Svíþjóð - Smörgåstårta och kladdkaka


Flestir þekkja nú Svíþjóð ágætlega. Við skulum nú samt rifja staðreyndirnar aðeins upp. 
Hvar? Í Norður-Evrópa með landamæri að Noregi og Finnlandi. 
Höfuðborg: Stokkhólmur
Stærð: 450.295 km² (meira en fjórfalt Ísland)
Mannfjöldi: 10 milljónir
Íbúar: Yfir 70% íbúa Sviþjóðar eru Svíar eða Samar en allt að 30% íbúanna hafa einhvern erlendan bakgrunn. Flestir innflytjendur eru frá Finnlandi, en þar á eftir koma Sýrlendingar og Írakar. 
Tungumál: Sænska er opinbert tungumál en finnska, meänkieli, samíska, romaní og yiddíska eru opinber minnihlutatungumál í Svíþjóð.
Trúarbrögð: flestir Svíar eru kristnir - um 60% eru í sænsku þjóðkirkjunni
Æðsti þjóðhöfðingi: Karl Gústaf, konungur
Lífsgæði: mjög mikil
Saga: Svíþjóð byggðist á steinöld. Víkingaöldin í Svíþjóð varði frá 8.-11. öld og sænskir Víkingar fóru víða, allt austur til Konstantínópel og Bagdad. Svíþjóð var orðin að sameinuðu konungsríki við byrjun 12. aldar. Svíþjóð var meðlimur í Kalmarsambandinu frá 1397-1523. Á 17. öld fór Svíþjóð að láta til sín taka og fór í stríð við Rússland og Pólsk-litháíska samveldið og tók þátt í 30 ára stríðinu. Um miðja 17. öld var Svíþjóð orðið þriðja stærsta land í Evrópu og átti þá Finnland og landsvæði víðs vegar við Eystrasalt. Smám saman missti Svíþjóð samt landsvæðin á komandi árum. Árið 1814 eignaðist Svíþjóð Noreg og átti hann allt til 1905. Á seinni hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. fóru margir Svíar til Vesturheims, líkt og á Íslandi. Talið er að meira en milljón Svía hafi farið til Ameríku á þessum tíma. Á 20. öldinni varð Svíþjóð að lýðræðisríki með þingbundna konungsstjórn og varð að því sósíalíska velferðarríki sem við þekkjum í dag. 
Frægt fólk: Ingrid Bergman, Greta Garbo, Alexander Skarsgård, Alfred Nobel, Avicii, meðlimir ABBA, Zara Larsson, Carl Linnaeus, Björn Borg, Astrid Lindgren, Stieg Larsson o.fl.
Matarmenning: Sænsk matarmenning er afskaplega norræn. I Svíþjóð er mikið notað af mjólkurvörum, brauði (bæði mjúku og hrökkbrauði), berjum, kjöti, fiski og kartöflum. Kjötréttir eru gjarnan borðaðir með títuberjasultu og kökur, smákökur og bollur eru vinsælir eftirréttir eða með kaffinu (fika). 

Frægir sænskir réttir: sænskar kjötbollur, surströmming, smörgåstårta, gravlax, pyttipanna, kladdkaka o.fl.

Smörgåstårta
Roast Beef-brauðterta

Brauð
300 g smurostur, hreinn
3 egg

Fylling 1
75 g lifrarkæfa
2 msk rjómi
75 g beikon
1/2 dl súrar gúrkur, smátt saxaðar

Fylling 2
100 g skinkusmurostur

Fylling 3
1 1/2 dl remúlaði
150 g roast beef, saxað

Skraut
1 1/2 dl mæjónes
3/4 dl sýrður rjómi
gúrka
ferskja
steiktur laukur
150 g roast beef 
eða það sem ykkur dettur í hug

1. Byrjið á að útbúa „brauðið“ fyrir brauðtertuna með því að þeyta saman egg og smurost þar til engir kekkir eru eftir. 
2. Setjið bökunarpappír á plötu og hellið 1/3 af blöndunni á hana. Setjið plötuna inn í 175°C heitan ofn og bakið í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til brauðið er búið að fá á sig smá lit. 
3. Takið brauðið úr ofninum og leyfið því að kólna smá áður en það er tekið af pappírnum. Til að gera brauðið snyrtilegra er sniðugt að skera brauðið út og gera það kringlótt sem dæmi. Geymið afskurðinn til að búa til eitt lag af brauði. 
4. Endurtakið þetta tvisvar í viðbót og steikið beikonið á meðan. 
5. Blandið saman lifrarkæfunni og rjómanum í skál.
6. Setjið fyrsta lagið af brauði á kringlótt fat og smyrjið með kæfublöndunni.
7. Stráið vel steiktu beikoni ofan á ásamt súrri gúrku.
8. Setjið annað lag af brauði ofan á og smyrjið það með skinkusmurosti.
9. Næsta lag ætti að vera búið til úr afskurðinum. Það er svo smurt með remúlaði og roast beef stráð yfir. 
10. Síðasta brauðið er svo lagt á tertuna. 
11. Blandið saman mæjónesi og sýrðum rjóma og smyrjið alla tertuna með blöndunni. Passið að þekja alla tertuna vel. 
12. Skreytið svo tertuna eins og ykkur sýnist. 

Kladdkaka

Kladdkökuuppskriftina fann ég hér

Kladdkaka klikkar auðvitað aldrei og hún er langbest með miklum rjóma. Brauðterta með roast beef og remúlaði var hins vegar eitthvað alveg nýtt. Þetta er svo sem ekki hin hefðbundna sænska brauðterta, því hún er einfaldlega eins og sú íslenska. Mér fannst hún alveg æðisleg en reyndar var algjör óþarfi að vera að blanda lifrarkæfu og beikoni inn í þetta allt. Það gerði hana ekkert verri en þetta var pínu eins og tvær mismunandi brauðtertur í einni brauðtertu. Ég myndi sleppa kæfunni og beikoninu næst þegar ég geri þessa. 

Þá eru 64 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Fílabeinsströndin!


Afríka: 17 af 54 (31%)
Asía: 9 af 49 (18%)
Evrópa: 18 af 46 (39%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 5 af 12 (42%)


Samtals: 64 af 198 (32,3%)

Ummæli

Vinsælar færslur