Antígva og Barbúda - Saltfiskbuljolde


Eftir langa bið er ég loksins búin að elda rétt frá næsta landi. Í þetta sinn var það Antígva og Barbúda sem eru eyjar í karabíska hafinu. 
Antígva og Barbúda eru eyjar í Karíbahafi. Höfuðborg landsins heitir Saint John’s og í landinu búa rúmlega 100.000 manns á svæði sem er álíka stórt og Grýtubakkahreppur. Íbúarnir eru langflestir af afrískum uppruna og þeir tala tungumál sem er blanda af vestur-afrískum málum og ensku. Flestir íbúanna eru kristnir. Eyjarnar eru nokkrar talsins og liggja allar frekar lágt en hæsti tindurinn er aðeins 402 metra hár gýgur. Annars einkennis landslagið af hvítum sólríkum ströndum og skógivöxnum hlíðum. Hitinn helst nokkuð stöðugur árið um kring eða um 23-29°C. Þetta er því sannkölluð ferðamannaparadís enda byggir hagkerfi landsins að miklu leyti á þeim iðnaði. Lífsgæði landsins eru nokkuð góð og eru t.d. betri en í nokkrum Evrópulöndum. Áður en Evrópubúar komu til Antígva og Barbúda höfðu þar búið a.m.k. þrír hópar frumbyggja á mismunandi tímum þó. Þegar Kristófer Kólumbus fann eyjarnar árið 1493 bjuggu þar Karíbar. Bretar lögðu eyjarnar undir sig árið 1628 og hófu framleiðslu á tóbaki, sykurreyr og baðmull. Fljótlega hófst innflutningur á þrælum frá Afríku. Sjúkdómar, vannæring og þrælkun útrýmdi öllum frumbyggjum þessara eyja. Þrælahald varð bannað í breska heimsveldinu árið 1734 en það breytti raunar engu fyrir þrælana sjálfa í heila öld eftir það. Það fór að bera á sjálfstæðisbaráttu í byrjun 20. aldarinnar. Antígva og Barbúda fengu svo sjálfstæði árið 1981. 
Matarmenning Antígva og Barbúda er mjög líkur því sem gerist í öðrum löndum Karíbahafsins. Mikið er notað af sjávarfangi, hrísgrjónum og maísafurðum. Kartöflur, mjölbananar og kjúklingur, svínakjöt og nautakjöt er einnig vinsælt til matargerðar. Þjóðarrétturinn nefnist fungie (fúndjí) og er nokkuð líkt ítalskri pólentu og er aðallega búið til úr maísmjöli. 

Rétturinn sem ég eldaði frá Antígva og Barbúda var saltfskbuljolde og er gjarnan hafður með fungie. 

Saltfiskbuljolde

1 kg útvatnaður saltfiskur, í bitum og án roðsins
3 tómatar, skornir í bita
3 hvítlauksrif
1 gulrót, skorin í ræmur
1 blaðlaukur, í sneiðum
1 rauð paprika, í ræmum
1 rauðlaukur
1 rauður chili, saxaður
1/2 bakki af kóríander
jarðhnetuolía
1 dl vatn
salt og pipar

1. Byrjið á að setja kóríander, lauk og hvítlauk í matvinnsluvél og blandið saman. Geymið svo til hliðar.
2. Setjið smá jarðhnetuolíu í pott og hitið á miðlungs hita. 
3. Setjið laukblönduna út á pönnuna og steikið í um 2 mínútur.
4. Bætið við tómötunum og lokið pönnunni og eldið áfram í um 5 mínútur.
5. Bætið vatninu við ásamt restinni af grænmetinu og saltfisknum. 

6. Eldið fiskinn í 45 mínútur og berið svo fram með fungie eða meðlæti að eigin vali.

Ég gerði þau skelfilegu mistök að gleyma að útvatna saltfiskinn. Þessi réttur varð því allt alltof saltur en þrátt fyrir það var hann alveg bragðgóður. Ég náði auðvitað ekki að borða mikið af þessu. Ég þarf að prófa þessa uppskrift aftur seinna því þetta lofaði góðu. 

Þá eru 85 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Nýja Sjáland!


Afríka: 24 af 54 (44%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 22 af 46 (47%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 10 af 23 (43%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 85 af 198 (42,9%)

Ummæli

Vinsælar færslur