
100 g shiitake sveppir
120g gulrætur
1/2 tsk salt
1 haus brokkolí
4 egg
Olía
Þari
Bibimbapsósa
2 msk gochujang
1 msk sesamolía
1 msk sæta (t.d. sukrin gold)
1 msk vatn
1 msk sesamfræ
1 tsk edik (t.d. hvítvíns- eða eplaedik)
1 tsk hvítlaukur, smátt saxaður
Þessi réttur er samsettur úr mörgum smærri „réttum“ eða einingum sem eru eldaðar sér.
Kjöt: marínerið hakkið í sojasósu, sesamolíu, sykri og hvítlauk í hálftíma áður en það er svo steikt á pönnu.
Spínat: steikið spínat á pönnu ásamt hvítlauk og vorlauk í sesamolíu. Bætið sesamfræjum út á og saltið.
Baunaspírur: Snöggsjóðið baunaspírur og steikið þær svo á pönnu í sesamolíu. Bætið vorlauk, hvítlauk og sesamfræjum út á. Saltið.
Sveppir: Skerið sveppina í sneiðar og steikið upp úr olíu og saltið eftir smekk.
Gulrætur: Skerið gulræturnar í „julienne“. Snöggsteikið í smá olíu á pönnu og saltið eftir smekk.
Brokkolígrjón: Setjið brokkolí í blandara eða matvinnsluvél og búið til „grjón“. Setjið grjónin í pott og sjóðið í 2-3 mínútur. Óþarfi að salta.
Egg: Steikið egg alveg í lokin til að setja ofan á allt í skálinni.
Þari: Skerið þarann í mjóa strimla.
Sósa: Blandið öllu saman. Gochujang er erfitt að nálgast á Íslandi og því er hægt að nota t.d. sambal olek en það er samt ekki það sama.
Þetta var ótrúlega góður réttur. Það var reyndar aðeins flóknara að elda hann en ég hélt en hann var alveg þess virði! Hér mætti alveg leika sér aðeins með þetta "concept" og breyta hráefninu í það sem maður vill. Þetta er víst mikið notað í Suður-Kóreu til að klára restar úr ísskápnum. Mæli hiklaust með þessum rétti.
Afríka: 16 af 54 (29%)
Asía: 8 af 49 (16%)
Evrópa: 16 af 46 (34%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 4 af 12 (33%)
Samtals: 59 af 198 (29,8%)
Ummæli
Skrifa ummæli