Úrúgvæ - Ein með öllu
Hvar? Úrúgvæ er land í Suður-Ameríku sem á landamæri að Argentínu og Brasilíu.
Höfuðborg: Montevídeó
Stærð: 176.215 km2
Mannfjöldi: 3,4 milljónir
Íbúar: Flestir íbúanna eru af evrópskum uppruna (tæp 88%), tæp 5% íbúanna eru af afrískum uppruna og aðeins 2,4% íbúanna teljast til frumbyggja.
Tungumál: Opinbert tungumál Úrúgvæ er spænska. Um 15% landsmanna hafa portúgölsku að móðurmáli. Ekkert frumbyggjamálanna er enn notað í dag.
Trúarbrögð: Flestir íbúar Úrúgvæ eru kristnir (47%) en það er engin opinber trú í landinu.
Lífsgæði: Nokkuð yfir meðallagi og gaman er að segja frá því að 95% af rafmagni Úrúgvæ er búið til með sjálfbærum hætti - vatnsaflsvirkjanir og vindmyllur.
Helstu útflutningsvörur: Nautakjöt/afurðir og sojabaunir.
Stjórnarfar: Lýðveldi
Saga: Þegar Portúgalar settust að í Úrúgvæ árið 1680, fyrstir Evrópubúa, hafði Charrúa-fólkið búið þar í a.m.k. 4000 ár. Spánverjar stofnuðu Montevídeó á 18. öld til að styrkja völd sín í álfunni. Eftir 17 ár af stríði við fjórar þjóðir (Spán, Portúgal, Argentínu og Brasilíu) varð Úrúgvæ loksins sjálfstætt ríki árið 1828. Alla 19. öldina ráðskuðust önnur ríki með landið. Mest alla 20. öldina hafði herinn mikil afskipti af pólitík þar í landi. Í dag er landið orðið að lýðræðisríki og er það land í rómönsku Ameríku sem býr við mestan pólitískan stöðugleika, minnsta spillingu og mest frelsi fjölmiðla.
Matarmenning: Matarmenningin í Úrúgvæ er eins konar blanda af matarmenningu ýmissa Evrópulanda, sérstaklega Spánar, Frakklands, Portúgals og Ítalíu. Almennt er maturinn mjög líkur því sem gerist í Argentínu. Mjög lítið hefur varðveist af matarmenningu frumbyggjanna. Grunnur flestra rétta eru dýraafurðir, sérstaklega er nautakjöt vinsælt. Kjúklingur, lambakjöt, svínakjöt og fiskur er einnig borðaður. Vinsælustu eldunaraðferðir fyrir bæði kjöt og grænmeti eru suða, steiking í ofni og "grillun". Alls kyns sætindi eru vinsæl í Úrúgvæ t.d. churros, dulce de leche og alfajores.
Rétturinn sem ég ákvað að gera frá Úrúgvæ er mjög einfaldur: ein með öllu á úrúgvæskan máta.
Úrúgvæsk pylsa með öllu
Á úrúgvæska pylsu fara:
gular baunir
salsa golf (tómatsósa + mæjónes)
bráðinn ostur
relish
salsasósa
Þær eru svo borðaðar í brauði.
Ég verð að segja að mér finnst meira og betra jafnvægi í íslensku pylsunum. Mér fannst eitthvað vanta á þessa pylsu en hún var samt alls ekkert vond.
Þá eru 67 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Malaví!
Afríka: 18 af 54 (33%)
Asía: 10 af 49 (20%)
Evrópa: 18 af 46 (39%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 67 af 198 (33,8%)
Ummæli
Skrifa ummæli