Míkrónesía - Kelaguenkjúklingur

Mynd: Marek Okon
Eins og nafnið gefur til kynna er Míkrónesía mjög lítið land, en það er aðeins um 702 km2 sem er u.þ.b. flatarmál Árneshrepps á Ströndum. Þessir ferkílómetrar dreifast svo á um 607 eyjar sem dreifa sér svo á 2,6 milljón km2 svæði í Kyrrahafi, norðan við Papúa Nýju Gíneu og austan við Filippseyjar. Höfuðborg landsins heitir Palikír og í eyríkinu búa tæplega 105 þúsund manns. Forfeður Míkrónesa komu til eyjanna fyrir um 4000 árum og byggðu þar upp ágætis samfélag sem var byggt á þorshöfðingjum. Portúgalir komu til eyjanna á 16. öld og Spánverjar stuttu síðar. Mikrónesía varð þá hluti af spænska heimsveldinu og tilheyrði Filippseyjum. Eftir spænsk-ameríska stríðið á 19. öld seldu Spánverjar Þjóðverjum eyjarnar. Japanir hertóku þær svo í fyrri heimstyrjöld og eftir seinni heimstyrjöld tóku Bandaríkin yfir eyjarnar. Landið varð loksins aftur sjálfstætt árið 1986. Landið er enn mjög háð fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum. Lang flestir landsmenn eru af míkrónesískum ættum en Míkrónesar skiptast svo í nokkra ættbálka. Enska er aðaltungumál eyjanna en nokkur mál frumbyggja eru enn töluð. 

Rétturinn sem ég ákvað að elda frá Míkrónesíu er kjúklingur sem er maríneraður í sítrónu. Mig langaði að prófa einhvern rétt frá Kyrrahafi sem er ekki fiskréttur. 


Kelaguenkjúklingur
4 úrbeinuð kjúklingalæri
225 g ferskur kókos (eða kókosmjöl)
3 vorlaukar, fínt saxaðir
4 rauðir eða grænir chili
1 1/4 dl nýkreistur sítrónusafi
4 tortillur (lágkolvetna eða sleppa)

1. Marínerið kjúklinginn í helmingnum af sítrónusafanum og vorlauknum.
2. Grillið kjúklingalærin á grilli (eða í ofni) í um 8 mínútur á hvorri hlið.
3. Skerið kjúklinginn í litla bita og blandið saman við kókosmjöl, lauk, restina af sítrónusafanum og chili.
4. Saltið og piprið eftir smekk.
5. Berið fram með finadenesósu og tortillum. 

Finadenesósa
safi og börkur af 2 sítrónum
3 msk hvítvínsedik
1 1/4 dl sojasósa
3 vorlaukar, saxaðir
3 rauðir eða grænir chili
nokkrir kirsuberjatómatar, skornir í tvennt

1. Blandið öllu saman og geymið í ísskáp í nokkrar klukkustundir fyrir notkun.

Þessi réttur kom mér virkilega á óvart. Eins og það er nú lítið af hráefnum í þessari uppskrift og hráefni sem ég hef ekki notað saman áður eða á þennan hátt var þetta alveg dásamlegur og frískandi réttur. Klárlega framandi réttur þrátt fyrir mjög kunnuglegt hráefni. Ég átti ekki lkl tortillur og nennti ekki að baka þær sjálf svo ég borðaði þetta bara eintómt. Mér fannst þetta samt æði en ég get ímyndað mér að þetta sé æðisleg fylling í tortillur.

Þá eru 101 af 198 löndum búin. Næsta stopp er El Salvador!


Afríka: 28 af 54 (52%)
Asía: 18 af 49 (37%)
Evrópa: 26 af 46 (56%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 12 af 23 (52%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 101 af 198 (51%)

Ummæli

Vinsælar færslur