Nýja Sjáland - Lambalæri


Eftir nokkuð langt hlé vegna óviðráðanlegra aðstæðna koma nú bloggfærslur aftur reglulega. Nú er komið að Nýja Sjálandi, eða Aotearoa eins og landið heitir á máli frumbyggjanna og þýðir land hins langa hvíta skýs. Höfuðborg landsins heitir Wellington og í landinu búa tæplega 9 milljónir manna á svæði sem er eins og tvö og hálft Ísland. Flestir íbúar landsins eru af evrópsku bergi brotnir en tæp 15% landsmanna eru þó Maórar, frumbyggjar landsins. Þá er nokkuð um innflytjendur frá Asíu og öðrum eyjum Kyrrahafsins. Opinber tungumál landsins eru þrjú, enska, maóríska og nýsjálenskt táknmál. Maóríska átti mjög undir höggi að sækja mest alla 20. öldina og Maórar voru hvattir til að nota ensku fram eftir öldinni. Einungis um 3,7% landsmanna tala málið og fer fækkandi þrátt fyrir ýmsar aðgerðir. Flestir íbúar landsins eru kristnir en því næst koma trúlausir. Nýja Sjáland saman stendur af tveimur stórum eyjum og nokkrum litlum eyjum. Landið er langt og mjótt og mjög fjalllent. Eldvirkni er nokkur og landslagið skorið af jöklum síðust ísaldar. Landið hefur fjórar árstíðir og það snjóar oft frá júní og fram í október í suðurhluta landsins. Nýja Sjáland er einstaklega fallegt land og er vinsæll staður til að taka upp kvikmyndir. Lífsgæðin á Nýja Sjálandi eru með því besta sem gerist í heiminum og landið trónir gjarnan á toppi ýmissa lista yfir bestu staði til að búa á. Nýja Sjáland var líklega síðasta stóra landið þar sem menn settust að en talið er að Maórar hafi komið þar á milli 1250 og 1300. Þarna þróaðist einstök menning og margir ættbálkar dreifðust um landið. Fyrsti Evrópubúinn sem kom til Nýja Sjálands var Abel Tasman árið 1642. Næsta heimsókn kom ekki fyrr en 1769 þegar James Cook kortlagði strandlengju landsins. Í kjölfar þess hófust viðskipti Evrópubúa og Norðurameríkubúa við innfædda. Kartöflur og byssur voru meðal þess sem frumbyggjar fengu út úr þessum viðskiptum og á árunum 1801 til 1840 stóðu ættbálkastríð Maóra yfir þar sem notaðar voru byssur og milli 30-40.000 Maórar létust. Evrópubúarnir komu einnig með nýja sjúkdóma í landið og vegna þessara stríða og sjúkdómanna nýju lifðu aðeins 40% Maóra af. Bretland eignaðist landið árið 1840 og í kjölfar þess hófst landnám Breta þar. Landið fékk heimastjórn árið 1852 og fyrsta þing landsins kom saman tveimur árum seinna. Árið 1856 fékk landið svo heimastjórn. Átök milli Maóra og Evrópubúanna brutust út á 7. og 8. áratug 19. aldar og í þeim misstu Maórar stærstan hluta landa sinna. Nýja Sjáland var fyrsta land í heimi til að veita konum kosningarétt en það gerðist árið 1893. Ári seinna voru verkalýðsfélög leyfð og fyrsta almenna eftirlaunakerfinu í löndum bresku krúnunnar var stofnað árið 1898. Á 8. áratug 20. aldar varð mótmælahreyfing Maóra til og sú hreyfing krafðist m.a. viðurkenningar maórískrar menningar og endurheimtar lands. Síðan þá hafa margir ættbálkanna fengið bætur. 
Matarmenning landsins er að mestu bresk en þó hafa Maórar haft nokkur áhrif. Helsta hráefnið sem notað er í nýsjálenskan mat er maís, kartöflur, lambakjöt, svínakjöt, sjávarfang, lax, sætar kartöflur og kíví. Maórar elduðu matinn sinn gjarnan í jarðofnum sem kallast hangi en einnig þekktist það að nota jarðvarma við eldamennsku. 
Frægir Nýsjálendingar: Sir Edmund Hillary, sem fyrstur kleif Everestfjall ásamt Tenzing Norgay frá Nepal, Peter Jackson, Lorde, Russel Crowe, Lucy Lawless og Anna Paquin. 

Þar sem ég var búin að baka Pavlovu áður gat ég ekki gert hana aftur. Ég valdi því það sem flestir tengja við Nýja Sjáland, lambakjöt! Ekki veit ég þó hversu hefðbundinn þessi réttur er. 

Lambalæri á nýsjálenska vísu

1 lambalæri
ólífuolía
2 greinar af fersku óreganó
25 g smjör
salt og pipar

sveppir
500 g blandaðir sveppir
2 msk ólífuolía
1 dl rjómi
2 hvítlauksrif
2 msk söxuð steinselja

aspas
nóg af aspas
1 msk ólífuolía

1. Byrjið á að hita ofninn í 200°C.
2. Setjið lambalærið á steikarfat og setjið olíuna, óreganó og salt og pipar á lærið.
3. Stingið lærinu inn í ofn í 1 1/2 klst. 
4. Setjið sveppina í eldfast mót sem kemst með lambinu inn í ofninn. 
5. Hellið rjómanum og olíunni yfir sveppina og saxið hvítlaukinn og steinseljuna og setjið út á sveppina. Saltið og piprið.
6. Bakið sveppina í ofni í um 20  mínútur. 
7. Hitið vatn í potti og snöggsjóðið aspasinn í 1 mínútu.
8. Hitið pönnu og steikið aspasinn á henni og kryddið með salti og pipar. 
Njótið!

Mér fannst þetta æðislegur réttur. Ég fékk þó ekki aspas til að hafa með lærinu en ég held að það hefði gert þennan góða rétt en betri. Ég notaði líka hálfan hrygg í staðinn fyrir læri einfaldlega því það er minni matur á honum og ég var ekki að elda fyrir marga. Ég mæli hiklaust með þessum rétti og það er gaman að fá hugmyndir að nýju meðlæti með kjöti sem hentar á lágkolvetnamataræðinu.

Þá eru 86 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Portúgal!


Afríka: 24 af 54 (44%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 22 af 46 (47%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 10 af 23 (43%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 86 af 198 (43,4%)

Ummæli

Vinsælar færslur