Lesótó - Rautt latte

Lesótó er ekki beint land sem maður heyrir mikið um en Lesótó er sem sagt land í sunnanverðri Afríku sem er umlukt Suður-Afríku. Höfuðborg landsins heitir Maserú og í landinu búa 2,2 milljónir manna á svæði sem er álíka stórt og Suðurland og Vestfirðir samanlagt. Íbúar landsins eru sennilega með þeim einsleitnustu í löndum Afríku en nánast allir landsmenn eru sesótómælandi Basótómenn. Flestir landsmenn eru kristnir eða um 95%. Landið er konungsríki og konungur landsins er Letsie III Lesótó er gríðarlega fjallent ríki og landið liggur allt yfir 1000 m yfir sjávarmáli og reyndar er lægsti punktur landsins í 1.400 m hæð og 80% landsins er yfir 1.800 m hæð. Vegna þess hve hátt landið liggur er svolítið kaldara þar en í öðrum löndum sem liggja á sama breiddarbaug. Lífsgæðin í Lesótó eru ekki góð og þar eru hlutfallslega flestir með HIV í heiminum og um 50% kvenna undir 40 ára í þéttbýli eru sýktar af veirunni. Meðalmanneskja í Lesótó getur búist við því að vera 42 ára gömul.
Fólk hefur búið í Lesótó í að minnsta kosti 40.000 ár. Á einhverjum tímapunkti setjast Bantúmenn þar að. Árið 1818 sameinaði Moshoeshoe I landsmenn og varð konungur þeirra. Landið fór í stríð við Búa á árunum 1856-1868 og missti mikið land í kjölfarið. Árið 1871 taka Bretar yfir landið og þeir eiga landið þar til árið 1966. Landið varð þá aftur að konungsríki. Árið 1993 var ný stjórnarskrá tekin í notkun og við það minnkuðu völd konungsins, kosningar voru haldnar og fjölflokkakerfi var komið á.
Matarmenning Lesótó er mjög afrísk og mjög lík þeirri suður-afrísku en þó með einhverjum breskum áhrifum. Kartöflur, hrísgrjón, grænmeti, maís og jarðhnetur eru mjög algeng hráefni í lesótóskri matargerð.
Ég ákvað að útbúa drykk sem er mjög vinsæll í Lesótó og reyndar líka í Suður-Afríku en það er rautt latte. Rautt latte er í rauninni latte með rauðrunnatei í stað kaffis.

Rautt latte
fyrir 1

1/2 dl rauðrunnate (sterkt)
1 dl flóuð mjólk
sæta (venjulega er hunang notað en ég notaði stevíu)
kanill

1. Útbúið rauðrunnateið og bætið sætu út í.
2. Flóið mjólk og hellið henni út í teið.
3. Skreytið með smá kanil. 

Mér finnst rauðrunnate svo sem ekki svo gott te en þetta er virkilega skemmtilegur drykkur. Ég mæli með að prófa þetta ef maður er mikið fyrir te og er til í eitthvað nýtt. 

Þá eru 89 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Austurríki!


Afríka: 26 af 54 (48%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 23 af 46 (50%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 10 af 23 (43%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 89 af 198 (44,9%)

Ummæli

Vinsælar færslur