Indónesía - Abon daging
Indónesía er land í Suðaustur-Asíu sem saman stendur af 17.508 eyjum og á landamæri að Austur-Tímor, Malasíu og Papúu-Nýju Gíneu. Landið er það fjórða fjölmennasta í heiminum með um 260 milljónir íbúa og þar með fjölmennasta múslimaríki heims. Landið er svo meira en 18 sinnum stærra en Ísland. Höfuðborg landsins heitir Djakarta. Yfir 740 tungumál eru töluð í landinu en opinbert tungumál er þó indónesíska, sem flestir tala sem fyrsta eða annað mál. Samtals eru yfir 300 mismuanndi þjóðflokkar búsettir í landinu. Langflestir Indónesar eru múslimar (87%) en um 10% landsmanna eru kristnir og á eyjunni Balí eru íbúarnir flestir hindúatrúar. Indónesía liggur á og við miðbaug og þar eru því regnskógar og regn- og þurrkatímabil. Mikil eldvirkni er á eyjunum og um 130 virk eldfjöll eru staðsett þar og jarðskjálftar eru algengir. Þá er einstakt dýralíf á eyjunum og frændi okkar órangútinn býr einmitt í Indónesíu. Lífsgæðin í Indónesíu eru undir meðallagi en lík því sem gerist í nágrannalöndunum. Landið glímir við nokkur vandamál s.s. mikið atvinnuleysi, ójöfnuð, skert réttindi samkynhneigðra og aðeins 90% barna fara í grunnskóla.
Fyrir um 4.000 árum komu hópar ástrónesísks fólks til eyja Indónesíu og hrökktu þá fyrrum íbúa eyjanna, Melanesa, burt. Landbúnaður var stundaður að minnsta kosti frá 8. öld f.kr. sem var undirstaða þess að bæir og borgir gætu þrifist og loks konungsríki. Lega eyjanna gerir það að verkum að verslun hefur alltaf verið ákaflega mikilvæg fyrir landið. Verslun við Indverja og Kínverja var hafin einhverjum öldum f.kr. Fjöldamörg konungsríki hafa ríkt á eyjunum í gegnum tíðina. Íslam breiddist út um landið á 13. öld. En svo komu Evrópubúar. Fyrst Portúgalir árið 1512, sem vildu setja upp einokunarverslun með múskat, negul og pipar. Seinna komu Bretar og Hollendingar. Árið 1602 var hollenska Austur-Indíafélagið stofnað. Félagið óx og óx alla 17. og 18. öld og stundaði viðskipti við Indónesíu. Árið 1800 varð félagið gjaldþrota en Indónesía varð hollensk nýlenda þar til í seinni heimstyrjöldinni. Japanir hertóku Indónesíu í seinni heimstyrjöldinni og vegna hungursneyðar og vinnþrælkunar dóu 4 milljónir manna. Þegar Japan gafst loksins upp á styrjöldinni varð Indónesía að sjálfstæðu ríki - 17. ágúst 1945. Hollendingar voru ekki tilbúnir til að sleppa takinu alveg strax og reyndu að ná landinu aftur en gáfust upp í desember 1949. Fyrsti forseti landsins, Sukarno, var í upphafi kosinn í lýðræðislegum kosningum en sat samt sem fastast í 23 ár og gerði landið að hálfgerðu einræðisríki. Það hefur þó breyst núna en spilling er vissulega alvarlegt vandamál á Indónesíu.
Frægt fólk: Anggun og Jessica Mauboy, eurovisionkeppendur, bræðurnir Alex Van Halen, trommari Van Halen, og Eddie van Halen, gítarleikari van Halen eru 1/4 indónesískir og Kristin Kreuk, leikkona.
Matarmenning: Indónesía er eitt af þessum löndum sem eru með þessa miklu og einstöku matarmenningu sem engu öðru lík. Vissulega eru eyjarnar margar og erfitt er að segja nákvæmlega hvað indónesísk matargerð er því hún er mismunandi að milli svæða og eyja. Það sem öll Indónesía á sameiginlegt er að borða mikið af hrísgrjónum og það með kjöti í góðri karrýsósu. Réttir eins og rendang, nasi goreng og satay eru indónesískir og frægir um allan heim. Nokkuð af grænmeti er notað til matargerðar á Indónesíu t.d. spínat og annað laufgrænmeti, laukur, hvítlaukur, eggaldin, kál, kartöflur, blómkál, tómatar og gulrætur. Mest borða Indónesar af kjúklingi og fiski en nauta-, geita- og kindakjöt er einnig vinsælt ásamt vatnabuffalakjöti. Svínakjöt er að sjálfsögðu lítið borðað. Krydd eru þó aðalmálið enda framleiða Indónesar mörg af þeim sjálfir t.d. eru múskat, negul, pandanlauf og galangal allt plöntur sem eru upprunalega þaðan. Önnur krydd eru t.d. svartur pipar, túrmerik, sítrónugras, kanill, kóríander og tamarind. Chili er mikið notaður í indónesískri matargerð og eflaust kannast einhverjir við sambal olek, sem er indónesískt chilimauk sem er mikið notað. Þá er sojasósa gjarnan notuð til að salta rétti og Indónesar eiga sína eigin, kecap manis. Önnur hráefni sem rétt er að nefna eru jarðhnetur og kókosmjólk.
Rétturinn sem ég eldaði frá Indónesíu er ekki hefðbundinn karrýpottréttur eins og svo margir réttir frá Indónesíu. Í þessum rétti síður maður nautakjöt í langan tíma, tætir það niður, bætir við sósu og steikir það síðan aftur. Ég er ekki viss um að svona gæti klikkað!
Abon Daging
700 g nautakjöt (má alveg vera gúllas)
1 msk tamarindmauk (fæst í asískum búðum)
3 hvítlauksrif, pressaður
1 msk fiskisósa
1/2 tsk svartur pipar
1 tsk chiliduft
2 tsk kóríanderduft
1 tsk cumin
jarðhnetuolía (eða t.d. kókosolía)
4 þurrkaðir chili
4 msk þurrkaður steiktur hvítlaukur (fæst í asískum búðum)
1. Byrjið á að setja nautakjötið í vatn og sjóða það ásamt smá salti í a.m.k. 1 og 1/2 klst. Kjötið verður að vera orðið mjúkt og gott áður en áfram er haldið.
2. Blandið saman tamarindi, hvítlauk (ferska), fiskisósu, svörtum pipar, chilidufti, kóríander og cumin í skál.
3. Þegar kjötið er orðið vel soðið og gott er það tætt niður - hægt er að nota matvinnsluvél í þetta en passið þá að rífa það ekki of fínt.
4. Setjið tamarindsósuna út á kjötið og blandið öllu vel saman.
5. Hitið 1-2 dl af olíu á pönnu og djúpsteikið þurrkaða chilipiparinn í henni í nokkrar sekúndur. Gerið það sama með þurrkaða hvítlaukinn en passið að hafa hann í sigti svo hann fari ekki út um allt. Hann er bara steiktur í 2-3 sekúndur. Setjið þetta svo á eldhúspappír til hliðar.
6. Steikið nú kjötið á pönnunni og hrærið vel í á meðan - tekur bara 3-4 mínútur.
7. Setjið kjötið á fat og hafið blómkáls- eða brokkolígrjón með (nauðsynlegt). Chili-inn er muldur yfir (ekki allir ef maður vill ekki of sterkan mat) og hvítlaukurinn fer út á líka. Berið svo fram.
Þessi réttur er æði og mig hefur dreymt um að búa hann til aftur eftir að ég gerði hann fyrir nokkrum dögum. Djúpsteiktir hvítlaukurinn gefur æðislegt „kröns“ og tamarindið gerir kjötið pínu súrt og gerir réttinn yndislegan. Þetta er eitthvað sem allir ættu að prófa!
Afríka: 23 af 54 (42%)
Asía: 13 af 49 (26%)
Evrópa: 21 af 46 (45%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 8 af 23 (34%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 79 af 198 (39,8%)
Ummæli
Skrifa ummæli