Namibía - Kapana



Hvar? Namibía er land í sunnanverðri Afríku sem á landamæri að Angóla, Suður-Afríku, Sambíu og Botswana. 
Höfuðborg: Windhoek
Stærð: 824.116 km2  (8x Ísland)
Mannfjöldi: 2,1 milljón (2011) - Namibía er næst dreifbýlasta sjálfstæða land heims (Ísland er í 6. sæti).
Íbúar: Namibía er mikið fjölmenningarland og þar búa nokkrir þjóðflokkar. Ovambo-flókið er fjölmennast með tæp 50%, því næst kemur Kavango-fólkið með 9% og því næst Herero- og Damara-fólkið með 7% hvort. 
Tungumál: Fjölmörg tungumál eru töluð, flest tilheyra ætt Bantú-mála. Opinber tungumál landsins er þó enska. Önnur viðurkennd minnihlutamál eru t.d. afrikaans, þýska, otjiherero, khoekhoe og fleiri mál frumbyggja. 
Trúarbrögð: 80-90% landsmanna eru kristnir en 10-20% halda enn í gömlu trúarbrögðin.
Náttúra og loftslag: Tvær gríðarstórar eyðimerkur þekja landsvæði Namibíu, Namib-eyðimörkin og Kalahari-eyðimörkin. Landið er þurrasta land í Afríku sunnan Sahara. Landbúnaður er erfiður og gróður almennt lítill. 
Lífsgæði: Með bestu lífsgæðum sem finnast í Afríku sunnan Sahara en þau eru vissulega lítil miðað við Ísland. Þá er misskipting auðs mikil. Vatn er af skornum skammti og mörg vandamála landsins tengjast því. Um 13-14% íbúanna eru HIV-smitaðir.  
Saga: Búskmenn eru taldir vera upprunalegir íbúar Namibíu en seinna fluttust fleiri ættflokkar til landsins. Fyrstu evrópubúarnir sem komu til Namibíu voru Portúgalir. Á 19. öld komu Búar/Hollendingar til landsins og settust að þar sem nú er Windhoek. Þegar kapphlaupið um Afríku hófst á síðari hluta 19. aldar varð Namibía þýsk nýlenda. Demantsnámur uppgötvuðust árið 1908 og þá fjölgaði evrópskum innflytjendum hratt. Innflytjendurnir voru hvattir til að ræna landi innfæddra og neyða þá til vinnu. Í kjölfar þess var framið þjóðarmorð á Herero- og Namaquafólkinu. Í fyrri heimstyrjöldinni hertók Suður-Afríka landið og átti það til ársins 1990 en þá hlaut Namibía sjálfstæði. Frá sjálfstæði hefur saga Namibíu verið tiltölulega friðsæl. 

Matarmenning: Matarmenning Namibíu er mismunandi á milli ættflokka og sérstaklega hefur þýsk og bresk matarmenning haft áhrif á matarvenjur landsmanna. Sem dæmi er vínarsnitsel borðað í Namibíu. Upphaflega borðaði fólkið í Namibíu þó ýmsa ávexti, hnetur, rætur, lauf og annað sem fannst í eyðimörkinni ásamt kjöti af dýrunum sem voru veidd. Kýr urðu að húsdýrum á svæðinu fyrir um 2000 árum og við það bættust við mjólkurvörur og auðveldara varð að nálgast kjöt.

Rétturinn sem ég valdi að elda frá Namibíu er vinsæll skyndibiti og inniheldur einmitt nautakjöt. 

Kapana


500 g gott kjöt (t.d. naut)
2 msk chiliduft
2 msk salt

Fyrir salsasósuna
2 tómatar, fínt saxaðir
1 laukur, fínt saxaður
1 chilipipar, fínt saxaður
1 msk olía
1/2 msk edik (t.d. hvítvínsedik)

1. Byrjið á að skera kjötið í sneiðar ef það er þykkur biti. Helst á svo að grilla það á kolagrilli. 
2. Blandið öllu sem á að fara í salsasósuna saman í skál og saltið eftir smekk.
3. Setjið chiliduft og salt í sitt hvora skálina.

4. Skerið kjötið í bita og dýfið í chili og salt og borðið með salsasósunni. 

Venjulega væri rétturinn borinn fram í dagblaði en ég notaði reyndar bara matardiska. Ég hafði ekki aðgang að grilli þegar ég eldaði þennan rétt svo ég varð að steikja kjötið á pönnu. Þrátt fyrir að ég hafi ekki eldað það rétt varð það mjög gott á bragðið. Ég mæli hiklaust með að prófa þetta. Næst mun ég þó grilla kjötið. 

Þá eru 72 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Kasakstan!


Afríka: 21 af 54 (37%)
Asía: 11 af 49 (24%)
Evrópa: 19 af 46 (41%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 72 af 198 (36,3%)

Ummæli

Vinsælar færslur