Nepal - Tarkarikjúklingur

worms eye view photography of concrete structure under gray sky
Mynd: Tiago Rosado
Nepal er land í Himalajafjöllum og er á milli Kína og Indlands. Hæsti tindur heims er á landamærum Nepals og Kína, Mt. Everest. Í landinu búa tæplega 29 milljónir manna á svæði sem er um 40% stærra en Ísland. Höfuðborg landsins heitir Katmandú. Landmenn eru flestir hindúar eða um 80%, þá eru 9% íbúanna Búddatrúar. Nepalska er algengasta móðurmál íbúanna en þó eru aðeins 45% sem hafa nepölsku að móðurmáli. Önnur minnihlutamál í landinu eru m.a. maithili, bhojpuri , Urdu og Tharu. Fólk hefur búið á svæðinu þar sem nú er Nepal í a.m.k. 11.000 ár. Í kringum árið 500 f.kr. fóru að myndast nokkur konungsríki á svæðinu. Prins eins þessara ríkja varð reyndar einstaklega frægur, Gautama Buddha. Indversk konungsríki áttu Nepal á tímabilum en var stundum sjálfstætt eða nokkur sjálfstæð ríki. Loks var það svo að konungsríkið Nepal var stofnað árið 1768. Það konungsríki entist til ársins 2008 og nú er lýðræði í landinu. Forseti landsins er meira að segja kona.

Nepölsk matarmenning er nokkuð lík því sem gerist á Norður-Indlandi en er vissulega mismunandi milli héraða landsins. Mikið er borðað af hrísgrjónum, flatbrauði og linsubaunum. Mikið er um alls kyns gómsæta karrýrétti, ýmist úr grænmeti, fiski eða kjöti.

Rétturinn sem ég eldaði frá Nepal var bragðmikill kjúklingakarrýréttur sem er vinsæll í Nepal og heitir tarkarikjúklingur. 
Tarkarikjúklingur

700 g kjúklingakjöt, í bitum
2 laukar, saxaðir
300 g grísk jógúrt
300 ml kjúklingasoð
4 negulnaglar
4 heilar kardimommur
1 kanilstöng
2 lárviðarlauf
1 msk saxaður hvítlaukur
1 msk saxaður engifer
1 tsk túrmerik
1 msk cumin
1 msk kóríander
1 tsk chili
1 tsk svartur pipar
1/4 tsk múskat
4 msk sinnepsolía (eða matarolía)
salt
2 msk saxað ferskt kóríander

1. Setjið kjúklingabita, pipar, túrmerik og salt í stóra skál og blandið vel saman.
2. Hitið olíu í djúpri pönnu og setjið negulnagla, kardimommur, kanil og lárviðarlauf á hana. Steikið í um 30 sek. 
3. Bætið lauknum út á pönnuna og steikið þar til hann er brúnaður.
4. Bætið svo við cumin, kóríander, chili og múskati og lækkið hitann. Blandið saman. 
5. Setjið kjúklinginn á pönnuna og steikið þar til hann hefur brúnast.
6. Bætið síðan jógúrt og kjúklingasoði út á pönnuna. Lækkið hitann og leyfið þessu að malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og sósan hefur þykknað. Þetta gæti tekið 35-45 mínútur.
7. Berið fram með blómkálsgrjónum og dreifið fersku kóríanderi yfir réttinn. 

Mér fannst þessi réttur mjög fínn. Þetta er kannski ekkert nýtt ef maður er vanur indverskum mat en þetta er bara mjög gott karrý. 

Þá eru 106 af 198 löndum búin. Næsta stopp er St. Vinsent og Grenadíneyjar!


Afríka: 29 af 54 (54%)
Asía: 21 af 49 (43%)
Evrópa: 27 af 46 (59%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 12 af 23 (52%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 106 af 198 (53,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur