Simbabve - Kjúklingakássa, Nhopi og steikt grænmeti

Margir hafa kannski heyrt af óðaverðbólgunni í Simbabve og að ein samloka geti kostað 170 milljónir Simbabve-dollara. Rétt er það að verðbólgan var mjög mikil í Simbabve og reyndar var gefinn út peningaseðill fyrir 100.000.000.000.000 $ eða 100 trilljónir. Sá gjaldmiðill er reyndar ekki lengur í notkun en nú skulum við fræðast aðeins um landið. 

Simbabve er land í sunnanverðri Afríku sem á landamæri að Botsvana, Namibíu, Sambíu Suður-Afríku og Mósambík. Höfuðborg landsins heitir Harare. Í landinu búa rúmar 16 milljónir manna á svæði sem er tæplega fjórum sinnum stærra en Ísland. Í Simbabve búa nokkrir ættbálkar en þar er Shona-ættbálkurinn langstærstur en um 70% íbúa tilheyra honum, því næst kemur Ndebele-ættbálkurinn með um 20% íbúa. Flestir íbúa Simbabve eru kristnir (85%) en kristnin er gjarnan bönduð saman við hefðbundin afrísk trúarbrögð. Enska er notuð á mörgum sviðum samfélagsins m.a. í dómskerfinu. Aðeins 2,5% hafa þó ensku að móðurmáli. Fjölmörg upprunaleg tungumál eru töluð í landinu. Shona er fjölmennast með en um 70% landsmanna tala það mál og Sindebele tala um 20%. Simbabve er landlukt ríki sem liggur að mestu á hásléttu sem er í á milli 1000 og 1600 metra hæð. Nyrsti hluti landsins er á regnskógabeltinu en því sunnar sem farið er verður loftslagið nær eyðimerkurloftslagi. Lífsgæðin í Simbabve eru slæm en lík því sem gerist í mörgum öðrum löndum Afríku sunnan Sahara. Simbabve glímir við fjöldamörg vandamál m.a. hafa aðeins 40% landsmanna aðgang að salernisaðstöðu og 80% hafa aðgang að hreinu vatni og heilbrigðiskerfið er í molum. 
Á 9. öld komu Shona-talandi forfeður margra Simbabvemanna og öld seinna var sá hópur farinn að eiga í viðskiptum við Araba. Konungsveldið Mapungubwe varð til á svæðinu á 11. öld og ríkti þar til um 1300 þegar Konungsveldið Simbabve tók við og því vegnaði vel þar til á 17. öld. Þar komu Portúgalir til sögunnar sem vildu stofna einokunarverslun á svæðinu og rústuðu í raun konungsveldinu. Annað konungsveldi varð til í kjölfarið, Rozwi. Cecil nokkur Rhodes kom til Simbabve á 9. áratug 19. aldar og hjálpaði til við að stofna nýlendu sem fékk á endanum nafnið Ródesía. Svæðið sem nú er Simbabve fékk svo nafnið Suður-Ródesía. Bretar stjórnuðu Suður-Ródesíu til ársins 1963. Eftir að landið fékk sjálfstæði stjórnaði hvítur minnihluti landsins enn öll um nokkurt skeið. Sú stjórn endaði með borgarastyrjöld á 8. áratugnum. Árið 1980 komst Robert Mugabe til valda og stjórnaði landinu allt til ársins 2017. Stjórnartíð Mugabes einkenndist af óðaverðbólgu, bágum efnahag og mannréttindabrotum. Mugabe var loks steypt af stóli árið 2017 og Emmerson Mnangagwa tók við.
Frægt fólk: Alexander McCall Smith, rithöfundur, fæddist í Simbabve. 

Maturinn sem er borðaður í Simbabve er líkur því sem gerist í nágrannalöndunum. Maísmjöl er mjög mikilvæg fæða þar í landi sem og grænmeti, baunir, jarðhnetur og kjöt. Þá er eitthvað borðað af hrísgrjónum, pasta og kartöflum. 

Rétturinn sem ég eldaði frá Simbabve var hefðbundinn kjúklingapottréttur ásamt graskersstöppu og steiktum baunum og sveppum. 

Hefðbundinn kjúklingakássa

700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða bitar
1/2 laukur, saxaður
1 tómatur, saxaður
1/4 græn paprika, í bitum
1 tsk salt
5 msk rjómi
vatn
olía

1. Byrjið á að undirbúa grænmetið. 
2. Setjið svo olíu í pott og brúnið kjúklinginn. Geymið hann svo til hliðar á meðan laukurinn og hvítlaukurinn er steiktur í örfáar mínútur. 
3. Setjið kjúklinginn aftur út í pottinn og bætið tómatnum við ásamt paprikunni. Blandið saman. 
4. Bætið við smá af vatni en passið að hafa það ekki of mikið, þetta á ekki að vera súpa. 
5. Þegar kjúklingurinn er eldaður í gegn er rjómanum bætt út í og kássunni leyft að malla í 5 mínútur í viðbót.

Með þessu hafði ég svo Nhopi (graskersstöppu) og steiktum sveppum og stengjabaunum.

Nhopi

1 butternut-grasker, í bitum
1 msk smjör
2 msk sukrin gold
2 msk hnetusmjör 
60 ml mjólk
salt

1. Sjóðið graskerið þar til það er orðið mjúkt í gegn.
2. Setjið graskerið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Blandið og smakkið til.

Ég hafði mjög litlar væntingar til þessa réttar. Ég er fyrir löngu komin með leið á kjúklingapottréttum en þessi réttur fannst mér samt góður. Allir þrír hlutar þessarar máltíðar eru nú ekkert endilega borðaðir saman í Simbabve en mér finnst þeir passa mjög vel saman. Graskersstappan er svo góð og sæt á móti sveppnum og kjúklingnum. Þetta er vissulega alls ekkert framandi bragð en þetta er þrátt fyrir allt góður réttur.

Þá eru 81 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Kína!

Afríka: 24 af 54 (44%)
Asía: 14 af 49 (28%)
Evrópa: 21 af 46 (45%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 8 af 23 (34%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 81 af 198 (40,9%)

Ummæli

Vinsælar færslur