Malí - Sítrónugraste
Stórmoskan í Djenne hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1988. |
Malí er landlukt land í Vestur-Afríku sem á landamæri að Búrkína Fasó, Fílabeinsströndinni, Gíneu, Máritaníu, Níger og Senegal. Höfuðborgin heitir Bamakó. Í landinu búa um 18 milljónir manna á svæði sem er um tólf sinnum stærra en Ísland (1.240.192 km2). Íbúar Malí tilheyra mörgum mismunandi þjoðflokkum, flestir Bambara (36,5%) og Fula (17%). Tungumálin eru því sömuleiðis nokkur (allt að 40) þó opinbera tungumálið sé einungis franska. Um 80% landsmanna geta einnig talað bambara. Um 90% íbúa Malí eru íslamstrúar, 5% kristin og 5% halda enn í gömlu afrísku trúarbrögðin. Þrátt fyrir að trúfrelsi ríki í landinu samkvæmt stjórnarskrá verða kristnir fyrir þó nokkrum ofsóknum í norðurhluta landsins. Malí er að miklu leyti staðsett í Sahara-eyðimörkinni en ferðist maður suður á bóginn verður eyðimörkin að grassléttum. Malí er eitt heitasta land í heiminum og þurrkar eru algengir. Lífsgæði í Malí eru mjög lítil þrátt fyrir miklar gullnámur í landinu. Mikil fátækt er í landinu, þurrkar algengir, einungis 55% íbúa í borgum landsins hafa rafmagn og að meðaltali eignast hver kona 6,4 börn. Ungbarnadauði er með því mesta sem þekkist í heiminum. Fáir eiga efni á að fara í skóla og aðeins um 61% barna á skólaskyldualdri fer í skóla. Meðalmanneskja í Malí getur búist við að ná 53 ára aldri og um 85-91% kvenna hafa verið umskornar. Loks er þrælahald enn stundað landinu þrátt fyrir að það sé bannað en talið er að um 200.000 manns séu þrælar.
Saga Malí er löng en á miðöldum urðu þar til nokkur stórveldi t.d. Ganaveldið, Malíveldið og Songhæveldið. Þessi veldi versluðu mikið með gull, salt og þræla. Timbúktú var mjög mikilvægur áfangastaður í verslun á þessum tíma. Frakkar lögðu Malí undir sig árið 1898 og sameinuðu það frönsku Súdan. Malí varð sjálfstætt ríki árið 1960 og flokksræði var tekið upp. Lykiliðngreinar voru þjóðnýttar og landið tók upp náin stjórnmálatengsl við Austurblokkina. Herforingjar frömdu valdarán árið 1968 og landið fékk nýja stjórnarskrá árið 1974 þar sem flokkræðið var staðfest. Í forsetakosningunum 1979 fékk Moussa Traore, stjórnandi herforingjastjórnarinnar, 99% atkvæða. Þrjár tilraunir til valdaráns og stúdentamótmæli einkenndu árið 1980 en ríkisstjórnin braut þetta allt á bak aftur. Landið fór í stutt stríð við Búrkínu Fasó árið 1985 og stöðug pólitísk spenna var í landinu á 10. áratugnum. Á síðustu árum hefur Malí glímt við uppreisnir í nyrstu hlutum landsins.
Matarmenning: Maturinn eða máltíðir í Malí innihalda gjarnan mikið af hrísgrjónum, hirsi eða öðrum kornvörum. Nokkuð er borðað af grænmeti eins og sætum kartöflum, spínati og tómötum. Jarðhnetur er mikið notaðar eins og í öðrum vestur-afrískum löndum. Helsta kjöt sem notað er eru kjúklingur, kinda-, geita- og nautakjöt.
Þegar ég fór að leita að uppskrift frá Malí hafði ég það markmið að gera ekki kjúkling með hnetusósu. Ég er komin með smá leið á þeim rétti. Ég fann þá þetta virkilega einfalda, frískandi og holla te úr sítrónugrasi.
Sítrónugraste
1,2 l vatn
250 g sítrónugras, gróft skorið
stevíudropar eftir smekk
1. Setjið vatn og sítrónugras í pott og fáið upp suðu.
2. Hellið í bolla og sætið með stevíu eftir smekk.
Mér fannst þetta te virkilega gott og frískandi. Tveir stevíudropar hentuðu mér mjög vel því ég vil ekki hafa te of sætt en fyrir þetta te fannst mér samt nauðsynlegt að setja smá sætu. Ég get vel ímyndað mér að þetta sé gott te í veikindum. Sítrónugras er að sjálfsögðu afskaplega hollt en það inniheldur mikið járn og mangan en líka nokkuð af magnesíum, sinki, kopar, kalíum og B9-vítamíni.
Afríka: 23 af 54 (42%)
Asía: 12 af 49 (24%)
Evrópa: 21 af 46 (45%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 8 af 23 (34%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 78 af 198 (39,3%)
Ummæli
Skrifa ummæli