Kamerún - Kjúklingaréttur

aerial photography of suburban city
Mynd: Wellington Rodriguez
Næst var það Kamerún. Kamerún er land í Mið Afríku sem á landamæri að Nígeríu, Tjad, Mið-Afríkulýðveldinu og Miðbaugs-Gíneu. Landið hefur fjölbreytt lífríki og menningu en þar er að finna strendur, fjallendi, gresjur og eyðimerkur. Í Kamerún eru töluð yfir 200 tungumál en franska og enska eru þó einu opinberu tungumálin. Höfuðborgin heitir Yaoundé og í landinu búa rúmar 23 milljónir manna á svæði sem er tæplega fimm sinnum stærra en Ísland. Lífsgæðin í landinu eru ekki góð. Þegar Portúgalskir landkönnuðir komu að ströndum landsins, fyrstir Evrópubúa, árið 1472 nefndu þeir landið Rio dos Camaroes eða Rækjuá vegna mikils magn rækja í Wouri-ánni. Eftir það hét landið Cameroon á ensku, Kamerún á íslensku. Næstu aldirnar versluðu Evrópumenn við frumbyggja og boðuðu kristna trú í landinu. Með tíð og tíma tók Þýskaland yfir og Kamerun varð hluti af Þýskalandi árið 1884. Eftir fyrri heimstyrjöld fengu bæði Bretar og Frakkar hluta af landinu en Kamerún fékk svo sjálfstæði 1. janúar 1960. Enskumælandi hluti landsins, Ambazonia, hefur viljað fá sjálfstæði síðan og er enn að berjast fyrir því.
Matarmenning landsins er fjölbreytt en almennt er mikið borðað af maís, kassava, hirsi, mjölbanönum, kartöflum, hrísgrjónum og sætum kartöflum. Þetta er svo borið fram með alls kyns sósum, súpum eða kássum sem innihalda gjarnan jarðhnetur, grænmeti, pálmaolíu o.fl. Kjöt og fiskur eru dýr hráefni. Kryddin eru helst salt, pipar, chili og maggikjölkraftur.

Kjúklingur frá Kamerún
900 g kjúklingabitar
1 tsk salt
1 msk laukduft
1 1/2 tsk hvítlauksduft
1 tsk hvítur pipar
1/2 tsk cayennepipar
1 tsk kjötkraftur
2 tómatar
250 ml vatn
kjúklingateningur

1. Útbúið kryddblönduna og nuddið á kjúklingabitana. 
2. Stillið ofninn á 180°C.
3. Hitið olíu á pönnu og brúnið kjúklingabitana áður en þeir eru settir í ofninn þar til þeir eru eldaðir í gegn.
4. Gott er að bæta einhverju grænmeti í fatið hjá kjúklingnum t.d. gulrótum.
5. Berið fram með brokkolí- eða blómkálsgrjónum. 

Mér fannst þessi réttur alveg fínn en hann er ekki eitthvað sem ég á eftir að gera aftur. Þetta var of venjulegt bara. Ekkert nýtt og spennandi, bara gamaldags kjúklingabitar með ágætis kryddi svo sem.

Þá eru 104 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Serbía!


Afríka: 29 af 54 (54%)
Asía: 20 af 49 (40%)
Evrópa: 26 af 46 (56%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 12 af 23 (52%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 104 af 198 (52,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur