Senegal - Yassakjúklingur
Senegal er land í Vestur-Afríku sem á landamæri að Gambíu, Gíneu, Gíneu-Bissá, Malí og Máritaníu. Höfuðborg landsins heitir Dakar. Landið er 196.712 km2 og í því búa 15,4 milljónir manna. Senegal er mikið fjölmenningarríki því þar búa nokkrar þjóðir en fjölmennustu þjóðirnar eru Wolof (43%), Fula (24%) og Serer (15%). Sömuleiðis eru mörg tungumál töluð í landinu en franska er þó eina opinbera tungumálið. Um 92% íbúanna eru múslimar en einungis 7% eru kristnir og um 1% íbúanna hafa hefðbundin afrísk trúarbrögð. Í Senegal er hitabeltisloftslag með tveimur árstíðum, þurrkatímabili og regntímabili. Lífsgæði í Senegal eru mjög slæm. Spilling er mikil í landinu, fólk getur búist við að ná 57,5 ára aldri og ef það væru hlutfallslega jafn margir læknar á Íslandi og í Senegal væru hér um 20 læknar. Umskurður kvenna er stundaður í einhverju mæli og ungbarnadauði er tiltölulega hár. Þá voru um 69% kvenna ólæsar árið 2005.
Ýmsar þjóðir hafa búið á svæðinu þar sem nú er Senegal í gegnum tíðina. Konungsdæmi höfðu þegar verið stofnuð á svæðinu á 7. öld og ýmis konungsríki áttu Senegal eða hluta af landinu allt til 19. aldar. Frakkar náðu mestum ítökum í landinu á meðan þrælaversluninnni stóð og það fór svo að upp úr 1850 varð Senegal að nýlendu Frakka. Senegal varð sjálfstætt ríki árið 1960.
Matarmenning: Þar sem Senegal er staðsett við Atlantshafið er fiskur mjög mikilvæg fæða fyrir íbúanna. Kjúklingur, lambakjöt, baunir, egg og nautakjöt eru einnig vinsælar fæðutegundir. Svínakjöt er ekki borðað, enda flestir íbúanna múslimar. Jarðhnetur gefa Senegölum mikilvæga orku og kúskús, hrísgrjón, sætarkartöflur, linsubaunir og alls kyns grænmeti eru gjarnan höfð í réttum landsins. Þá er nokkuð mikið notað af kryddum.
Rétturinn sem ég valdi heitir Yassakjúklingur og er vinsæll á stórum hluta Vestur-Afríku.
Yassakjúklingur
Þá eru 75 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Slóvenía!Rétturinn sem ég valdi heitir Yassakjúklingur og er vinsæll á stórum hluta Vestur-Afríku.
Yassakjúklingur
8 kjúklingabitar
4 laukar, í sneiðum
3 hvítlauksrif
4 lime
1 msk rauð- eða hvítvínsedik
jarðhnetuolía (eða matarolía)
3 msk sterkt sinnep
1 kjúklingateningur
2 þurrkaðir chili
1 ferskur chili
1 1/2 dl grænar ólífur
salt og pipar
1. Byrjið á að marínera kjúklingabitana í helmingnum af lauknum, 2 msk af sinnepinu, smá olíu og limesafa. Saltið og piprið og leyfið kjúklingnum helst að marínerast í nokkra tíma.
2. Hitið ofninn í 200°C og raðið kjúklingabitunum á bökunarplötu og eldið í 20 mínútur. Snúið kjúklingnum þegar 10 mín eru liðnar.
3. Hitið smá olíu á pönnu og setjið restina af lauknum á hana og eldið í um 5 mínútur.
4. Setjið edikið út á pönnuna ásamt kjúklingakrafti, hvítlauk og sinnepi. Saltið smá og piprið.
5. Hellið einu glasi af vatni eða svo út á pönnuna og setjið lokið á hana.
6. Bætið loks kjúklingnum út á ásamt chili og ólífum. Eldið réttinn í nokkrar mínútur í viðbót og bætið við vatni ef þarf.
7. Leyfið réttinum að eldast í 45 mínútur í viðbót, ef kjúklingurinn er á beini að minnsta kosti.
8. Berið réttinn fram með blómkáls- eða brokkolígrjónum.
Ég bjóst við einhverju voða afrísku, einhverju eins og kjúklingi í jarðhnetusósu eins og venjulega, jafnvel þó það væri ekki einu sinni hnetusmjör í uppskriftinni. Ég er bara komin með smá leið á slíkum réttum. Þessi var að sjálfsögðu ekkert í líkingu við það! Þetta var virkilega frískandi réttur og ólíkur flestu öðru sem ég hef smakkað, minnir samt hugsanlega á adobo-kjúkling frá Filippseyjum vegna ediksins. Þennan rétt mun ég sennilega prófa að gera aftur. Maður fær ekki leið á þessum. Ég verð samt að viðurkenna að ég notaði ekki kjúkling á beini og eldaði hann ekki svona rosalega lengi. Hann var bara samt mjög góður.
Afríka: 22 af 54 (40%)
Asía: 12 af 49 (24%)
Evrópa: 20 af 46 (43%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 75 af 198 (37,3%)
Ummæli
Skrifa ummæli