Pakistan - karahikjúklingur


Pakistan er land í Suður-Asíu sem á landamæri að Afganistan, Indlandi, Íran og Kína. Í Pakistan búa rúmlega 212 milljónir manna og er það sjötta fjölmennasta land heims. Allt þetta fólk býr á svæði sem er rúmlega átta sinnum stærra en Ísland. Flestir íbúar landsins eru múslimar en í landinu búa þó margar mismunandi þjóðir sem tala samtals yfir 60 tungumál. Opinber tungumál landsins eru þó eingöngu enska og úrdú og nokkur önnur mál eru einnig viðurkennd. Landið á sér langa sögu og grafnar hafa verið upp rústir stórbrotins menningarsamfélag frá bronsöld í landinu, í Indusdal nánar tiltekið. Svæðið hefur verið undir stjórn fjölmargra heimsvelda í gegnum tíðina, m.a. Persaveldis, Mógúlaveldisins og breska heimsveldisins. Pakistan fékk sjálfstæði árið 1947 frá Bretlandi. Í þá daga tilheyrði Bangladess landinu en Bangladess fékk svo sjálfstæði árið 1971. Saga Pakistans á 20. öldinni og þeirri 21. hefur einkennst af óstöðugleika og átaka við Indland. 
Maturinn í Pakistan er mjög "suður-asískur" eða líkur t.d. indverskum mat. Mikið er notað af kryddum, þó mismikið eftir héruðum. Svínakjöt er að sjálfsögðu ekki borðað en hins vegar er nokkuð borðað af lamba- og kindakjöti ásamt nautakjöti og kjúklingi. Með mat eru hrísgrjón alltaf borðuð ásamt naanbrauði. 

Rétturinn sem ég ákvað að prófa frá Pakistan var karahikjúklingur. Sá réttur er vinsæll í Pakistan og á Norður-Indlandi. Rétturinn dregur nafn sitt af karahi-pönnu sem hann er venjulega eldaður í. Ég notaði hins vegar bara pott. 


3/4 dl olía
1 laukur, saxaður
1 bakki úrbeinuð kjúklingalæri, í bitum
3/4 dl hrein jógúrt
1 1/2 tsk cumin
2 tsk kóríanderfræ, kramin
1 1/2 tsk cayennepipar
1 tsk salt
1 msk hvítlauks- og engifermauk
5 tómatar, saxaðir
ferskt kóríander
2-3 grænir chili

1. Byrjið á að hita pott á miðlungs hita og setjið olíuna í hann.
2. Steikið laukinn í olíunni í 6-7 mínútur eða þar til hann hefur brúnast aðeins.
3. Setjið kjúklinginn í pottinn og blandið við laukinn.
4. Bætið jógúrt, cumin, kóríanderfræum, cayennepipar, salti, pipar og hvítlauks- og engifermaukið út í og blandið öllu vel saman.
5. Leyfið þessu að malla í 5-6 mínútur í viðbót.
6. Setjið síðan tómatana, kóríander og chili út í og hrærið í pottinum. 
7. Leyfið réttinum að malla undir loki í 20 mínútur.
8. Takið svo lokið af og látið malla í 20-30 mínútur í viðbót.

9. Berið fram með brokkolígrjónum og naanbrauði. 

Þessi réttur var æðislegur og ég borðaði hann með lkl-útgáfu af mango chutney sem var búið til úr apríkósusultunni frá Good Good. Í sultuna blandaði ég smá ediki, cumin og nigellufræjum. Þetta kom allt mjög vel út en vissulega er þetta kannski ekkert framandi fyrir þá sem borða oft indverskan mat.

Þá eru 96 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Danmörk!


Afríka: 27 af 54 (50%)
Asía: 17 af 49 (34%)
Evrópa: 25 af 46 (54%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 11 af 23 (47%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 96 af 198 (48,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur