Slóvenía - Prekmurski Bograc
Predjama-kastali í Slóveníu |
Slóvenía er land í Mið-Evrópu sem á landamæri að Austurríki, Ítalíu, Króatíu og Ungverjalandi. Höfuðborgin heitir Ljubljana. Í landinu búa rúmlega 2 milljónir manna á 20.273 km2 svæði. Það er örlítið minna svæði en Norðurland eystra. Flestir íbúanna eru Slóvenar (83%) en fyrir utan innflytjendur hafa hópar Ítala og Ungverja búið á svæðinu í áraraðir. Opinber tungumál landsins eru einmitt slóvenska, ítalska og ungverska. Flestir landsmenn eru kaþólskir en með árunum verða fleiri og fleiri trúlausir. Lífsgæðin í Slóveníu eru afburða góð og landið er með einn lægsta gini-stuðul í heimi (sem þýðir að jöfnuður og dreifing fjárs er mikil). Slóvenía liggur á milli Alpafjalla og Miðjarðarhafsins. Landið er því fjalllent í norðri og um helmingur landsins er enn hulinn skógi. Almennt er mjög lítill vindur í Slóveníu og hitinn fer gjarnan aðeins yfir 20°C á sumrin en er 0°C á veturna.
Forfeður Slóvena settust að á svæðinu á 6. öld. Hertogadæmið Karantanía var stofnuð þar á 7. öld en landið varð svo hluti af Frankneska keisaradæminu árið 745. Í kjölfarið tóku Slóvenar upp kristna trú. Habsborgarættin eignaðist mest alla Slóveníu á 14. öld og loks varð Slóvenía hluti af Austurríki-Ungverjalandi. Austurríki-Ungverjaland féll eftir fyrri heimstyrjöldina og Slóvenía varð þar með hluti af ríki sem fékk nafnið Júgóslavía árið 1929. Slóvenía lýsti yfir sjálfstæði þann 25. júní 1991. Í kjölfarið braust út tíu daga stríð en Slóvenía slapp að mestu við stríðsátök, ólíkt nágrönnum sínum. Slóvenía gett í Evrópusambandið árið 2004. Landinu hefur vegnað vel síðan, hagvöxtur er mikill, verðbólga fer minnkandi og landið flokkast nú sem hátekjuland.
Frægt fólk: Micky Dolenz (1945), trommari The Monkees og Melania Trump (1970), forsetafrú í Bandaríkjunum.
Matarmenning: Algengasta gerð matar áður fyrr voru ýmsir grautar og pottréttir. Svínakjöt er vinsælt kjöt um alla Slóveníu. Kinda- og geitakjöt er mikið borðað á sumum svæðum. Hnetur er mikið notaðar í sætum réttum og kökum ásamt berjum og ávöxtum. Þá hafa sveppir alltaf verið mjög vinsælir.
Skemmtileg staðreynd: Fyrsta matreiðslubókin á slóvensku kom út árið 1798.
Rétturinn sem ég eldaði frá Slóveníu heitir Prekmurski Bograc og er frá Prekmurje-héraði. Þetta er ljúffengur pottréttur sem verður betri eftir því sem hann er eldaður lengur.
Prekmurski Bograc
200 g nautagúllas
200 g svínagúllas
200 g dádýragúllas (ég notaði þó bara naut)
salt
2 laukar, í sneiðum
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
smjör eða fita, til steikingar
2 dl rauðvín
1 rauð paprika, í sneiðum
1 stór tómatur
2 msk ungversk paprika eða sætt paprikuduft
400 g rótargrænmeti, í bitum
1 lárviðarlauf
1 tsk svartur pipar
1/2 tsk timjan
1/2 tsk rósmarín
1. Byrjið á að hita ofninn í 175°C.
2. Takið fram stóran pott (sem má fara í ofn) og hitið smjörið í honum og steikið laukinn í 5-7 mínútur. Saltið.
3. Takið laukinn úr pottinn og geymið til hliðar á meðan kjötið er brúnað í pottinum, í skömmtum.
4. Takið kjötið úr pottinum og geymið.
5. Hellið rauðvíninu í pottinn og skafið upp kjöttægjur og annað sem gæti hafa fests við botninn. Eldið svo rauðvínið áfram í um 1 mínútu.
6. Setjið nú laukinn og kjötið aftur í pottinn ásamt kryddunum, hvítlauknum og paprikunni.
7. Bætið við nóg af vatni til að það hylji allt.
8. Setjið tómatana út í pottinn, setjið lokið á og stingið pottinum inn í ofn í 1 og hálfan klukkutíma.
9. Takið pottinn aftur úr ofninum eftir þann tíma og setjið 400 g af rótargrænmeti að eigin vali út í pottinn. Bætið við meira vatni ef þarf.
10. Setjið pottinn aftur inn í ofn í 1-2 tíma. Smakkið svo til með salti og pipar áður en rétturinn er borinn fram.
Þessi réttur var einhvers staðar á milli ungversks gúllas og boeuf bourguignon - sem sagt mjög góður. Hér er ekkert mikið nýtt á ferð en þetta er virkilega góður réttur og eitthvað sem getur ekki klikkað. Galdurinn er að sjálfstögðu að elda réttinn nógu lengi. Ég mun sennilega prófa þennan aftur í framtíðinni.
Þá eru 76 af 198 löndum búin. Næsta stopp er St. Kitts og Nevis!
Afríka: 22 af 54 (40%)
Asía: 12 af 49 (24%)
Evrópa: 21 af 46 (45%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 7 af 23 (30%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 76 af 198 (38,3%)
Ummæli
Skrifa ummæli