Malaví - Mtedza


Hvar? Malaví er landlukt land í Suðaustur-Afríku sem á landamæri að Mósambík, Tansaníu og Sambíu. 
Höfuðborg: Lílongve
Stærð: 118.484 km² (Rúmlega einu Austurlandi stærra en Ísland)
Mannfjöldi: 18 milljónir
Íbúar: Það eru fjölmargir þjóðir í Malaví sem mætti skipta í níu flokka. Fjölmennasti hópurinn er Chewa sem um 33% landsmanna tilheyra. Næstu hópar eru Lomwe (17,6%) og Yao (20,5%). 
Tungumál: Opinbert tungumál er enska en Chichewa er viðurkennt minnihlutamál. Auðvitað eru mikið fleiri tungumál töluð en þessi tvö.
Trúarbrögð: Flestir Malavar eru kristnir en einnig eru þó nokkrir múslimar í landinu. 
Náttúra og loftslag: Malaví liggur eftir Sigdalnum mikla frá norðri til suðurs. Beggja vegna við sigdalinn eru hásléttur sem eru í um 900-1200 metra hæð. Malavívatn er gríðarstórt vatn sem er staðsett í botni sigdalsins. 
Lífsgæði: Ekki er hægt að segja að lífsgæðin í Malaví séu góð. Landið er með þeim minnst þróuðu í heiminum. Mikið er um ofbeldi, sérstaklega gegn konum og oft er það vegna gruns um galdra. Mansal og barnaþrælkun eru vandamál og ríkisstjórnin gjörspillt. Barnabrúðkaup eru með því mesta sem þekkist í heiminum og árið 2010 var samkynhneigð ólögleg. 
Helstu atvinnuvegir: Landbúnaður og útflutningur er helst unnið eða óunnið tóbak og te. 
Saga: Fólk hefur búið um langt skeið í Malaví. Á 15. öld var Maravi-veldið stofnað þar sem nú er suðvesturströnd Malavívatns. Veldið stækkaði og þegar það stóð sem hæst náði það yfir til Mósambík og Sambíu. Veldið leið undir  lok á 18. öld. Maraví-veldið verslaði nokkuð við Portúgala og Araba. Árið 1859 settist breskur trúboði að við Malavívatn og lét byggja kirkjur. Hann hét David Livingstone. Út frá því gera Bretar Malaví að verndarsvæði sínu árið 1891 og að nýlendu ári 1907. Malavar voru ekki ánægðir og gerðu margsinnis uppreisn. Malaví varð sjálfstætt ríki árið 1964. Fyrsti forseti landsins, Hastings Banda stjórnaði landinu til dauðadags árið 1997. Eftir það hafa ýmsar ríkisstjórnir setið og þær hafa samanstaðið af tveimur eða fleiri flokkum. 
Matarmenning: Þar sem Malaví liggur við vatn er fiskur mikilvæg fæða í landinu. Eins eru sykur, kaffi, te, maís, kartöflur, sorghum, nautakjöt og geitakjöt mikilvægur hluti máltíða.


Rétturinn sem ég ákvað að elda frá Malaví er mtedza, sem eru bakaðar jarðhnetubollur. 

Mtedza

120 ml af mjúku smjöri
2 msk sykur (sæta)
180 ml fínt saxaðar salthnetur
1 tsk vanilludropar
240 ml möndlumjöl (upphaflega hveiti)
flórsykur/sukrin melis

1. Hitið ofninn í 175°C og saxið salthneturnar. 
2. Setjið smjör og sætu í skál og þeytið vel saman. 
3. Bætið salthnetunum út í smjörið og hrærið saman.
4. Setjið síðan hveitið út í og blandið.
5. Setjið bökunarpappír á plötu og mótið litlar kúlur með höndunum. 
6. Bakið kúlurnar í 20 mínútur eða þar til þær hafa fengið á sig smá lit. 
7. Veltið kúlunum upp úr flórsykri/sukrin melis og berið fram. 

Kúlurnar mínar misheppnuðust alveg svakalega. Ég brenndi þær og þær komu ekki út úr ofninum í kúlulaga formi. En þrátt fyrir allt voru þær nú bragðgóðar. Ég reyni að gera þessa uppskrift aftur seinna. 


Þá eru 68 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Búrúndí!




Afríka: 19 af 54 (35%)
Asía: 10 af 49 (20%)
Evrópa: 18 af 46 (39%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 68 af 198 (34,2%)

Ummæli

Vinsælar færslur