Túnis - Shakshouka

Túnis er land í Norður-Afríku og á landamæri að Alsír og Líbíu. Höfuðborg landsins heitir einfaldlega Túnis og í landinu búa rúmlega 11 milljónir manna á svæði sem er um eitt og hálft Ísland. Flestir íbúar landsins eru múslimar og opinbert tungumál landsins er arabíska. Margir íbúanna tala þó einnig frönsku, en landið var frönsk nýlenda frá 1881-1956. 
Matarmenning Túnis er blanda af miðjarðarhafsmat og mat fólksins í eyðimörkinni. Landið hefur í gegnum tíðina verið undir stjórn fjölda annarra ríkja, m.a. Rómaveldis, Araba, Spánar, Ítalíu og Frakklands. Öll þau lönd hafa sennilega haft eitthvað að segja um mat eða matarhefðir landsins. Í grunninn er maturinn þó byggður á ólífuolíu, kryddum, tómötum, sjávarfangi og kjöti. 

Rétturinn sem ég valdi frá Túnsi er heimsfrægur og heitir shakshouka fyrir flestum en ojja hjá Túnisum. Þetta er mjög einfaldur réttur sem er stundum morgunmatur í Mið-Austurlöndum. 


Shakshouka


3 msk ólífuolía
1 laukur, smátt saxaður
2 hvítlaukrif, smátt söxuð
8 tómatar eða 1 dós af niðurskornum tómötum
2 tsk kóríanderduft
1/2 tsk malað kúmen (ath. ekki cumin)
2 tsk paprikuduft
1/8 tsk cayennepipar
1/2 tsk salt
1/4 tsk svartur pipar
4 egg
2 msk ferskt steinselja 

1. Byrjið á að steikja laukinn upp úr ólífuolíunni á stórri pönnu í um 5 mínútur. 
2. Bætið hvítlauknum við og steikið áfram í 2 mínútur og bætið svo öllum kryddunum við.
3. Setjið tómatana út á pönnuna og eldið í 10-15 mínútur eða þar til sósan fer að þykkna. Ef sósan verður of þykk þarf bara að bæta smá vatni saman við. 
4. Saltið sósuna og smakkið hana til. 
5. Þegar sósan er tilbúin eru eggin brotin út á hana með smá bili á milli þeirra. Lokið er svo sett á pönnuna og þau látin eldast í 5 mínútur. Rauðan á helst ekki að eldast, en það fer alveg eftir smekk.

6. Dreifið steinselju yfir áður en rétturinn er borinn fram og venjulega er hann borðaður með brauði.



Þá eru 98 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Samóa!


Afríka: 28 af 54 (52%)
Asía: 17 af 49 (34%)
Evrópa: 26 af 46 (56%)
Eyjaálfa: 9 af 14 (64%)
Norður Ameríka: 11 af 23 (47%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 98 af 198 (49,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur