Madagaskar - Madagaskur kjúklingapottréttur

Þá var komið að Madagaskar, stórri eyju við austurströnd Afríku. Þar búa tæpar 25 milljónir manna á svæði sem er 5,7 sinnum stærra en Ísland og er fjórða stærsta eyja í heimi. Höfuðborg landsins heitir Antananarivo. Langflestir íbúar landsins tilheyra einhverjum af hinum 18 mismunandi þjóðflokkum eyjarinnar. Fjölmennustu hóparnir eru Merina, Betsimisaraka og Betsileo. Opinber tungumál landsins eru franska og malagasíska og flestir íbúanna tala eitthvert málýskuafbrigði af malagasísku. Rúmur helmingur íbúanna eru mótmælendur en tæp 40% eru kaþóskir. Madagaskar er stór eyja og loftslag þar því mjög fjölbreytt, allt frá regnskógum og upp í þurrar eyðimerkur. Dýralífið er einstakt vegna þess hve eyjan var afskekkt. Um 90% dýra- og plöntutegunda sem lifa á Madagaskar er hvergi hægt að finna annars staðar. Meðal dýrategunda sem er einungis að finna á Madagaskar eru lemúrar og 2/3 af öllum tegundum kamelljóna. En þá að fólkinu og lífsgæðum þess en þau eru ansi slæm. Meðal annars hafa margir ekki aðgang að læknisþjónustu. 

Talið er að fyrsta fólkið hafi komið til Madagaskar um 2000 f.kr. en fólk hafi byrjað að setjast þar að í miklu mæli á milli 350 f.kr. og 550 e.kr. Ótrúlegt en satt komu fyrstu landnemarnir ekki frá Afríku heldur Borneó í Indónesíu. Fyrsta fólkið frá Afríku kom þangað um árið 1000 e.kr. og komu með sebu með sér sem eru náskyld kúm. Fjöldamargar dýrategundir dóu út eftir að menn settust að á eyjunum m.a. risalemúar, fílafuglar og ein flóðhestategund. Arabar hófu viðskipti við Malagasa á milli 7. og 9. öld. Á árunum 1540-1897 var konungsveldi á eyjunni. Evrópumenn fundu eyjuna ekki fyrr en um 1500 og Frakkar hófu þar verslun seint á 17. öld. Kristni varð að opinberri trú landsins árið 1869 og ný lög að evrópskri fyrirmynd voru tekin upp. Frakkland réðst svo inn í landið árið 1883 og sigraði heimamenn. Það eignaðist þó ekki eyjuna fyrr en rúmum áratug seinna og þá með hjálp Alsíringa. Madagaskar varð formlega að nýlendu Frakklands árið 1897 og konungsfjölskyldan var send í útlegð til Réunion. Frakkland ríkti yfir landinu til 1960 og síðan þá hafa stjórnmálin verið litrík og landið varð t.d. gjaldþrota árið 1979. 
Matarmenning Madagaskar er, rétt eins og dýrin þar, einstök. Vissulega hefur maturinn orðið fyrir nokkrum áhrif frá Miðausturlöndum og Evrópu en hefur þó haldið sér nokkuð vel. Hrísgrjón eru grunnur hverrar máltíðar og kallast vary. Með hrísgrjónunum er svo oft einhvers konar kássa eða sósa, annað hvort með grænmeti eða einhverju próteini, sem kallast laoka. Í eyðimörkinni þarf fólk hins vegar að nota maís, kassavarót eða ferskost úr sebumjólk í stað hrísgrjóna. Helstu hráefnin sem notuð eru til að krydda laoka-ð eru hvítlaukur, laukur, engifer, tómatar, karrýduft, negull, túrmerik, kókosmjólk og vanilla. Já, ég skrifaði vanilla! Hún er notuð í ósæta rétti á Madagaskar enda er þetta næst dýrasta krydd heims upprunnið þaðan. 

Ég eldaði einmitt uppskrift sem inniheldur vanillu en er ekki sæt. 

Madagaskur kjúklingapottréttur



2 msk olía
1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
3 hvítlauksrif, smátt söxuð
2 msk rifinn engifer
400 ml kókosmjólk
1 vanillustöng
5 negulnaglar
1/2 tsk túrmerik
1 msk karrýduft
650 g úrbeinuð kjúklingalæri, í bitum
2 plómutómatar, saxaðir
salt og pipar

1. Byrjið á að hita olíu í potti og steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferinn í honum í nokkrar mínútur.
2. Bætið kókosmjólk, vanillu, negulnöglum, túrmeriki og karrýduftinu út í ásamt 2 d af vatni.
3. Hitið að suðu áður en kjúklingurinn er settur út í og eldið hann í um 20 mínútur.
4. Bætið þá tómötum, salti og pipar við og eldið áfram í 5 mínútur.

5. Smakkið til áður en rétturinn er borinn fram með blómálsgrjónum. 

Rétturinn var nú ekki mjög framandi. Þetta var einfaldlega mjög mildur karrýkjúklingur en bragðið varð pínu sætt út af vanillunni. Þetta var áhugavert en ekki nógu gott til að ég myndi gera þennan rétt aftur.

Þá eru 88 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Lesótó!


Afríka: 25 af 54 (46%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 23 af 46 (50%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 10 af 23 (43%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 88 af 198 (44,4%)

Ummæli

Vinsælar færslur