Srí Lanka - kiri malu
Mynd: Chathura indika |
Srí Lanka er eyríki út af suðausturströnd Indlands og fær þann heiður að vera land nr. 100 í áskoruninni minni. Íbúar eyjarinnar eru um 20 milljónir en landið þó einungis rúmlega 60% af flatarmáli Íslands. Höfuðborg landsins heitir Srí Jajevardenepúra Kotte. Sinhalar eru um 75% mannfjöldans og þeir eru flestir búddatrúar en Tamílar eru hindúatrúar og langstærsti minnihlutahópurinn. Menn hafa líklega sest að á eyjunni fyrir allt að 500.000 árum. Í gegnum aldirnar hafa ýmis konungdæmi ríkt yfir eyjunni og margsinnis réðust konungsveldi frá Indlandi á landið. Búddatrú nam land á eyjunni á milli 300 og 270 f.kr og enn í dag eru meirihluti landsmanna búddatrúar. Portúgalar lögðu strandhéruð landsins undir sig á 17. öld, Hollendingar náðu eyjunni fljótlega af þeim en í upphafi 19. aldar lögðu Bretar eyjuna undir sig. Árið 1948 fékk landið loks sjálfstæði. Árið 1983 brutust út átök milli sinhalamælandi meirihluta eyjarinnar og tamílskumælandi minnihlutanum. Tamíltígrarnir börðust í mörg ár við stjórn landsins en stjórnarherinn sigraði loks árið 2009.
Srí Lanka er auðvitað eyja og því fannst mér upplagt að elda fiskrétt. Srí Lanka er auðvitað nágrannaland Indlands og því er maturinn nokkuð líkur sví sem gerist í Suður-Indlandi, mikið um karrý sem búin eru til úr kókosmjólk.
Kiri malu
600 g hvítur fiskur
salt
2 stk sítrónugras
2 bird's eye chili
80 ml olía
1 rauðlaukur, saxaður
2 karrýlauf
30 g engifer, smátt saxaður
200 g tómatar, saxaðir
1 tsk túrmerik
600 ml kókosrjómi
1 tsk sæta
1. Byrjið á að setja salt á fiskinn og kremja sítrónugrasið og chili-ana aðeins.
2. Hitið pönnu á miðlungs hita og setjið olíuna á hana.
3. Steikið rauðlaukinn í olíunni í um 5 mínútur.
4. Bætið þá karrýlaufum, engifer, sítrónugrasi og chili við og steikið í um 4 mínútur.
5. Setjið tómatana út á pönnuna og steikið áfram í 5 mínútur.
6. Bætið kókosrjómanum og túrmerikinu út á, fáið upp suðu og lækkið svo hitann.
7. Bætið um tsk af salti út í ásamt tsk af sætu og smakkið til.
8. Setjið fiskbitana út í og eldið hann þar til hann er tilbúinn.
9. Berið karrýið fram með brokkolígrjónum.
Mér fannst þessi réttur fínn en ekkert frábær eða framandi. Í rauninni bara mjög milt fiskikarrý sem var skemmtilega létt því í því eru ekki svo mörg krydd eins og oft er í indverskum karrýréttum.
Þá eru 100 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Míkrónesía!
Afríka: 28 af 54 (52%)
Asía: 18 af 49 (37%)
Evrópa: 26 af 46 (56%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 11 af 23 (47%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)
Samtals: 100 af 198 (50,5%)
Ummæli
Skrifa ummæli