Austurríki - Vínarsnitsel

Þá er komið að Austurríki. Austurríki er land í  Mið-Evrópu sem á landamæri að Þýskalandi, Tékklandi, Slóvakíu, Slóveníu, Ungverjalandi, Sviss, Ítalíu og Liechtenstein. Höfuðborg landsins heitir Vín og í landinu búa tæpar 9 milljónir manna á svæði sem er 4/5 af stærð Íslands. Íbúar landsins eru flestir þýskumælandi Austurríkismenn en þó eru rúm 15% landsmanna innflytjendur. Flestir innflytjendanna eru Þjóðverjar, Tyrkir og fólk frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu. Tæp 90% landsmanna hafa þýsku að móðurmáli og það er opinbert tungumál landsins. 2/3 landsmanna eru kristnir og fjórðungur er trúlaus. Austurríki liggur að mestu í Ölpunum og því er landið mjög fjalllent og telst vera í tempraða beltinu. Það getur verið frekar kalt á veturna og sumrin geta orðið nokkuð heit en eru yfirleitt í kringum 25°C heit. Lífsgæði íbúanna eru afburðagóð og misskipting auðs lítil. 
Ekki er vitað hvenær fyrsta fólkið settist að í Austurríki en þegar Rómverjar lögðu svæðið undir sig árið 16 f.kr. bjuggu þar keltneskir þjóðflokkar. Eftir fall Rómaveldis réðust Bæjarar, Slavar og Avarar á svæðið. Karlamagnús, konungur Franka, náði landinu undir sig árið 788 og kristnaði íbúana. Landið varð þá austasta svæðið í ríki Karlamagnúsar. Austurríki varð svo hluti af Heilaga rómverska ríkinu árið 955 og árið 1278 kemst Habsborgarættin til valda á svæðinu og stjórnar því allt til ársins 1918. Austurríki verður ekki að sjálfstæðu konungsveldi fyrr en árið 1804 og hafði verið hertogadæmi áður. Árið 1867 nær Austurríki yfirráðum í Ungverjalandi og þar með verður Austurrísk-ungverska keisaradæmið til. Árið 1914 var erfingi ríkisins, Franz Ferdinand, myrtur í Sarajevo og það markaði upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar. Árið 1918 endaði fyrri heimstyrjöldin og Austurríki varð að lýðræðisríki með nýjum landamærum og um 3 milljónir Austurríkismanna lentu utan landamæra Austurríkis. Í seinni heimstyrjöldinni var Austurríki innlimað í Þýskaland. Yfir 300.000 Austurríkismanna létust eða voru teknir af lífi í heimstyrjöldinni og um 140.000 austurrískir Gyðingar flúðu land bara fyrsta árið. Bandamenn náðu landinu 23. apríl 1945 og bandamenn héldu hernáminu áfram næsta áratuginn. Austurríki varð því aftur sjálfstætt ríki 15. maí 1955 og gekk í Sameinuðu þjóðirnar í desember sama ár, Evrópuráðið ári seinna og í Evrópusambandið árið 1995. 
Austurríkismenn hafa lagt sitt af mörkum til menningar og vísinda. Meðal merkra Austurríkismanna má nefna tónskáld eins og Mozart, Beethoven, Strauss, Schubert, Liszt og Haydn og vísindamenn eins og Sigmund Freud, Hans Asperger og Gregor Mendel. Loks má nefna að Marie Antoinette var austurrísk, sömuleiðis Ferdinand Porsche, Daniel Swarovski, Rothschild-fjölskyldan, Christian Doppler, Arnold Schwarzenegger og margir fleiri. 
Matarmenning Austurríkis er mjög evrópsk og maturinn inniheldur mikið af svína- eða nautakjöti ásamt ýmsu grænmeti og kartöflum. Brauð og bakkelsi er mikilvægur hluti matarins og Austurríkismenn eiga heiðurinn að Sachertorte og Apfelstrudel. Þeir drekka einnig mikið af kaffi og bjór. 

Ég ákvað að gera klassíska austurríska uppskrift sem allir þekkja, Vínarsnitsel. Ég gerði að sjálfsögðu lágkolvetnaútgáfu af þessum vinsæla rétti. Ég hafði "kartöflu"salatið með en það á að fylgja svo snitselið geti kallast Vínarsnitsel. 

Vínarsnitsel

4 kálfasnitsel
4 dl möndlumjöl
2 egg
salt
smjör eða olía, til steikingar
sítróna

1. Setjið möndlumjöl og egg á sitt hvorn diskinn.
2. Saltið möndlumjölið aðeins og hrærið aðeins í eggjunum. 
3. Þerrið snitselin með eldhúspappír og setjið eitt lag af möndlumjöli á þau.
4. Dífið snitselunum, einu í einu, í eggin og síðan aftur í möndlumjölið og geymið.
5. Hitið smjör eða olíu á pönnu og hafið feitina 2-3 sm djúpa.
6. Steikið snitselin þar til þau verða gullin að lit og færið yfir á fat.
7. Berið fram með “kartöflu”salatinu og kreistið sítrónu yfir snitselið áður en það er borðað.

"Kartöflu"salat

1 butternut grasker (500 g)
60 ml kjúklingasoð
1/4 laukur, mjög smátt saxaður
2 1/2 msk olía (ekki ólífuolía)
2 msk hvítvínsedik
1 msk dijonsinnep
salt og pipar eftir smekk
2 msk graslaukur eða steinselja, saxað (má sleppa)

1. Skerið graskerið niður í bita og raðið á bökunarplötu og bakið í ofni í 20-30 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt. 
2. Setjið graskerið í skál og bætið heitu kjúklingasoðinu við ásamt smátt saxaða lauknum. 
3. Blandið olíu, ediki, sinnepi, salti og pipar saman í annarri skál og hellið svo blöndunni yfir graskerið. Blandið öllu saman. 
4. Saxið graslauk eða steinselju og setjið yfir.
5. Best er að leyfa salatinu að hvíla sig í 1-2 klst áður en það er borið fram. 

Mér fannst þessi réttur heppnast einstaklega vel. Ég er virkilega ánægð með útkomuna á "raspinu" því það var stökkt og fallega brúnt hjá mér. Ég fékk ekki kálfakjöt svo ég notaði svínakjöt og þá telst þessi réttur tæknilega ekki lengur vera Vínarsnitsel, en gott var þetta. "Kartöflusalatið" heppnaðist líka alveg ótrúlega vel og ég mun klárlega gera þetta gómsæta salat aftur með öðrum réttum jafnvel. Venjulega er ekki nein sósa með þessum rétti en þar sem maður borðar lágkolvetna eða keto er ekki verra að hafa gott mæjónes með þessu til að auka fituna. 

Þá eru 90 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Brúnei!


Afríka: 26 af 54 (48%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 24 af 46 (52%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 10 af 23 (43%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 90 af 198 (45,4%)

Ummæli

Vinsælar færslur