Slóvakía - Steiktur fiskur og kartöflusalat

Slóvakía er land í Mið-Evrópu sem á landamæri að Austurríki, Póllandi, Tékklandi, Ungverjalandi og Úkraínu. Höfuðborgin heitir Bratislava. Í Slóvakíu búa 5,4 milljónir manna á 49.035 km2 svæði. Það er örlítið minna en Norður- og Austurland til samans. Flestir íbúanna eru einfaldlega Slóvakar (81%) en þar á eftir koma Ungverjar (8,5%) og Rómafólk (2%). Opinbert tungumál er slóvakíska og flestir landsmanna eru kristnir. Slóvakía er mjög fjalllent land end liggur landið að mestu leyti í Karpatafjöllum. Enn er um 41% landsins hulið skógi. Sumrin eru heit og vetur kaldir. Lífsgæðin í Slóvakíu eru mjög góð, svipuð því sem gerist í Portúgal. Mannréttindi minnihlutahópa eins og Rómafólks mættu þó vera betri. 
Á þjóðflutningatímabilinu á 5. og 6. öld e.kr. settust hópar Slava að í Slóvakíu. Frá því um 830 til 907 var Slóvakía hluti af Stór-Móravíu ásamt Móravíu. Þegar á 10. öld hófu Ungverjar innrásir í Slóvakíu og landið varð svo hluti af Ungverjalandi á 11. öld. Ungverjaland varð svo hluti af Austurríki-Ungverjalandi árið 1867 og þar með Slóvakía líka. Eftir fyrri heimstyrjöldina leystist það ríki upp í nokkur minni og Slóvakía varð hluti af Tékkóslóvakíu. Eftir seinni heimstyrjöld og til sjálfstæðist árið 1993 ríkti kommúnistaflokkur yfir landinu og Sovétríkin höfðu alltaf nokkuð að segja um stjórnmálin þar í landi. Eftir sjálfstæði hefur Slóvakíu vegnað vel og varð meðlimur að Evrópusambandinu árið 2004 og tók upp evruna árið 2009. 
Merkilegt fólk frá Slóvakíu eða af slóvönskum ættum: Jozef Murgas (1864-1929) sem fann m.a. upp veiðihjól fyrir veiðistangir, Ivan Alexander Getting (1912-2003) sem tók þátt þróun GPS, Matthias Bel (17. öld) sem mældi fyrstur manna nákvæma vegalengd milli Jarðar og Sólu, Eugene Cernan (1934) síðasti maðurinn til að stíga á tunglið, David Grohl (1969), trommari Nirvana og söngvari Foo Fighters og Jon Voight (1938) leikari og faðir Angelinu Jolie. 

Matarmenning: Maturinn í Slóvakíu er að sjálfsögðu ekki alveg eins í hverju héraði fyrir sig en þó tiltölulega líkur miðað við mörg lönd. Áður fyrr bjuggu flestir Slóvakar í sjálfbærum sveitaþorpum eða á sveitabæjum og þurftu lítið að flytja út eða inn. Maturinn samanstóð yfirleitt af hveiti, kartöflum, mjólk og mjólkurvörum, svínakjöti, súrkáli og lauk. Eitthvað var borðað af nauta- geita- og kindakjöti, kjúklingi, eggjum, villisveppum, grænmeti og ávöxtum en í mun minna mæli. Krydd voru lítið sem ekkert notuð. Auðvitað er þetta allt öðruvísi í dag eftir heimsvæðinguna og Slóvakar borða allt milli himins og jarðar rétt eins og Íslendingar. 

Rétturinn sem ég eldaði frá Slóvakíu er algengur jólamatur þar í landi. Íslendingar myndu nú sennilega ekki sætta sig svo slíkan jólamat en í mörgum löndum er ekki hefð fyrir því að borða kjöt á aðfangadag og því er fiskur frekar notaður. Hér er því steiktur fiskur og kartöflusalat á slóvaska vísu - ja, eða lágkolvetnaútgáfan af því.

Steiktur fiskur

400 g fiskflak
1-2 egg
4 msk möndlumjöl
salt og pipar
smjör til steikingar

1. Byrjið á að brjóta egg í eina skál og hræra saman og setja svo möndlumjöl í aðra.
2. Skerið fiskinn í bita og dýfið honum fyrst í eggin og þekið allan fiskinn vel. Dýfið svo fiskinum í möndlumjölið og hjúpið alveg. 
3. Hitið smjör á pönnu og steikið fiskinn þar til hann verður gullinn. 

„Kartöflusalat“

„3-4 kartöflur“ - gæti verið sellerírót, nípur, grasker
1/2 laukur
1 dl grænar baunir og 3 gulrætur (hægt að fá saman í dós)
2 egg
6-7 msk mæjónes
salt
svartur pipar
paprikuduft

1. Byrjið á að sjóða „kartöflurnar“ eins og þarf og einnig eggin tvö.
2. Saxið laukinn og setjið í skál ásamt baunum og gulrótarbitum. 
3. Skerið „kartöflurnar“ niður í bita og setjið út í salatið og gerið það sama með eggin.
4. Þegar eggin og „kartöflurnar“ eru orðnar kaldar er mæjónesið sett út í salatið.

5. Kryddið svo salatið eftir smekk og leyfið því að bíða í ísskáp í 1-2 tíma áður en það er borðað.

Rétturinn var mjög „evrópskur“ á bragðið. Mér fannst fiskurinn góður og jafnvel bara mjög góður og líkur venjulegum steiktum fiski. Ég var hins vegar ekkert sérstaklega hrifin af „kartöflusalatinu“ mínu, en ég notaði sellerírót. Ég hugsa að grasker/butternut squast hefði verið mun betra. 

Þá eru 74 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Senegal!


Afríka: 21 af 54 (38%)
Asía: 12 af 49 (24%)
Evrópa: 20 af 46 (43%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 74 af 198 (37,3%)

Ummæli

Vinsælar færslur