Fílabeinsströndin - Rækjukokteill


Hvar? Í Vestur-Afríku með landamæri að Líberíu, Gíneu, Malí, Gana og Búrkína Fasó. 
Höfuðborg: Yamoussoukro
Stærð: 322.463 km² (rúmlega 3x stærra en Ísland)
Mannfjöldi: tæplega 24 milljónir
Íbúar: Íbúarnir tilheyra mörgum mismunandi þjóðum, flestir Akanar (42%), Gur (17,6%) og Norður-Mandes (16,5%). 
Tungumál: franska er opinbert tungumál en yfir 70 önnur tungumál, sem tilheyra flest ætt Nígerkongótungumála, eru töluð í landinu
Trúarbrögð: Flestir íbúar landsins eru sunní múslimar (39%) en þar á eftir kemur kristni (33%) og hefðbundin andatrú (12%).
Stjórnarfar: lýðveldi
Lífsgæði: mjög lítil, mikil fátækt og atvinnuleysi
Helstu atvinnuvegir: kakóframleiðsla, olíuvinnsla
Saga: Á svæðinu þar sem Fílabeinsströndin er nú hafa verið fjölmörg konungsríki frá a.m.k. 11. öld. Mikil viðskipti voru allt frá tímum Rómverja á milli Fílabeinsstrandarinnar og norðurstrandar Afríku. Evrópubúar hófu að versla við íbúa Fílabeinsstrandarinnar seint á 15. öld og Frakkar settust þar fyrstir að árið 1637. Frakkar eignuðust landið á seinni hluta 19. aldar. Fílabeinsströndin varð að sjálfstæðu ríki árið 1960. Pólitíkin hefur ekki verið friðsæl frá sjálfstæði og meðal annars framdi her landsins valdarán árið 1999 og borgarastyrjöld braust út í landinu árið 2002 og varði til 2007 og aftur árið 2011. 
Frægt fólk: Yaya og Kolo Toure, Didier Drogba

Matarmenning: Á Fílabeinsströndinni borðar fólk mikið af rótargrænmeti, kornmeti, svínakjöti, kjúklingi, sjávarfangi, fiski, ávöxtum og grænmeti. Pottréttir eru mjög vinsælir og helst eru þeir þá með kjúklingi, grænmeti og jarðhnetum eins og almennt í Vestur-Afríku. 

Fyrir Fílabeinsströndina gerði ég rækjukokteil á vestur-afríska vísu.

Rækjukokteill

200 g eldaðar rækjur
1 msk tómatsósa
1 msk mæjónes
safi úr 1/4 af lime
salt og pipar
3 avókadó

1. Byrjið á að saxa rækjurnar í litla bita og setjið í skál.
2. Setjið tómatsósuna og mæjónesið út í ásamt limesafa, salti og pipar og hrærið vel saman.
3. Skerið avókadóin í tvennt og takið steinana úr.
4. Fyllið holurnar í avókadóunum af rækjum. 

Hér er kominn ótrúlega einfaldur en ljúffengur forréttur. Þetta er auðvitað ekki mikið nýtt fyrir utan að bera þetta fram með avókadó - blanda sem er virkilega góð saman. 

Þá eru 65 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Singapúr!


Afríka: 18 af 54 (33%)
Asía: 9 af 49 (18%)
Evrópa: 18 af 46 (39%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 5 af 12 (42%)


Samtals: 65 af 198 (32,8%)

Ummæli

Vinsælar færslur