Óman - Djaj fouq el-eish
Hvar? Óman er land á suðausturströnd
Arabíuskagans með landamæri að Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sádí-Arabíu og
Jemen.
Höfuðborg: Múskat
Stærð: 309.500 km2 (þrefalt Ísland)
Mannfjöldi: 4,4 milljónir, þar af eru 1,8
milljón einungis tímabundið í landinu.
Íbúar: Ómanar eru rúmur helmingur
landsmanna, aðrir eru innflytjendur.
Tungumál: Arabíska
Trúarbrögð: Íslam (86%), kristnir (6,5%) og hindúar
(5,5%).
Stjórnarfar: Sóldánsdæmi undir stjórn Qaboos bin
Said Al Said.
Náttúra og lofslag: Landið er að mestu eyðimörk inn til
landsins og lofslagið er heitt og þurrt almennt. Rakinn er meiri við ströndina
en hitinn er þó í kringum 30-40°C á sumrin.
Lífsgæði: Lífsgæði í Óman eru nokkuð góð að
því leyti að fáir eru fátækir og lífsgæðin eru svipuð því sem gerist í
Hvíta-Rússlandi og Búlgaríu. Hins vegar hafa ýmsir hópar það ekki gott.
Samkynhneigð er sem dæmi bönnuð og pyntingar eru notaðar á fanga.
Fjölmiðlafrelsi er sama sem ekkert. Þetta er einungis brot af þeim
mannréttindabrotum sem finnast í landinu.
Helstu atvinnuvegir: Olíuvinnsla er stór hluti af efnahag
Óman og ferðamannaiðnaðurinn stækkar töluvert frá ári til árs. Helsti
útflutningur Óman er olía og gas.
Saga: Fjölmörg stórveldi hafa ríkt þar sem
nú er Óman. Höfðingjar landsins tóku upp íslam á 7. öld og stofnuðu þá ríki
undir stjórn ímams. Árið 1507 náðu Portúgalir höfuðborginni, Múskat, á sitt
vald og héldu borginni í næstum 150 ár. Portúgalar hrökkluðust burt um miðja
17. öld. Persar réðust svo á Óman árið 1737 og eftir nokkurra ára styrjöld
komst núverandi sóldánsfjölskylda til valda. Óman varð að stórveldi sem
hagnaðist á þrælaverslun í Afríku. Frá 1913 og til 6. áratugarins var landið í
tveimur hlutum. Olíulindir fundust í Óman árið 1964 en þær eru þó ekki miklar.
Eftir arabíska vorið árið 2011 hefur fólk mótmælt sóldáninum í auknu mæli. Hann
hefur lofað umbótum en fátt virðist vera að breytast.
Matarmenning: Réttir í Óman innihalda yfirleitt kjúkling,
fisk eða lambakjöt og hrísgrjón. Mikið er notað af kryddum og kryddjurtum.
Pottréttir eru vinsælastir en súpur koma þar á eftir. Aðalmáltíð dagsins er
yfirleitt borðuð um miðjan daginn en ekki að kvöldi til. Almennt er
matarmenningin mjög miðausturlensk.
Djaj Fouq El-Eish
olía
2 stórar gulrætur, í bitum
8 kjúklingabitar eða úrbeinuð kjúklingalæri
vatn
3 kanilstangir
1 tsk heilar kardimommur
1 tsk heilir negulnaglar
1 tsk heil svört piparkorn
salt
100 g smjör/ghee
3 laukar, í sneiðum
4 hvítlauksrif, marin
3 msk bizar a’shuwa (ómönsk kryddblanda)
2 kjúklingakraftskubbar
Bizar a-shuwa
1 msk kóríander
1 msk cumin
1/2 tsk kanill
1/2 tsk svartur pipar
1/8 tsk negull
1 tsk túrmerik
1. Byrjið á að hita olíu á pönnu og steikir gulrótabitana þar til þeir eru orðnir mjúkir. Geymið til hliðar á diski.
2. Takið þá stóran pott og fyllið með um einum og hálfum lítra af vatni. Sejtið kjúklingabitana í vatnið ásamt kanilstöngum, kardimommum, negulnöglum og svörtum pipar.
3. Sjóðið kjúklinginn í um 40 mínútur. Lengd fer eftir hvaða bitar voru valdir.
4. Takið kjúklinginn upp úr pottinum og geymið til hliðar. Geymið einnig soðið.
5. Bræðið smjör á pönnu og steikið laukinn á henni þar til hann er gullinn.
6. Bætið kjúklingabitunum út á pönnuna ásamt hvítlauk, kjúklingakrafti, 2 dl af kjúklingasoðinu, gulrótunum og bizar a’shuwa.
7. Hrærið og leyfið kjúklingnum að eldast í nokkrar mínútur á lágum hita.
8. Berið fram með brokkolígrjónum eða öðru góðu grænmeti.
Þessi réttur var æðislega góður! Ég mun sjálfsagt gera þennan aftur í framtíðinni. Miðausturlönd bara klikka ekki í pottréttum.
Afríka: 20 af 54 (37%)
Asía: 11 af 49 (22%)
Evrópa: 18 af 46 (39%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 70 af 198 (35,3%)
Ummæli
Skrifa ummæli