Liechtenstein - Frikadellen brötchen


Liechtenstein er furstadæmi í mið-Evrópu sem á landamæri að Sviss og Austurríki. Höfuðborg landsins heitir Vaduz. Landið er örlítið minna en Sveitarfélagið Vogar (160 km2) en þar búa þó rúmlega 37 þúsund manns. Þýska er opinbert tungumál landsins og það er móðurmál flestra. Landsmenn er flestir kaþólskrar trúar. Liechtenstein er staðsett í Ölpunum og því er mjög fjalllent en þó er tiltölulega hlýtt þar. Lífsgæði eru með því besta sem gerist í heiminum enda landið þróað vestrænt ríki. Landið er þó mjög háð Sviss vegna smæðar sinnar. Gjaldmiðill landsins er t.d. svissneskur franki og félagslið í fótbolta í Liechtenstein spila í svissnesku deildinni. 
Forfeður núverandi íbúa settust að á svæðinu um árið 500 e.kr. Þeir voru Germanar og það skýrir þýskuna. Landið var annars stofnað árið 1342 sem greifadæmi og fékk núverandi nafn sitt árið 1719. Landið lagði niður her sinn árið 1868 og hefur ekki haft her síðan þá. Ótrúlegt en satt fengu konur ekki kosningarétt í landinu fyrr en árið 1984, síðast allra Evrópulanda. Einungis karlar máttu kjósa um hvort konur fengju kosningarétt og lögin komust í gegn með aðeins 51,3% atkvæða og munaði aðeins 119 atkvæðum. 
Maturinn í Liechtenstein er, eins og gefur að skilja, mjög líkur því sem gerist í Austurríki og Sviss. Mikið er borðað af ostum, súpum og öðrum mjólkurvörum. Þá er mikið borðað af kartöflum og káli. Algengasta kjötið er nautakjöt, kjúklingur og svínakjöt. 


Rétturinn sem ég gerði frá Liechtenstein er samloka sem heitir Frikadellen Brötchen - kjötbollusamloka. 

Frikadellen Brötchen

4 kjötbollur eða buff
4 egg, harðsoðin og skorin niður
2 tsk sinnep
salt og pipar
4 rúnstykki

1. Blandið kjötbollunum saman við eggin og sinnep. Saltið og piprið eftir smekk. 
2. Skerið rúnstykkin í tvennt, setjið áleggið ofan á og lokið rúnstykkinu. 
3. Berið fram með sauerkraut og/eða súrum gúrkum. 

Mér fannst þessi samloka mjög góð en frekar þurr. Ég held ég þurfi mitt mæjónes. Ég keypti annars lágkolvetnarúnstykki í Krónunni - sem er eitthvað nýtt hjá þeim. Þau eru mjög góð og þetta gerði samlokuna klárlega mjög góða. Næst myndi ég hafa meiri sósu en þetta er vel þessi virði að prófa. Ég get vel séð það fyrir mér að hafa þessa samloku með í nesti í ferðalögum um landið í sumar. 

Þá eru 84 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Antígva og Barbúda!


Afríka: 24 af 54 (44%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 22 af 46 (47%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 9 af 23 (39%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 84 af 198 (42,4%)

Ummæli

Vinsælar færslur