Gana - Jollofhrísgrjón

Akwaaba!
Gana er land í Vestur-Afríku sem á landamæri að Fílabeinsströndinni, Tógó og Búrkínu Fasó. Höfuðborg landsins heitir Akkra og í landinu búa rúmar 28 milljónir manna á svæði sem er meira en tvöfalt stærra en Ísland. Íbúar landsins tilheyra hinum ýmsu þjóðflokkum en fjölmennasti hópurinn eru Akanar en til þess hóps teljast tæpur helmingur landsmanna. Fjölmörg tungumál eru töluð í landinu en aðeins enska er opinbert mál. Um þrír af hverjum fjórum íbúum eru kristinnar trúar en rúm 16% eru múslimar. Lífsgæðin í Gana eru slæm á íslenskan mælikvarða en í meðallagi miðað við önnur lönd í Afríku. Mannréttindi mættu vera mun betri en t.d. er samkynhneigð bönnuð og konur eiga það til að vera ákærðar fyrir galdra. Þessar konur eru venjulega ekkjur og margar eiga við andleg veikindi að stríða.
Fólk hefur búið í Gana frá örófi alda. Á miðöldum risu þar nokkur ríki Akana, m.a. Ashantiveldið sem átti í miklum viðskiptum með gull við önnur ríki Afríku. Portúgalir hófu verslun við Akana á 15. öld og þeir stofnuðu þar verslunarstöð sem þeir nefndu Gullströndina. Árið 1598 komu einnig Hollendingar og síðar Svíar, Þjóðverjar og Danir. Þessar þjóðir keyptu aðallega gull og þræla, sem þær sendu svo til Vesturheims. Bretar komu hins vegar ekki til sögunnar fyrr en á 19. öld og tóku þá yfir allt landið. Ashantiveldið hafði átt í stríði við Breta síðan 1823 en tapaði svo þessu næstum 100 ára stríði árið 1900. Gana fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1957. Fyrsti forsetinn ríkti í níu ár áður en her landsins framdi valdarán. Næstu fimmtán árin einkenndust af herforingjastjórnum og borgaralegum stjórnum til skiptis. Á þessari öld hafa stjórnmálin gengið mun betur.
Meðal frægra Ganverja má nefna; Kofi Annan, fyrrum aðalritari SÞ og Idris Elba, leikari. 
Matarmenningin í Gana er lík því sem gerist annars staðar í Vestur-Afríku. Máltíðir innihalda venjulega sósu eða súpu með einhverju próteini ásamt kolvetnum eins og kassava, mjölbanana, hirsi, sorghum, sætum kartöflum, maís eða baunum en hveiti og hrísgrjón í minna mæli. Vinsæl prótein eru nauta-, svína-, geita- og lambakjöt, kalkúnn, kjúklingur, innmatur, þurrkaðir sniglar og alls kyns sjávarfang. Laukur, tómatar og chili eru mjög algeng hráefni í ganverskum sósum eða pottréttum en einnig eru sveppir, okra, eggaldin, spínat, pálmaolía, jarðhnetuolía og graskersfræ vinsæl til matargerðar. Í morgunmat er algengt að borða ávexti, hafra, hrísgrjónagraut, maísgraut eða hirsigraut. Þá er brauð einnig orðið vinsælt.
Rétturinn sem ég eldaði frá Gana heitir jollofhrísgrjón en það er vinsæll réttur í allri Vestur-Afríku en er líklega upprunalega frá Senegal eða Gambíu. 

Jollofhrísgrjón

600 g brokkolí
olía
2 msk tómatmauk
2 laukar, annar þeirra saxaður
2 tómatar
2 hvítlauksrif
engifer, ferskur
4 scotch bonnet-chili (má minnka)
1 teningur af t.d. grænmetiskrafti
þurrkaðar kryddjurtir
1 lárviðarlauf
salt

1. Byrjið á að setja engifer, hvítlauk, chili, tómata og annan laukinn í matvinnsluvél og maukið það saman. 
2. Hitið pönnu, setjið olíu á hana og steikið hinn laukinn þar til hann er mjúkur.
3. Setjið tómatmaukið út á pönnuna og eldið áfram í 3-4 mínútur. 
4. Setjið svo maukið úr matvinnsluvélinni á pönnuna og steikið þar til laukurinn er ekki lengur hrár.
5. Setjið nú kraftinn, kryddjurtir og lárviðarlauf á pönnuna og leyfið því að malla í um 3 mínútur.
6. Búið til "hrísgrjón" úr brokkolíinu og setjið út á pönnuna. 
7. Blandið öllu vel saman og smakkið til með salti áður en rétturinn er borinn fram með próteini að eigin vali (ég var með kjúkling).  

Þessi réttur var furðulega góður og var betri en ég þorði að vona. Þetta er ágætis meðlæti en ég veit ekki hvort ég myndi gera þetta aftur. 

Þá eru 92 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Kostaríka!


Afríka: 27 af 54 (50%)
Asía: 16 af 49 (32%)
Evrópa: 24 af 46 (52%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 10 af 23 (43%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 92 af 198 (46,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur