Kasakstan - Sítrónukjúklingur
Hvað gæti fólk í Kasakstan mögulega borðað? (Hvað borðar Borat?) Þetta er einmitt það sem ég hugsaði með sjálfri mér þegar Kasakstan var dregið. Ég sá allavega ekki fyrir mér mjög girnilegan mat. Raunin var svo sannarlega allt önnur. En fyrst aðeins um landið:
Kasakstan er land í Mið-Asíu sem á landamæri að Rússlandi, Kína, Kirgistan, Úsbekistan og Túrkmenistan. Landið er 2.727.900 km2 og er því rúmlega 26 sinnum stærra en Ísland og þar búa tæplega 18 milljónir manns. Flestir íbúanna eru Kasakar (67%) en rúm 20% eru Rússar og hin 13 prósentin skiptast á milli þjóða eins og nágrannaþjóðanna og þjóða fyrrum Sovétríkjanna. Opinber tungumál landsins eru tvö, kasaska og rússneska. Um 70% íbúanna eru múslimar og tæp 25% eru kristnir. Kasakstan er alveg landlukt ríki en á þó strönd að Kaspíahafi. Landið er það níunda stærsta í heimi. Einn þriðji hluti landsins eru þurrar gresjur. Loftslagið er meginlandsloftslag með mjög köldum vetrum og heitum sumrum. Höfuðborgin, Astana, er einmitt næstkaldasta höfuðborg heims. Lífsgæðin í Kasakstan eru nokkuð góð, svipuð og í Búlagaríu og á Bahamaseyjum (56. sæti). Ástandið hvað varðar mannréttindi mætti þó vera betra því í Kasakstan eru fjölmiðlar ekki frjálsir, mótmæli yfirleitt ekki leyfð og dómstólar eru ekki óháðir. Spilling er mikil og fólk í góðum stöðum hikar ekki við að þyggja mútur.
Í Kasakstan bjuggu upphaflega hirðingjar og orðið kasak þýðir einmitt hirðingi í túrkískum málum eins og kasösku. Stan þýðir svo einfaldlega land: Hirðingjaland. Fjölmörg ríki hafa ríkt yfir Kasakstan eða hluta af Kasakstan t.d. Húnar, Köktyrneska ríkið, Samanídaríkið og Tyrkjaveldi, Gengis Khan réðst inn í landið á 12. öld og loks á innlimaði Rússland Kasakstan inn í keisaradæmi sitt árið 1742. Uppreisn varð í kjölfarið og talið er að um milljón Kasakar hafi dáið í átökunum. Á tímum Sovétríkjanna var mikill fjöldi Kasaka myrtur af Stalín og á árunum 1936-1950 voru margir óvinir stjórnar Sovétríkjanna sendir til að vinna í kolanámum og vinnubúðum í Kasakstan. Í kalda stríðinu voru gerðar kjarnorkutilraunir í landinu sem varð til þess að fjölmennustu mótmæli í sögu Sovétríkjanna voru haldin í Kasakstan árið 1989 og eftir það hættu Sovétríkin kjarnorkutilraunum sínum þar. Árið 1991 féllu Sovétríkin og Kasakstan varð sjálfstætt ríki þann 16. desember 1991. Lítill kolanámubær, Aqmola, var gerður að höfuðborg landsins. Bærinn skipti seinna um nafn og heitir í dag Astana, sem þýðir einmitt höfuðborg á kasösku. Sami forseti hefur ríkt í landinu frá sjálfstæði og sumum finnst hann vera einræðisherra frekar en forseti.
Matarmenning: Maturinn í Kasakstan inniheldur fyrst og fremst kinda- og hrossakjöt ásamt mjólkurvörum (úr sauða- og kaplamjólk). Kjöt var gjarnan saltað og þurrkað áður fyrr til þess að það geymdist lengur. Hveiti kom seint til Kasakstan en það er núna notað mikið og það sama gildir um ávexti, grænmeti, fiskmeti og sætmeti. Silkileiðin lá að hluta til í Kasakstan og því er nokkuð um krydd í matnum. Maturinn varð fyrst og fremst að vera auðveldur til flutninga vegna þess að nær allir Kasakar voru hirðingjar lengi vel.
Ég veit ekki hversu kasaskur þessi réttur er því hann inniheldur kjúkling en ekki kinda- eða hrossakjöt en kannski er rétturinn bara frekar nýr. Ég vona það allavega.
Sítrónukjúklingur
1 msk ólífuolía
heill kjúklingur
1 tsk engifer
1/2 tsk paprikuduft
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
1 laukur, saxaður
1/8 tsk saffran
1/4 tsk múskat
salt og svartur pipar
3 dl kjúklingasoð
1 dl grænar ólífur, saxaðar
2 msk sítrónubörkur
1. Byrjið á að hita ofninn í 200°C.
2. Blandið saman engifer, papriku, hvítlauk, lauk og saffrani í skál. Nuddið svo kjúklinginn með blöndunni.
2. Setjið svo smá salt og pipar á kjúklinginn áður en hann er settur í pott með vatni til hálfs. Bringurnar eiga að snúa niður
3. Náið upp suðu í pottinum og stingið honum síðan inn í ofn. Bakið kjúklinginn í 30 mínútur áður en honum er snúið við og hann eldaður í 25-30 mínútur í viðbót.
4. Þegar kjúklingurinn er eldaður í gegn er hann settur á fat en potturinn settur á hellu og sósan er útbúin.
5. Til að búa til sósuna skulið þið bæta við kjúklingasoði, ólífum og sítrónuberki. Leyfið sósunni að malla í um 5 mínútur áður en maturinn er borinn fram.
Kjúklingur hálfsoðinn í ofni hljómar kannski ekkert alltof vel en þetta er aðferð sem allir ættu að prófa. Úr þessu kom nefnilega afskaplega safaríkur kjúklingur og ljúffeng og bragðmikil sósa með. Þetta er réttur sem ég mun klárlega gera aftur… og aftur.
Afríka: 21 af 54 (38%)
Asía: 12 af 49 (24%)
Evrópa: 19 af 46 (41%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 73 af 198 (36,8%)
Ummæli
Skrifa ummæli