Samóa - Grillaður kjúklingur og kartöflusalat

Í dag er komið að því að fjalla um Samóa og nú er ég formlega hálfnuð í þessari áskorun minni! Samóa er eyríki í Kyrrahafinu sem samanstendur af níu eyjum. Höfuðborgin heitir Apía og í landinu búa tæplega 200.000 manns á svæði sem er örlítið stærra en Vestur-Húnavatnssýsla. Menn komu til eyjanna fyrir a.m.k. 3000 árum. Evrópumenn komu fyrst á eyjarnar á 18. öld en settust ekki að fyrr en á 4. áratug 19. aldar. Borgarastyrjöld braust út í landinu árið 1886 og stóð í þrjú ár. Þetta voru þó að mestu bardagar á milli Þjóðverja, Breta og Bandaríkjamanna, sem riftust um yfirráðin á eyjunum. Þjóðverjar eignuðust vestari eyjarnar á endanum, Bandaríkjamenn þær austari, en Nýja Sjáland hertók vestari Samóaeyjarnar svo í fyrri heimstyrjöldinni. Samóa varð sjálfstætt ríki árið 1962 og hét þá Vestur-Samóa en nafninu var breytt í Samóa árið 1997. Árið 2011 var Samóa færð yfir daglínuna með því að fella einn dag niður. Í stað þess að vera 21 klst á eftir Nýja Sjálandi er Samóa nú 3 klst á undan. 

Ég ákvað að gera hefðbundinn grillaðan kjúkling og kartöflusalat frá Samóa. Ég var mjög fegin að finna eitthvað annað en fisk frá Kyrrahafslandi.

Kjúklingur 

2 dl sojasósa
2 dl vatn
1 laukur
Kjúklingabitar

1.       Marínerið kjúklinginn með sojasósu, vatni og lauk, helst yfir nótt.
2.       Grillið á kolagrilli eða bakið í ofni þar til kjúklingurinn er tilbúinn.
3.       Berið fram með kartöflusalati.

Kartöflusalat

400 g rótargrænmeti (t.d. gulrætur, sellerírót)
mæjónes
salt
pipar
½ laukur

1.       Sjóðið rótargrænmeti og skerið niður í litla bita.
2.       Saxið laukinn smátt og setjið í skál ásamt rótargrænmetinu.

3.       Setjið mæjónes eftir smekk og smakkið til með salti og pipar.

Mér fannst þetta bara mjög góður kjúklingur. Ég gerði hann í ofni en hann var samt mjög góður og ég get ímyndað mér að hann verði alveg ótrúlega góður á grilli. Ég þarf að prófa þetta aftur næsta sumar. 



Þá eru 99 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Srí Lanka!


Afríka: 28 af 54 (52%)
Asía: 17 af 49 (34%)
Evrópa: 26 af 46 (56%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 11 af 23 (47%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 99 af 198 (50%)

Ummæli

Vinsælar færslur