Kosóvó - tarator


Hvar? Kosóvó er landlukt ríki á Balkanskaga sem á landamæri að Serbíu, Svartfjallalandi, Albaníu og Makedóníu.
Höfuðborg: Pristína
Stærð: 10.908 km2 (rúmlega á stærð við Norður-Múlasýslu)
Mannfjöldi: 1,9 milljónir
Íbúar: Um 92% landsmanna eru af albönskum uppruna en einungis 4% eru af serbneskum uppruna. Aðrir hópar fólks eru Bosníumenn, Gorani-fólkið, Tyrkir og Rómafólk.
Tungumál: Opinber tungumál eru serbneska og albanska. Bosníska, tyrkneska, gorani og rómamál eru viðurkennd minnihlutamál. Um 95% landsmanna hafa albönsku að móðurmáli.
Trúarbrögð: Engin opinber trúarbrögð eru í landinu en flestir eru múslimar (95,6% árið 2011).
Náttúra og lofslag: Landið er mjög fjalllent og tiltölulega hátt yfir sjávarmáli. Loftslagið er mitt á milli meginlandsloftslags og miðjarðarhafsloftslags.
Lífsgæði: Lífsgæði í Kosóvó eru nokkuð góð .  
Saga: Á fornöld var Kosóvó miðstöð ríkis Dardana en á miðöldum var landið orðið hluti af Serbíu. Frá 15. öld og þar til snemma á 20. öld var Kosóvó hluti af Tyrkjaveldi. Eftir síðari heimstyrjöldina varð Kosóvó hluti af Júgóslavíu. Átök milli Albana og Serba leiddu til Kosóvóstríðsins 1998-9 lauk með innrás NATO og Kosóvó varð verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna. Þann 17. febrúar 2008 lýsti Kosóvó yfir sjálfstæði frá Serbíu. Kosóvó er ekki að fullu sjálfstætt land því einungis 116 lönd heimsins hafa viðurkennt sjálfstæði landsins, þar á meðal er Ísland í mars 2008.
Frægt fólk: Rita Ora

Matarmenning:  Matarmenning Kosóvó er lík því sem gerist í nágrannalöndunum og albönsk og tyrknesk matarmenning hefur haft mikil áhrif á hana. Burek, bökur, pítur, kebab og pylsur eru vinsæll matur. Nokkuð er borðað af mjólkurvörum og brauði. Kjöt er helst nautakjöt, kjúklingur eða lambakjöt. Baunir, hrísgrjón, paprika, gúrka, tómatar og kál eru mikið notuð.

Rétturinn sem ég valdi fyrir Kosóvó er reyndar afskaplega vinsæll um allan Balkanskaga og Miðausturlönd, svo þetta er ekki al-kosóvóskur réttur. Reyndar rétturinn mögulega upprunninn frá Búlgaríu en það er afskapelga erfitt að greina á milli rétta á Balkanskaga þegar löndin eru svo skyld innbyrðis. Tarator-súpan er gjarnan borðuð á heitum sumardögum. 

Tarator
fyrir 3-6

2 gúrkur 
500 g grísk jógúrt eða hrein jógúrt
2-3 hvítlaukrif
2-3 saxaðar valhnetur (má sleppa)
ferskt dill
ólífuolía
salt
vatn (ef þarf)

1. Skerið gúrkurnar í mjög litla tenginga. Einnig má rífa þær niður.
2. Setjið jógúrt í skál og hrærið í henni áður en gúrkan er sett út á. 
3. Pressið hvítlaukinn í hvítlaukspressu og setjið út í jógúrtina ásamt valhnetum og söxuðu dilli. 
4. Saltið eftir smekk og setjið smá olíu út á.
5. Ef það þarf bætið þá vatni við til að ná þeirri þykkt sem þið viljið hafa. Súpan á þó alls ekki að vera mjög þunn. 

6. Geymið í ísskáp þar til súpan er borin fram, en hún er borin fram sem köldust. 

Þá eru 71 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Namibía!


Afríka: 20 af 54 (37%)
Asía: 11 af 49 (22%)
Evrópa: 19 af 46 (41%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 71 af 198 (35,8%)

Ummæli

Vinsælar færslur