Búrúndí - Steiktur fiskur í jarðhnetusósu
Hvar? Búrúndí er landlukt land í Mið-Afríku og á landamæri að Rúanda, Tansaníu og Lýðveldinu Kongó.
Höfuðborg: Bújúmbúra
Stærð: 27.834 km2
Mannfjöldi: 10,5 milljónir
Íbúar: Flestir íbúanna eru af ættbálki Húta (85%), næst koma Tútsar með 14% og Túar með 1%.
Tungumál: Flestir tala kirundi en franska er tungumál í stofnunum. Svahílí er töluð við landamærin að Tansaníu.
Trúarbrögð:Um 80-90% landsmanna eru kristnir, flestir kaþólskir. Um 5% fólks stundar enn upprunalega trúarbrögð landsins.
Náttúra og loftslag: Frumskógarloftslag. Landið er mest allt á hásléttu í um 1700 m hæð. Í suðvesturhluta landsins er stöðuvatn sem nefnist Tanganyika.
Stjórnarfar: Lýðveldi með forsetaræði
Lífsgæði: Lífsgæði eru mjög slæm og mannréttindi eru ekki virt. Fólk er bókstaflega tekið af lífi eða fangelsað án dóms og laga. Samkynhneigð er ólögleg. Einungis 50% barna ganga í skóla og einn af hverjum 15 eru HIV-jákvæðir. Innan við 2% landsmanna hafa rafmagn á heimilinu og um 80% lifa undir fátæktarmörkum.
Helstu atvinnuvegir: Mjög lítið er af auðlindum í landinu og landbúnaður er aðal atvinnugreinin. Útflutningur er helst kaffi, gull og te.
Saga: Núverandi íbúar Búrúndí, Túar, Hútúar og Tútsar hafa búið á þessu svæði í að minnsta kosti fjórar aldir. Tútsar stofnuðu konungsríkið Búrúndí á svæðinu undir lok 17. aldar en í upphafi 20. aldar lögðu Belgar og Þjóðverjar ríkið undir sig. Búrúndí varð þá hluti af nýlendunni Rúanda-Úrúndí. Hútúar hófu árásir á Tútsa áður en landið hafði fengið sjálfstæði og þess vegna sóttist Búrúndí eftir aðskilnaði frá Rúanda. Landið varð sjálfstætt árið 1962 og tók upp þingbundna konungsstjórn sem entist í fjögur ár. Lýðveldi tók þá við að nafninu til, í rauninni var herforingjastjórn í landinu frá 1966. Nokkrum árum síðar hófust vopnuð átök á milli Hútúa og Tútsa. Stjórnarskrá landsins var breytt árið 1992 til að afnema flokkræði. Í kjölfarið braust út borgarastyrjöld sem stóð frá 1993 til 2006. Frá lokum borgarastyrjaldarinnar hefur landið hafið endurbyggingu en hún hefur gengið hægt og landið er eitt það fátækasta í heimi.
Matarmenning: Nýrnabaunir eru vinsælt prótein í Búrúndí og bananavín og bjór eru vinsæltustu áfengu drykkirnir. Sætar kartöflur, maís og baunir eru mikilvæg fæða fyrir íbúa Búrúndí og kjöt er sjaldan borðað vegna þess hvað það er dýrt.
Steiktur fiskur í jarðhnetusósu
Olía
600 g fiskur
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
1 kubbur fiskikraftur
1 msk saxaður kóríander
1/2 tsk engifer
1/2 tsk múskat
salt og pipar
1 tsk þurrkaðar rækjur/rækjupaste (til í asískum verslunum)
jarðhnetuolía (eða matarolía)
1 laukur, í sneiðum
1-3 chili
240 ml hnetusmjör
1. Byrjið á að hita olíu á pönnu og steikið fiskinn á pönnunni ásamt hvítlauknum. Setjið fiskinn síðan á disk og geymið.
2. Setjið 1/2 líter af vatni í pott og setjið fiskikraftinn, kóríander, engifer, múskat, salt, pipar og rækjupaste út í vatnið og náið upp suðu.
3. Lækkið hitann og látið malla.
4. Takið aftur fram pönnuna með hvítlauknum, bætið við jarðnhnetuolíu á hann og chili-inu og lauknum. Steikið þar til laukurinn brúnast.
6. Setjið fiskinn aftur á pönnuna.
7. Bætið við hnetusmjöri í pottinn og hrærið þar til blandan er jöfn og fín.
8. Setjið sósuna út á fiskinn og leyfið þessu að malla saman í smá stund.
9. Berið svo fiskinn fram með sósunni og venjulega eru líka hrísgrjón og soðnir mjölbananar með. Blómkáls- eða brokkolígrjón eru góðir staðgenglar fyrir hrísgrjón.
Mér fannst þessi réttur alls ekki góður. Það var alltof lítið af kryddum og of mikið rækjubragð. Þennan rétt mun ég aldrei gera aftur.
Þá eru 69 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Óman!
Afríka: 20 af 54 (37%)
Asía: 10 af 49 (20%)
Evrópa: 18 af 46 (39%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 69 af 198 (34,8%)
Ummæli
Skrifa ummæli