Norður Kórea - Bulgogi Jeongol


Mynd: Random Institute
Þá var komið að Norður Kóreu. Þessu skrítna lokaða landi sem er okkur nokkur ráðgáta. Landið hefur nú verið nokkurn veginn lokað fyrir umheiminum frá því í Kóreustríðinu á 6. áratug síðustu aldar. Talið er að í landinu búi rúmar 25 milljónir manna á svæði sem er næstum 15% stærra en Ísland. Í landinu er flokksræði og þjóðhöfðingi landsins er Kim Jong-un. Höfuðborg landsins heitir Pyongyang. Saga Kóreu er löng. Ýmis kóresk konungsdæmi hafa verið til á svæðinu frá því að minnsta kosti á 7. öld f.kr. Konungsdæmin voru öll sjálfstæð og frjáls þar til Japan réðist á landið og innlimaði það árið 1910. Kórea varð svo aftur "sjálfstæð" árið 1945, í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Landinu var skipt í tvennt af Bandamönnum - norðurhlutann fengu Sóvétmenn og Bandaríkin suðurhlutann. Landinu var skipt á nákvæmlega 38°N og skiptining gerði það að verkum að Bandaríkin fengu höfuðborgina, Seúl. Þegar sameina átti svo löndin aftur rétt fyrir árið 1950 var Kalda stríðið nokkurn veginn skollið á og sósíalísk stjórn tekin við völdum í norðurhlutanum. Þann 25. júní 1950 réðst svo norður kóreski herinn inn í Suður-Kóreu. Átök stóðu yfir í þrjú ár en stríðið er í raun enn í gangi þar sem aðeins er vopnahlé. Yfir milljón manns létu lífið í stríðinu og flesta mikilvægar byggingar í Norður-Kóreu voru eyðilagðar. Norður-Kórea er í dag lokuð flestum og reglulega koma fréttir af fólki sem flúið hefur landið og fáum sögur af því harðræði sem það þurfti að þola þar.



Rétturinn sem ég valdi frá Norður-Kóreu heitir bulgogi joengol er pottréttur sem er gjarnan eldaður þegar nota þarf afganga af bulgogi sem er afskaplega vinsæll réttur í Kóreu. 

Bulgogi joengol

500 g þunnt skorið nautakjöt

marínering
3 msk sojasósa
1-2 msk sæta (t.d. fiber siróp)
1 msk hrísgrjónavín eða mirin
1 msk saxaður hvítlaukur
1 msk sesamolía
1/8 tsk svartur pipar

fyrir soðið
3 þurrkuð þarablöð
85 g radísur, í bitum
1/4 laukur
1 msk sojasósa
salt og pipar

grænmetið
1 gulrót
2 kínakálsblöð eða bok choy
1/2 laukur
4 sveppir (helst shiitake, ostru eða enoki)
2 vorlaukar
vatnakarsi
1 rauður chili (má sleppa)
núðlur (kúrbítsnúðlur t.d.) (má sleppa)

1. Byrjið á að marínera kjötið og geyma í skál á meðan annað er undirbúið.
2. Setjið líter af vatni í pott og setjið grænmetið sem á að fara í soðið út í. Sjóðið í 15 mínútur og hendið svo grænmetinu áður en sojasósan, salt og pipar er sett út í.
3. Skerið grænmetið í mjóa stöngla. Laukurinn fer í þunnar sneiðar og sveppirnir líka.
4. Raðið svo grænmetinu og kjötinu ofan á soðið og berið fram. Ef afgangur er af grænmetinu er það sett á borðið líka til að bæta á.

Mér fannst þessi pottréttur alveg æðislegur og ég sé fyrir mér að gera hann aftur eða nota þessa hugmynd ef það er afgangur af einhverju í ísskápnum. Ég mæli með að prófa þessa uppskrift. 

Þá eru 103 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Kamerún!


Afríka: 28 af 54 (52%)
Asía: 20 af 49 (40%)
Evrópa: 26 af 46 (56%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 12 af 23 (52%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 103 af 198 (52%)

Ummæli

Vinsælar færslur