Portúgal - steik með eplum
Portúgal er land í Vestur-Evrópu sem á landamæri að Spáni. Höfuðborg landsins heitir Lissabon og í landinu búa rúmar 10 milljónir manna á svæði sem er 89% af stærð Íslands. Íbúar landsins eru flestir einfaldlega Portúgalar og flestir þeirra eru kristnir. Opinbert tungumál landsins er portúgalska. Portúgal er fjalllent land en þar eru einnig miklar strendur sem fyllast af ferðamönnum hvert sumar. Á sumrin getur hitinn orðið mikill og fer sjaldan undir frostmark á veturna. Saga Portúgal er löng og mikil. Portúgalar álíta að þeir hafi orðið sjálfstæði þann 24. júní 1128 en fyrir þann tíma höfðu ýmsir hópar ráðist inn í landið og ráðið þar ríkjum um tíma m.a. Keltar, Rómverjar, Vísigotar og Márar. Márar ríktu þó yfir suðurhluta Portúgal þar til árið 1250. Portúgal átti eftir að verða að heimsveldi og átti eftir að láta mikið til sín taka í siglingum og landafundum. Stærsta nýlenda Portúgala var Brasilía en einnig átti Portúgal borgir víðsvegar um heiminn t.d. Luanda í Angóla, Góa á Indlandi, Malaka í Indónesíu. Um miðja 18. öld hafði Portúgal þó misst flestar þessara nýlenda til annarra þjóða. Árið 1822 fékk svo Brasilía sjálfstæði. Árið 1910 risu Portúgalar upp gegn konungsveldinu og stofnuðu það sem hefur verið kallað Fyrsta lýðveldið. Það stóð yfir í 16 ár áður en herforingjastjórn tók við völdum landsins. Sú stjórn hafði mjög fasískt yfirbragð. Landið var fasískt einræðisríki allt þar til uppreisn var gerð þann 25. apríl 1974. Sú bylting er kölluð Nellikubyltingin. Við þetta fluttu mörg hundruð þúsund Portúgalar aftur til landsins. Portúgal gekk í Evrópusambandið árið 1986 og hafa tekist vel á við efnahagsvandamál sín en er samt eitt af fátækustu ríkjum Vestur-Evrópu.
Matarmenning: Portúgal hefur einstaka matarmenningu. Flestir réttir innihalda fisk/sjávarfang eða kjöt og saltfiskur er mjög vinsæll. Kartöflur eru mjög vinsælar og sömuleiðis hrísgrjón. Helsta grænmeti sem notað er eru tómatar, kál og laukur og helstu kryddin eru hvítlaukur, steinselja og kóríander. Nokkuð mikið er um sætindi og þess er oft notið með sterkum kaffibolla. Í Portúgal er mikið framleitt af víni og þaðan eru tveir sérstakir flokkar vína, púrtvín frá Porto og madeira frá Madeiraeyjum.
Portúgal hefur gefið okkur ótalmargt frægt og merkilegt fólk. Nú á síðari tímum eru það að mestu leyti fótboltamenn enda á Portúgal eitt sterkasta fótboltalið heims. Aðrir frægir Portúgalar eru m.a.: Vasco da Gama, Kristófer Kólumbus, Nelly Furtado og Carmen Miranda.
Rétturinn sem ég valdi frá Portúgal var valinn vegna þess að hann hentaði í þetta skiptið. Ég veit ekki hversu hefðbundinn hann er og ég hefði sennilega getað valið eitthvað hefðbundnara.
300 g nautagúllas
1 rautt epli
1/2 tsk kanill
óreganó eftir smekk
ólífuolía
safi úr 1/2 sítrónu
salt
1. Byrjið á að hita ofninn í 180°C.
2. Setjið gúllasið í eldfast mót og kryddið með salti og kanil og dreifið smá ólífuolíu yfir.
3. Skolið eplið, kjarnhreinsið og skerið í sneiðar.
4. Raðið eplasneiðunum ofan á kjötið og setjið smá olíu í viðbót ásamt sítrónusafanum og óreganó.
5. Bakið réttinn í ofni í um 50 mínútur. Berið svo fra með t.d. salati.
Mér fannst þetta mjög fínn réttur. Það er auðvitað frekar óvenjulegt að hafa epli, kanil og kjöt saman en mér fannst það alveg passa. Ég mæli með að prófa þennan rétt ef þið eruð til í eitthvað nýtt.
Þá eru 87 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Madagaskar!
Afríka: 24 af 54 (44%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 23 af 46 (50%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 10 af 23 (43%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 87 af 198 (43,9%)
Ummæli
Skrifa ummæli