Kostaríka - Escabeche de Pollo

Kostaríka er land í Norður-Ameríku sem á landamæri að Níkaragva og Panama. Höfuðborg landsins heitir San José og í landinu búa tæpar 5 milljónir manna á svæði sem er um helmingur af stærð Íslands að stærð. Íbúarnir eru flestir af evrópskum uppruna eða af evrópskum og norður amerískum uppruna. Um 70% íbúanna eru kaþólskir og opinbert tungumál landsins er spænska. Enska er nokkuð töluð við strendur landsins og enn eru töluð fimm tungumál frumbyggja í landinu. Lífsgæðin á Kostaríku eru þokkaleg og á við það sem gerist t.d. í Serbíu. Landið hefur ekki haft her síðan 1949, heilbrigðisþjónusta er ódýr og flestir landsmenn eru læsir og reyndar er kostaríska þjóðin sú læsasta í rómönsku Ameríku. Hins vegar er landið nokkuð skuldugt og hefur fengið hjálp frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum við að skipuleggja fjármál sín undanfarið. 


Fyrstu mennirnir eru taldir hafa komið til Kostaríku á milli 10.000 og 7.000 f.kr. Þetta fólk voru veiðimenn og safnarar sem lifðu í litlum 20-30 manna samfélögum. Íbúar landsins bjuggu mitt á milli menningar Asteka í norðri og Inka í suðri. Kristófer Kólumbus nam fyrstur Evrópubúa land á Kostaríku árið 1502. Með Evrópubúum fylgdu sjúkdómar eins og mislingar og bólusótt sem frumbyggjar höfðu ekki ónæmi fyrir. Því dóu margir þeirra úr þessum áður óþekktu sjúkdómum. Spánverjar gerðu Kostaríku að nýlendu sinni árið 1524. Landið átti þó ekki mikið af auðlindum og því fluttust ekki svo margir þangað og árið 1719 lýsti spænski landstjórinn Kostaríku sem fátækustu og aumustu nýlendu Spánverja í Ameríku. Þó tókst Spánverjum að útrýma nánast öllum frumbyggjum landsins. Þegar Napóleón náði yfirráðum á Spáni gerðu Mið-Ameríkuríkin uppreisn og mynduðu nýtt land árið 1821. Kostaríka varð svo alveg sjálfstætt ríki árið 1838. Hið nýja land átti þó í nokkrum vandræðum því innviðir voru lítt þróaðir og byggja þurfti upp viðskipti með kaffi upp á nýtt. Fyrstu friðsamlegu kosningarnar voru haldnar árið 1869 og aðeins hafa tvö stutt átök brotist út síðan þá. Fyrst þegar Federico Granados ríkti sem einræðisherra árin 1917-1919 og í hinu 44 daga langa borgarastríði árið 1948. Kreppa varð í lok 8. áratugarins þegar verð á banönum og kaffi féll. Landið þurfti að taka nokkur lán og er enn með nokkrar skuldir síðan þá. Ferðamannaiðnaðurinn fer þó hratt vaxandi og landið leggur áherslu á eco-túrisma eins stækkar tæknigeirinn hratt og Microsoft, Motorola og Intel eru með framleiðslu í landinu.
Kostarísk matargerð er þekkt fyrir að vera mild og leggja mikla áherslu á ávexti og grænmeti. Hrísgrjón, maís, kartöflur og baunir eru grunnur margra máltíða og oft borðaðar þrisvar á dag. Mest er borðað af svína- og nautakjöti en einnig eru kjúklingur og fiskur vinsæl prótein. Spænskur matur hefur haft mikiláhrif á matarmenninguna. Meðal vinsælla kostarískra rétta má nefna casado, sem eru fyllt bananalauf með hrísgrjónum, baunum og kjöti ásamt steiktum mjölbanana og tortillaköku. Þessi réttur er vinsæll hádegismatur. Aðrir réttir eru t.d. arroz con pollo (hrísgrjón með kjúklingi), ceviche, chicharrón og olla de carne (pottur af kjöti). Loks er tres leches sennilega vinsælasti eftirréttur Kostaríku en hann er búinn til (eins og nafnið gefur til kynna) þremur gerðum mjólkur.

Rétturinn sem ég gerði frá Kostaríku heitir escabeche de pollo og er kjúklingaréttur.

Escabeche de pollo

12 kjúklingaleggir
2 laukar, skornir í sneiðar
2 dl olía
4 lárviðarlauf
1 dl ólífur
1 dl kapers
1 dl balsamedik
1 dl vatn
salt og pipar

1. Byrjið á að hita 1 dl af olíu á stórri pönnu við miðlungsháan hita.
2. Steikið kjúklingaleggina þar til þeir verða gullnir (25 mínútur).
3. Setjið leggina í stóra skál og setjið laukinn, lárviðarlaufin, ólífurnar, kapers og restina af olíunni líka í skálina. 
4. Setjið plastfilmu á skálina og geymið í um 30 mínútur. 
5. Réttinn má annað hvort bera fram heitan eða kaldan og gjarnan með brokkolígrjónum. 

Þessi réttur var mjög áhugaverður. Hann var góður en ég held ég myndi samt ekki gera hann aftur. Það var mjög gaman að prófa svona nýja aðferða samt. 

Þá eru 93 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Súrínam!


Afríka: 27 af 54 (50%)
Asía: 16 af 49 (32%)
Evrópa: 24 af 46 (52%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 11 af 23 (47%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)


Samtals: 93 af 198 (47%)

Ummæli

Vinsælar færslur