Holland - Hachee

Hvar? Holland er land í Vestur-Evrópu sem á landamæri að Belgíu og Þýskalandi. 
Höfuðborg: Amsterdam (íbúar: 851.573)
Stærð: 41.543 km2 (álíka stórt og Norðurland og Vestfirðir)
Mannfjöldi: 17.170.000 manns
Íbúar: 77,39% Hollendingar, 9,88% aðrir Evrópubúar, 2,34% Tyrkir, 2,29% Marokkómenn og fleiri hópar innflytjenda. 
Tungumál: Hollenska en frísneska, enska og papiamento á ákveðnum svæðum. 
Trúarbrögð: 67,8% trúlausir/utan trúfélaga, 25% kristnir, 5,8% íslam. 
Lífsgæði: Afburða góð. 
Saga: Á miðöldum var svæðið þar sem Holland er nú undir yfirráðum Frankaríkis, Lóþaringíu og loks þýska ríkisins. Í raun réðu þó ýmsir greifar og furstar á svæðinu. Árið 1506 varð svæðið hluti af ríki Habsborgara. Hálfri öld seinna erfði FIlippus nokkur bæði Niðurlönd og Spán. Filippus var kaþólskur og líka illa hve opnir Hollendingar voru fyrir hugmyndum Marteins Lúters. Filippus ákvað að gera eitthvað í málunum en það endaði með uppreisn Hollendinga sem varð svo að frelsisstríði sem varði í 80 ár. Á meðan frelsisstríðið geysaði byrjuðu Hollendingar að kanna heimsins höf. Þeir stofnuðu nýlendur víðs vegar um heiminn, t.d. á Máritíus, Indónesíu, Síam, Súrínam, Suður-Afríku og Indlandi. Í Vesturheimi má nefna borgina Nýju Amsterdam, sem var stofnuð 1624, Haarlem og Breukelen. Bretar hertóku þessar borgir ekki svo löngu seinna og breyttu nöfnunum þá í New York og Brooklyn. Niðurlönd voru innlimuð í Frakkland árið 1810 af Napóleón og voru Niðurlönd hluti af Frakklandi í þrjú ár. Árið 1830 gerðu Belgar byltingu og sögðu sig úr sambandi við Holland. Lúxemborg gerði slíkt hið sama níu árum seinna. Þar með var Holland eins og við þekkjum það í dag orðið til. Hollendingar fengu stjórnarskrá árið 1848. Í fyrri heimstyrjöldinni ákvað Holland að vera hlutlaust en var hertekið af Prússum. Í seinni heimstyrjöldinni reyndu Hollendingar aftur að vera hlutlausir en voru herteknir af nasistum árið 1940. Um 160 þúsund hollenskir gyðingar voru fluttir úr landi af nasistum. Eftir stríð missti Holland flestar sínar nýlendur en enn á Holland örfáar eyjar í Karíbahafi.
Frægir Hollendingar: Vincent van Gogh, Arjen Robben, Rembrandt, Johannes Vermeer, Jan Steen, Anouk, Mata Hari, Anna Frank o.fl.

Matarmenning: Matamenning Hollands er einföld en virkar vel. Mikið er borðað af kjöti, kjötmeti og kartöflum ásamt mjólkurvörum, brauði, grænmeti og sjávarfangi við ströndina. Holland á tvo mjög þekkta osta, Gouda og Edam-ost. Sömuleiðis á Holland marga þekka áfenga drykki, sérstaklega nokkrar bjórtegundir (t.d. Heineken og Grolsch) en einnig er gin upprunalega frá Hollandi. 

Rétturinn sem ég ákvað að elda frá Hollandi heitir hachee. Rétturinn er kjötkássa og verður bara betri eftir því sem maður eldar hann lengur. Hann er mjög "týpískur" vestur-evrópskur réttur. 

Hachee
900 g nautagúllas
3 msk smjör
2 laukar, saxaðir
1 l nautasoð
3 lárviðarlauf
3 negulnaglar
4 einiber
10 svört piparkorn
2 msk rauðvínsedik
salt og pipar

1. Byrjið á því að bræða smjör í potti og brúna kjötið á öllum hliðum. Passið að setja ekki of mikið af kjöti í einu í pottinn. Geymið svo kjötið á diski til hliðar.
2. Bræðið meira smjör í pottinum og bætið lauknum út á og „karamellíserið“ hann. 
3. Setjið kjötið aftur í pottinn, hrærið vel og setjið svo soðið út á. 
4. Næst fara öll kryddin út í ásamt rauðvínsedikinu. Hrærið og setjið svo lokið á pottinn.
5. Látið réttinn malla í 2-3 klukkustundir. 
6. Saltið og piprið í lokin eftir smekk. 

Venjulega væri þessi réttur borinn fram með kartöflustöppu og rauðkáli. 

Mér fannst þetta góður réttur en hann var langt í frá eitthvað nýtt. Þetta er mjög kunnuglegt bragð, kjöt og brún sósa. Hann stendur þó alltaf fyrir sínu. 

Þá eru 63 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Svíþjóð!


Afríka: 17 af 54 (31%)
Asía: 9 af 49 (18%)
Evrópa: 17 af 46 (37%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 5 af 12 (42%)


Samtals: 63 af 198 (31,8%)

Ummæli

Vinsælar færslur