Kúba - Medianoche

Ég hef alltaf verið heilluð af Kúbu og er sjálfsagt ekki ein um það. Ég hef hins vegar aldrei farið þangað nema núna, í gegnum matinn. 
Kúba er land í Karíbahafi. Næstu lönd eru Bahamaseyjar, Bandaríkin, Mexíkó, Jamaíka og Haíti. Höfuðborg landsins heitir Havana. Í landinu búa rúmar 11 milljónir manna á svæði sem er einni Skagafjarðarsýslu stærra en Ísland (109.884 km2). Opinbert tungumál landsins er spænska og flestir landsmenn tala hana sem fyrsta mál. Flestir íbúanna eru afkomendur fólks af evrópskum uppruna (64%), fæstir eru af afrískum uppruna (9%) og þó nokkrir eru blanda af þessu tvennu (27%) og frumbyggjum eyjanna. Landsmenn eru flestir kristnir (65%) en um 17% landsmanna hafa trúarbrögð sem eru blanda af hefðbundum afrískum trúarbrögðum og kristni. Kúba saman stendur af nokkrum eyjum í Mexíkóflóa. Nokkuð er af fjalllendi í suðaustur hluta eyjarinnar en annars er hún nokkuð láglend. Loftslagið er hlýtt og gott enda er landið í regnskógabeltinu. Mikið er um fyllbylji á haustin, mest í september og október. Ótrúlegt en satt eru lífsgæðin á Kúbu bara nokkuð yfir heimsmeðaltali. Þau eru svipuð því sem gerist í Serbíu og Íran. Það er ekki þar með sagt að Kúba eigi ekki við sín vandamál að stríða. Á Kúbu eru t.d. næstflestir fréttamenn í fangelsi í heiminum (eingungis Kína er með fleiri) og fleiri mannréttindi eru brotin þar í landi. Hins vegar stendur Kúba sig afskaplega vel miðað við aðstæður hvað varðar menntun og heilsu þegna sinna. Á þeim sviðum jafnast Kúba á við þróaðar þjóðir heimsins. 
Áður en Spánverjar komu til Kúbu bjuggu þar þrír mismunandi þjóðflokkar, Taínó-fólkið, Guanajatabey-fólkið og Ciboney-fólkið. Þetta fólk stundaði landbúnað og sjómennsku og talið er að það hafi talið allt að 150.000 manns við komu Spánverja. Kristófer Kólumbus kom fyrstur Evrópubúa að Kúbu árið 1492. Fyrsta landnemabyggðin var stofnuð 1511 og í kjölfarið spruttu þær hratt upp. Frumbyggjar landsins voru látnir vinna fyrir landnemana og á einni öld þurrkuðust þeir út vegna sjúkdóma, sem þeir höfðu ekki ónæmi fyrir, og harðræðis. Kúba þróaðist hægar en aðrar eyjar Karíbahafsins og mun færri þrælar voru þar en á mörgum öðrum eyjum lengi framan af. Kúba fór að huga að sjálfstæði frá Spáni upp úr miðri 19. öldinni. Uppreisn var gerð árið 1868 sem varði í tíu ár og í kjölfar hennar lofaði Spánn meiri heimastjórn. Þrælahald var ekki bannað fyrr en 1875 en tók ekki gildi fyrr en 1886. Kúba varð loksins sjálfstætt ríki árið 1902 eftir spænsk-ameríska stríðið árið 1898 en Bandaríkin höfðu þá átt landið í fjögur ár. Bandaríkin skiptu sér mikið af innanríkismálum landsins fram eftir 20. öldinni. Pólitíkin á 20. ald var ansi stormasöm en svo gerðist það árið 1959 að Fidel nokkur Castro og kommúnistaflokkur hans náðu völdum í landinu. Ekki lægði það storminn í polítíkinni þrátt fyrir að Castro ætti eftir að stjórna landinu næstu 50 árin eða svo. Raúl, bróðir Fidels, tók við og hefur síðan þá opnað landið fyrir umheiminum. 
Frægt fólk (frá Kúbu eða ættað þaðan): Fidel Castro, Gloria Estefan, Pitbull, Eva Mendes og Cameron Diaz. 

Maturinn á Kúbu er blanda af spænskum, afrískum og karabískum mat. Oft er maturinn eldaður með spænskum eða afrískum aðferðum en kryddaður á karabíska vísu. Þar sem landið er allt á eyjum er sjávarfang mikilvægt hráefni en þar vex einnig nokkuð af ávöxtum og rótargrænmeti. Hrísgrjón og baunir eru yfirleitt alltaf hafðar með í máltíðum. Kjöt er yfirleitt notað í pottrétti með góðum sósum. Frægasti pottrétturinn er sennilega ropa vieja og þjóðarrétturinn er Arroz con Pollo (hrísgrjón með kjúklingi). Samlokur eiga stað í hjarta Kúbverja og vinsælasta samlokan þeirra inniheldur svínakjöt, skinku, súrar gúrkur, ost og sinnep. Það er einmitt rétturinn sem ég valdi að gera frá Kúbu. Hún er stundum kölluð medianoche („miðnætti“) og er gjarnan borðuð á djamminu. 

Medianoche (lkl-útgáfan)

4-6 lágkolvetna rúnstykki
500 g svínalund
súrar gúrkur
hamborgarhryggur (skinkan)
ostur
gult amerískt sinnep
salt og pipar
smjör

1. Byrjið á að salta og pipra svínalundina og skella henni inn í 190°C heitan ofn í um 45 mínútur eða þar til kjötið hefur náð 70°C hita. 
2. Leyfið kjötinu að bíða í 15 mínútur áður en það er skorið. 
3. Skerið lágkolvetnarúnstykkin í tvennt og rífið brauðið innan úr. Setjið ein msk af sinnepi á brauðið, svo svínalund, hamborgarhrygg, ost og súrar gúrkur eftir smekk. 
4. Lokið samlokunni og bræðið smjör á pönnu. Steikið samlokurnar þannig að þær verði stökkar og góðar og osturinn bráðinn. 

Þetta er án efa besta samloka sem ég hef smakkað á ævinni. Ég hafði hana að sjálfsögðu með lágkolvetnarúnstykki og ég get ekki ímyndað mér hvað hún væri góð ef hún væri búin til með góðu súrdeigsbrauði eða öðru góðu brauði með góðri skorpu. Síðan ég eldaði þessa samloku fyrir rúmri viku hef ég eldað hana nokkrum sinnum í viðbót, svo góð er hún! 

Þá eru 83 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Liechtenstein!


Afríka: 24 af 54 (44%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 21 af 46 (45%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 9 af 23 (39%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 83 af 198 (41,9%)

Ummæli

Vinsælar færslur