Indland - Vasant panchami
Saraswati |
Blóm sinnepsjurtarinnar. |
Þar sem þetta er stórhátíð ákvað ég að útbúa þriggja rétta gula, lágkolvetna og indverska máltíð. Í forrétt var heimatilbúinn paneer-ostur steiktur á pönnu, í aðalrétt var kormakjúklingur með naanbrauði og gulum blómkálsgrjónum og í eftirrétt var sæt saffranjógúrt á indverska vísu.
Paneer-ostur
Það er mjög auðvelt að búa til góðan paneer-ost heima hjá sér. Allt sem þarf er mjólk, sítrónusafi, salt og grisja.
1 l mjólk
2 msk sítrónusafi
salt (ef vill)
1. Byrjið á að hita mjólkina að suðu á lágum hita. Þetta getur alveg tekið 30 mínútur eða svo. Ekki freistast til að hækka hitann.
2. Þegar suða er komin upp er sítrónusafinn settur út í og hrært í mjólkinni. Potturinn er svo tekinn af hellunni.
3. Eftir örlitla stund ætti mjólkin að vera farin að skilja sig. Ef ekki þarf að bæta við smá meiri sítrónusafa.
4. Hellið mjólkursullinu í grisju og kreistið vel allan vökva úr ostinum.
5. Þrífið ostinn með vatni og kreistið hann aftur.
6. Þegar allur vökvi er farinn úr ostinum er hann pressaður undir þungu hlassi í 1 klst.
Veth chaman
paneer-osturinn, í bitum
2 msk olía, helst sinnepsolía
1/2 tsk cuminfræ
1/4 tsk kanill
1/8 tsk negull
1/2 tsk túrmerik
1-2 tsk chiliduft
2 tsk engiferduft
2 msk mysa (mjólkin sem ekki varð að osti)
1/2 dl mjólk
salt
1/2 tsk kardimommuduft
2 tsk fennel
1 1/2 tsk garam masala
1. Blandið cuminfræjum, kanil, negul, túrmeriki, chili og engiferdufti saman í skál og geymið til hliðar.
2. Blandið mjólk, mysu, salti, kardimommum, fennel og garam masala saman í aðra skál og geymið til hliðar.
3. Hitið olíuna á pönnu á meðalhita og setjið kryddin úr fyrri skálinni á pönnuna þegar olían er orðið meðalheit.
4. Steikið paneerostinn á öllum hliðum á pönnunni.
5. Takið ostinn af pönnunni og dýfið í mjólkurblönduna og steikið svo aftur. Berið ostinn fram heitan.
4-6 úrbeinuð kjúklingalæri (eða kjúklingabringur), í bitum
smá saffron
2 msk mjólk
Marínering
3 cm engifer, gróft saxaður
3 hvítlauksrif
150 g grísk jógúrt
1 tsk möndlumjöl
1 msk kóríanderduft
1/2 tsk svartur pipar
1 tsk túrmerik
1 tsk salt
Sósa
1 msk smjör
2 laukar, saxaðir
1-3 þurrkaðir chili
3 hvítlauksrif
3 negulnaglar
3 grænar kardimommur
3 cm kanilstöng
1 tsk garam masala
400ml kókosmjólk
2 msk möndlumjöl
ferskur kóríander
sítrónusafi
1. Byrjið á að setja saffranið út í mjólkina og leyfið þessu að bíða.
2. Setjið engifer, hvítlauk, kóríanderduft, svartur pipar, túrmerik og salt í matvinnsluvél og búið til mauk.
3. Setjið maukið og allt hitt sem á að fara í maríneringuna í skál ásamt kjúklingnum og marínerið í a.m.k. klukkutíma.
4. Hitið smjör í potti og steikið kanilstöng, kardimommur, negulnagla og chili-inn í nokkrar mínútur.
5. Bætið lauknum og hvítlauknum við og steikið hann við miðlungshita í 10 mínútur.
6. Setjið kjúklinginn út í pottinn og steikið í 5 mínútur og hrærið af og til.
7. Setjið kókosmjólkina og möndlumjölið út í pottinn, hrærið aðeins, setjið lokið á og leyfið kjúklingnum að eldast í 15-20 mínútur.
8. Haldið áfram að elda kjúklinginn þar til hann er tilbúinn og hellið saffronmjólkinni út í og bætið við garam masala. Hrærið og smakkið til. Bætið við sítrónusafa eftir smekk en því má líka sleppa.
9. Berið kjúklinginn fram með blómkálsgrjónum og naanbrauði og skreytið með smá söxuðu kóríander.
Uppskriftin að naanbrauðinu er hér. Ég set oft smá nigellufræ á þau.
Gul blómkálsgrjón
Blómkálsgrjón má gera gul með því að setja túrmerik og/eða saffran út í þau.
Shrikhand
1/2 tsk saffron
1 msk volg mjólk
700 ml grísk jógúrt
4 msk sukrin melis
1/2 tsk kardimommuduft
10 pistasíur
1. Byrjið á að setja saffranið út í volgu mjólkina og leyfið þessu að bíða í um 30 mínútur.
2. Þegar mjólkin er tilbúin er henni blandað saman við jógúrtina ásamt sukrin melis og kardimommum. Það má bæta við sætu ef maður vill, þetta er mjög lítið sæt uppskrift.
3. Saxið pistasíurnar og skreytið jógúrtina með þeim.
Þetta var yndisleg máltíð. Ég mæli með því að allir prófi að búa til paneerost! Hann var mjög góður heitur en ekkert sérstakur þegar hann var orðinn kaldur. Kormakjúklingur klikkar auðvitað aldrei og þessi uppskrift að honum er mjög góð. Naanbrauðin líkjast auðvitað ekkert alvöru naanbrauðum úr hveiti en mér finnst þau persónulega mjög góð. Eftirrétturinn var mjög lítið sætur, of lítið sætur fyrir mig en því má auðveldlega bjarga með meiri sætu. Annars bara fínasti veislumatur.
Þá eru 80 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Simbabve!
Afríka: 23 af 54 (42%)
Asía: 14 af 49 (28%)
Evrópa: 21 af 46 (45%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 8 af 23 (34%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 80 af 198 (40,4%)
Ummæli
Skrifa ummæli