Súrínam - boka dushi
Súrínam er land í Suður-Ameríku sem á landamæri að Gvæjana,
Brasilíu og Frönsku Gvæjana. Höfuðborg landsins heitir Paramaribo og í landinu
búa tæplega 560.000 manns á svæði sem er um eitt og hálft Ísland að stærð.
Íbúar landsins eru af mjög mismunandi uppruna. Um 27% landsmanna eru af
indverskum uppruna, tæp 22% eru af blönduðum afrískum og suður-amerískum uppruna,
tæp 16% eingöngu af vestur-afrískum uppruna og tæp 14% eiga ættir að rekja til
eyjarinnar Jövu á Indónesíu. Tæplega helmingur landsmanna eru kristnir en þar á
eftir koma hindúar sem eru rúmlega 22% landsmanna og um 14% aðhyllast íslam.
Opinbert tungumál landsins er hollenska og 60% landsmanna hafa það mál að
móðurmáli og flestir aðrir geta talað málið sem annað tungumál. Á götum úti og
í óformlegum samræðum er kreóalmálið sranan talað, en það er byggt á ensku. Auk
þess eru um þrettán önnur tungumál viðurkennd í landinu, þar af eru níu mál
frumbyggja. Lífsgæði íbúanna í Súrínam eru aðeins yfir meðallagi á heimsvísu.
Fólk var komið til Súrínam fyrir a.m.k. 5000 árum og í það
minnst bjuggu Aravakar og Karíbar við strendur landsins og Akurio, Trió, Warrau
og Wayana inn til landsins þegar fyrstu Evrópubúarnir mættu á svæðið í byrjun
16. aldar. Bretar reyndu fyrstir að setjast að í landinu og það var árið 1630.
Sú byggð tókst ekki vel en áfram reyndu þeir þó og Hollendingar fóru svo að reyna
líka. Einhverjar nýlendur voru stofnaðar af bæði Bretum og Hollendingum og það
olli nokkrum deilum. Deilurnar enduðu með því að Bretar eignuðust Gvæjana og
Hollendingar Súrínam. Innflutningur hófst þá á þrælum frá Vestur-Afríku og unnu
þeir við kaffi-, kakó-, sykur- og bómullarræktun. Frumbyggjar hjálpuðu mörgum
þrælum, sem bjuggu við alveg einstaklega slæm skilyrði í Súrínam, við að flýja
og þetta fólk blandaðist og myndaði sína eigin menningu. Þrælahald var bannað
árið 1863 en það tók þó áratug fyrir alla þrælana að verða frjálsir. Við þetta
varð nokkur skortur á vinnuafli í landinu og því var fólk frá Hollensku Austur
Indíum (Indónesíu) fengið til að koma og vinna í landinu ásamt fólki frá
Indlandi. Það var árið 1975 sem Súrínam varð að sjálfstæðu ríki en því var þó
hjálpað af Hollandi fyrst um sinn. Fyrsti forseti landsins var af kreólaættum
og var sakaður um kosningasvindl í kosningunum 1977, en hann vann þær. Herinn
framdi valdarán árið 1980 og upp hófst ellefu ára tímabil einræðisstjórnar.
Árið 1986 braust út borgarastyrjöld milli súrínamska hersins og Maroona (fólk
af blönduðum afrískum og suður-amerískum uppruna). Því stríði lauk ekki fyrr en
árið 1992. Á 10. áratugnum veiktist einræðisstjórnin mjög og eftir kosningarnar
1999 var einræðisherrann dæmdur til fangelsisvistar. Þessi sami einræðisherra,
Dési Bouterse, var þó aftur kosinn til valda árið 2010 og aftur árið 2015 og er
því núverandi forseti Súrínam.
Matarmenning Súrínam er mjög fjölbreytt eins og íbúarnir
sjálfir. Maturinn er blanda af austur-indverskum, afrískum, javaískum,
kínverskum, hollenskum, portúgölskum og suður-amerískum mat. Hrísgrjón eru
yfirleitt borðuð með flestum mat og það sama á við um tarórót og kassavarót og
roti (indversk flatbrauð). Kjúklingur er sennilega vinsælasta próteinið en
saltkjöt og salfiskur eru einnig vinsæl. Okra og eggaldin eru vinsælar
grænmetistegundir í súrínamska eldhúsinu og chili er mikið notaður.
Rétturinn sem ég gerði nefnist boka dushi og er vinsæll grillmatur í Súrínam. Í honum sjást greinileg indónesísk áhrif á súrínamska matargerð.
Boka Dushi
4 kjúklingabringur
16-20 grillspjót
marínering
80 ml sojasósa
safi úr 2 lime
3 hvítlaukrif, smátt söxuð
3 msk olía
1 msk sæta
2 tsk engifer
2 tsk cumin
1 tsk túrmerik
2 tsk chilimauk (t.d. sambal olek)
sósa
120 ml kjúklingasoð
80 g hnetusmjör
2 vorlaukar, smátt saxaðir
1 hvítlauksrif, saxað
1 1/2 msk fiskisósa
2 tsk sæta (má sleppa)
1/2 tsk rifinn ferskur engifer
1. Byrjið á að skera kjúklingabringurnar í tiltölulega stóra strimla.
2. Blandið öllu saman sem á að fara í maríneringuna og setjið kjúklingabitana út í.
3. Marínerið í 2-4 tíma.
4. Á meðan kjúklingurinn marínerast er hægt að byrja á sósunni. Þá er byrjað á að setja hnetusmjör í skál og þynna það út með kjúklingasoðinu þar til sósan er kekklaus og fín.
5. Bætið svo restinni af hráefnunum út í og smakkið til með salti. Það er samt ekki víst að þess þurfi.
6. Þegar kjúklingurinn hefur fengið að marínerast er hann settur á spjót sem hafa fengið að liggja í vatni.
7. Grillið svo spjótin þar til þau eru tilbúin og berið fram með sósunni.
Þessi réttur var æðislegur! Ég mun grilla þetta aftur ef það kemur einhver sól hérna í Reykjavík í sumar. Þetta eru einstaklega ljúffeng spjót og sósan er ekki síðri. Mjög skemmtilegt twist á sataykjúklingi.
Afríka: 27 af 54 (50%)
Asía: 16 af 49 (32%)
Evrópa: 24 af 46 (52%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 11 af 23 (47%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)
Samtals: 94 af 198 (47,5%)
Ummæli
Skrifa ummæli