St. Kitts og Nevis - Rikkitasteik
Sankti Kitts og Nevis er ríki á tveimur eyjum í Karíbahafi. Næstu eyjar í kring eru Antígva og Barbúda, Angvilla og Montserrat. Höfuðborg landsins heitir Basseterre. Í landinu búa um 54 þúsund manns á svæði sem er örlítið minna en Reykjavíkurborg (261 km2). Íbúar landsins eru langflestir af afrískum uppruna (75%) en einhverjir eru þó af evrópskum eða suður-asískum uppruna. Opinbert tungumál eyjanna er enska, flestir tala þó líka kreóla-mál og flestir íbúanna eru kristnir. Bæði Sankti Kitts og Nevis eru eldfjallaeyjar sem eru þaktar hitabeltisskógum. Flestir íbúanna búa við ströndina. Á eyjunum er heitt og rakt allt árið um kring, en þó er þurrara og svalara tímabil frá janúar til apríl. Lífsgæðin á Sankti Kitts og Nevis eru nokkuð yfir meðallagi í heiminum - svipuð því sem gerist í Albaníu og á Sri Lanka.
Talið er að fólk hafi fyrst komið til eyjanna fyrir 3000 árum. Það fólk hefur verið kallað Ciboney-fólkið en seinna komu Aravakar og Taino-fólkið. Hið herskáa Karíba-fólk réðist svo á eyjarnar um 800 e.kr. Englendingar settust að á eyjunum árið 1623. Frakkar fylgdu í kjölfarið og saman deildu þessar þjóðir með sér auðlindum eyjanna og þjóðarmorð framið á frumbyggjum landsins. Í dag eru engir af upprunalegum íbúum landsins eftir. Eyjarnar urðu breskar að fullu árið 1713 og St. Kitts var lengi vel ríkasta nýlenda Breta í Karíbahafi. Eyjarnar fengu loks sjálfstæði árið 1983.
Frægt fólk: Alexander Hamilton (1755-1804), fyrsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna.
Matarmenning: Þar sem eyjarnar eru eldfjallaeyjar er jarðvegurinn mjög næringarríkur og því hægt að rækta ýmislegt. Sjávarfang er mjög mikilvæg uppspretta fæðu á Sankti Kitts og Nevis en kjöt er þó líka borðað í einhverju mæli, geitakjöt er t.d. mjög vinsælt. Réttirnir eru almennt mjög einfaldir eins og annars staðar í Karíbahafi og vinsælt er að borða súpur og pottrétti. Skemmtileg hefð á eyjunum er að halda grillveislu með fjölskyldu og vinum á föstudags- eða laugardagskvöldum og gera eitthvað skemmtilegt saman.
Rikkitasteik
400 g nautasteik
1 tsk chiliduft
3 hvítlauksrif
2 chili, fínt saxaðir
1 tsk karrý
2-3 dl hvítvín eða freyðivín
1. Byrjið á að marínera kjötið í hvítlauk, kampavíní, karrýi, chili og chilidufti í skál, helst í meira en 1-2 tíma.
2. Grillið kjötið (eða steikið á pönnu ef grill er ekki í boði).
3. Berið fram með meðlæti að eigin vali.
Ég hafði ekki aðgang að grilli þegar ég gerði þennan rétt svo ég steikti kjötið á pönnu. Það var auðvitað bara mjög gott og mér fannst maríneringin koma vel út. Ég þarf að prófa að grilla þetta í sumar því þessi uppskrift hefur allt sem þarf í gott grillkjöt.
Afríka: 22 af 54 (40%)
Asía: 12 af 49 (24%)
Evrópa: 21 af 46 (45%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 8 af 23 (34%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 77 af 198 (38,8%)
Ummæli
Skrifa ummæli