Mississippi Mud Pie
Um daginn hélt ég matarboð og gerði sennilega bestu köku sem ég hef smakkað í eftirrétt. Kakan heitir Mississippi Mud Pie og er bandarísk og algjör bomba. Þessi kaka er alls ekki lágkolvetna og hentar sennilega engum sem er með einhverjar sérþarfir í mataræði. Kakan heitir þessu nafni því hún á að minni á moldina og drulluna í Mississippi-ánni. En þetta er kaka sem ég mæli með. Mér finnst mjög leiðinlegt að hafa gleymt að taka mynd af henni, en ég baka hana bara vonandi fljótt aftur. Kakan telst samt ekki með í áskorun minni um að elda rétti frá öllum löndum heimsins.
Mississippi Mud Pie
Botninn:
16 oreokex
60 g pekanhnetur
85g smjör
Fylling:
85 g suðusúkkulaði
115 g smjör
2 msk hveiti
1/8 tsk salt
250 g sykur
2 msk síróp
2 msk kaffi
1 tsk vanilludropar
3 egg
Rjóminn:
350 ml rjómi
1 msk flórsykur
1/2 tsk vanilludropar
oreokexmulningur
súkkulaðisósa
- Byrjið á að hita ofninn í 180°c.
- Takið kremið af öllum oreokexunum og setjið í matvinnsluvél ásamt pekanhnetunum. Fínmalið kexið og hneturnar.
- Bræðið smjörið. Setjið oreo-hnetuduftið í botninn á formi og hellið smjörinu yfir. Blandið þessu vel saman og þjappið svo blöndunni i botninn og aðeins upp kantana á forminu.
- Bakið botninn í 10 mínútur.
- Á meðan er hægt að byrja fyllingunni. Byrjið á að brytja súkkulaðið niður í bita og setja í pott ásamt smjörinu. Bræðið á miðlungshita og hrærið vel í á meðan.
- Takið pottinn af hellunni og hrærið hveiti og salti út í pottinn. Svo koma sykurinn, sírópið, kaffið og vanillan. Blandið því vel saman.
- Loks eru eggin sett út í, eitt í einu, hrært í á milli.
- Hellið fyllingunni á botninn í forminu og bakið í 30 mínútur á 190°C. Leyfið svo kökunni að kólna.
- Þeytið rjómann, flórsykurinn og vanilluna. Setjið rjómann á kökuna og setjið svo oreokexmulning ofan á og smá súkkulaðisósu (t.d. hægt að bræða saman smjör og smá súkkulaði).
Ummæli
Skrifa ummæli