Brúnei - Ikan sambal
Brúnei er ekki land sem maður heyrir oft nefnt og ég vissi rosalega lítið um það enda lítið land og langt í burtu frá Íslandi. En Brúnei er sem sagt sóldánsdæmi í Asíu sem á landamæri að Malasíu. Höfuðborg landsins heitir Bandar Seri Begawan og í landinu búa 417.000 manns á svæði sem er aðeins stærra en Vestur-Skaftafellssýsla. Þrátt fyrir smæðina er þjóðin ekki einsleit og íbúarnir eru af nokkrum mismunandi þjóðum komnir. Þjóðirnar tala sín eigin tungumál en opinber tungumál landsins eru enska og malasíska en flestir tala brúneiska málýsku af malasísku. Tveir af hverjum þremur íbúa eru múslimar en 13% eru búddhistar og 10% eru kristin. Brúnei er ríkt land vegna olíu- og gasuppspretta sem þar er að finna. Lífgæðin í landinu eru mjög góð og á við það sem gerist í Vestur-Evrópu.
Ekki er mikið til af heimildum frá því áður en Evrópubúar mættu á svæðið en til eru kínverskar heimildir um sóldánsdæmið frá því árið 977 f.kr. Þar var að minnsta kosti enn sóldánsdæmi á 14. öld og um það leyti snérust íbúarnir til íslamstrúar. Þegar sóldánsdæminu gekk sem best náði það yfir allan norðurhluta Borneó en því fór svo að hnigna á 19. öld. Brúnei varð að bresku verndarsvæði árið 1888 og varð ekki aftur sjálfstætt fyrr en 96 árum seinna, árið 1984. Á 8. áratug síðustu aldar uppgötvuðust gas- og olíulindir sem varð til þess að lífgæðin þar urðu virkilega góð. Landið er þó ekki laust við nokkra galla, t.d. hallar nokkuð á konur, samkynhneigð er ólögleg og trúfrelsi ríkir ekki í landinu.
Matarmenningin í Brúnei er mjög lík þeirri malasísku og einnig þeirri indónesísku. Mikið er borðað af fiski og hrísgrjónum en einnig nokkuð af nautakjöti og villibráð. Alkóhól er bannað í landinu og allur matur er halal. Yfirleitt innihalda máltíðir hrísgrjón og svo vel kryddaða sterka sósu/pottrétt ásamt einhverri sambalsósu. Algeng krydd í brúneiskum mat eru rækjumauk, hvítlaukur, engifer, vorlaukur, pálmasykur, limesafi, chili og edik.
Ég gerði fiskrétt sem venjulega er borðaður með hrísgrjónum fyrir Brúnei og hann á víst að vera nokkuð vinsæll þar í landi.
500 g hvítur fiskur
1 tsk túrmerik
1/4 tsk salt
1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
sósan
8 shallotlaukar
2 hvítlaukrif
1 rauður chili
1/2 tsk rækjumauk (má sleppa)
1 msk olía
2 msk tamarindmauk
1 1/2 dl volgt vatn
1 1/2 tsk sæta
1/2 tsk salt
1. Byrjið á að nudda fiskflökin með túrmeriki og skerið þau í bita.
2. Setjið shallotlaukana, hvítlauk, chili og rækjumauk í matvinnsluvél og búið til þykkt mauk.
3. Hitið olíu á pönnu og setjið shallotlaukmaukið út á og steikið í um 3 mínútur.
4. Setjið tamarindmauk í volgt vatnið og hrærið saman. Bætið því svo út á pönnuna ásamt sætu og salti.
5. Lækkið hitann og leyfið þessu að malla saman í 5 mínútur.
6. Setjið fiskinn út á pönnuna og eldið þar til hann er tilbúinn.
7. Berið fram með laukhringjunum og brokkolígrjónum.
Þessi réttur var nú frekar daufur á bragðið en alls ekkert vondur. Mun ekki gera hann aftur því mér fannst vanta eitthvað í hann.
Þá eru 91 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Gana!
Afríka: 26 af 54 (48%)
Asía: 16 af 49 (32%)
Evrópa: 24 af 46 (52%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 10 af 23 (43%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 91 af 198 (45,9%)
Ummæli
Skrifa ummæli