El Salvador - Panes con pollo

silhouette photo of mountains
Mynd: Enrique Alarcon
El Salvador var næsta land á dagskrá og ég get ekki sagt að ég hafi vitað mikið um landið. En El Salvador er sem sagt minnsta og þéttbýlasta landið í Mið-Ameríku og á landamæri að Gvatemala. Í landinu búa 6,3 milljónir manna á 21.041 km2 (1/5 af flatarmáli Íslands). Höfuðborg landsins heitir San Salvador og opinbert tungumál landsins er spænska. Þegar Spánverjar komur fyrstir Evrópubúa til El Salvador á 16. öld höfðu þar búið ýmsar mesóamerískar þjóðir, m.a. Majar, í margar aldir. Spánn réði yfir svæðinu frá 1524-1821 þegar landið varð hluti af hinu nýstofnaða Mexíkóska keisaradæmi. Tveimur árum seinna skildu litlu Mið-Ameríku ríkin sig frá Mexíkó og verða að Sambandsríki Mið-Ameríku. Árið 1841 varð El Salvador svo loksins að sjálfstæðu ríki. Frá miðri 19. öld og fram yfir miðja 20. öld var mikill pólitískur og efnahagslegur óstöðugleiki sem endaði með borgarastríði árið 1979. Það stríð varði í heil þrettán ár. Landið á í miklum erfiðleikum með fátækt, ójöfnuð og glæpi enn þann dag í dag þótt landið sé á fullri ferð með að iðnvæðast. 

Rétturinn sem ég ákvað að elda frá El Salvador var bara einföld samloka sem er rosa fín ef maður þarf að nýta kjúklinga- eða kalkúnafganga. 

Panes con pollo

Afgangs kjúklingur (eða tilbúinn heill kjúklingur)
1 dós saxaðir tómatar
1 laukur
1/2 græn paprika
1 lárviðarlauf
1/2 tsk chili
1/4 tsk allrahanda
1 tsk óreganó
1 tsk cumin
1/2 tsk hvítlauksduft
1/4 tsk negull
1 dl hvítvín eða eplaedik
1 dl kjúklingasoð
salt og pipar

4-6 lkl brauðsneiðar
mæjónes
kál
tómatar
gúrka
radísur

1. Byrjið á að rífa niður kjúklinginn í bita. 
2. Saxið næst laukinn og steikið hann í potti við miðlungs hita þar til hann er eldaður í gegn.
3. Bætið því næst öllu sem á að fara í sósuna út í pottinn, fyrir utan kjúklinginn. 
4. Eldið sósuna í 10-15 mínútur og bætið svo kjúklingnum út í.
5. Útbúið samlokur með því að smyrja mæjónesi á brauðsneiðarnar, raða grænmeti að eigin vali á og setjið svo loks kjúkling og sósuna á brauðið.

Mér fannst þetta mjög góð samloka. Þetta er mjög góð hugmynd ef maður á eitthvað eftir af kjúklingi og þarf að nýta afganga. Þetta er klárlega eitthvað sem ég mun gera aftur. 

Þá eru 102 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Norður Kórea!


Afríka: 28 af 54 (52%)
Asía: 19 af 49 (39%)
Evrópa: 26 af 46 (56%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 12 af 23 (52%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 102 af 198 (51,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur