Serbía - svinjski ražnjići sa urnebes

house on hill with trees and mountain background
Mynd: Ivana Djudic
Þá var komið að Serbíu. Serbía er land á Balkanskaga og á landamæri að Rúmeníu, Búlgaríu, Makedóníu, Svartfjallalandi, Bosníu og Hersegóvínu og Króatíu. I rauninni á Serbía líka landamæri að Kosovo en Serbía viðurkennir Kosovo ekki sem sjálfstætt land. Í landinu búa um 7 milljónir manna á svæði sem er um 85% af stærð Íslands. Höfuðborg landsins heitir Belgrad og flestir landsmenn eru Serbar og tala serbnesku. Þó búa margar aðrar þjóðir í landinu, aðallega þjóðir frá löndunum í kring eins og Ungverjar, Bosníumenn en einnig býr nokkuð af Rómafólki í landinu (2,1%). Serbar eru afkomendur Slava sem fluttust til svæðisins á 6. öld e.kr. og stofnuðu þar nokkur ríki. Konungsríki Serba var formlega viðurkennt árið 1217 en á 16. öld náðu Tyrkir völdum á svæðinu. Serbía fékk aftur sjálfstæði árið 1878 og var sjálfstætt ríki þar til Júgóslavía var stofnuð árið 1918. Júgóslavía leystist svo upp í kjölfar borgarastyrjaldar á 10. áratug síðustu aldar, eins og flestir vita. Serbía var þá i ríkjasambandi með Svartfjallalandi í nokkur ár en varð alveg sjálfstætt árið 2006. Kosovo lýsti einhliða yfir sjálfstæði árið 2008 og mörg lönd hafa viðurkennt það en Serbía gerir enn tilkall til héraðsins.
Matarmenning Serbíu er mjög í takt við það sem gerist í öðrum löndum Balkanskagans. Mikil áhrif eru frá Miðjarðarhafinu og Tyrklandi. Mikið er borðað af brauði, kjöti, ávöxtum, grænmeti og mjólkurvörum. 

Rétturinn sem ég eldaði frá Serbíu var svinjski ražnjići sa urnebes sem eru grilluð svínaspjót með hvítlaukssósu. Venjulega er rétturinn borðaður með brauði en ég sleppti auðvitað bara brauðinu.

Svinjski ražnjići 
8 ferskar rósmaríngreinar
500 g svínahnakkar, í bitum
salt og pipar
ólífuolía

Urnebes
400 g fetakubbur
1 1/2 dl sýrður rjómi
3 hvítlauksrif, kramin
1 1/2 tsk paprikuduft
2 tsk chiliflögur

1. Byrjið á að útbúa urnebes-ið með því að stappa saman fetaostinn og sýrða rjómann.
2. Bætið svo kramda hvítlauknum, paprikudufti og chiliflögum. Blandið vel saman. Það má bæta við eða minnka chiliflögurnar eftir smekk en sósan á að vera frekar sterk.
3. Geymið sósuna í ísskáp þar til kjötið er tilbúið.
4. Skerið grísahnakkann í bita og kryddið með salti, pipar og fersku rósmaríni. Smyrjið svo með ólífuolíu.
5. Setjið kjötbitana á grillspjót og grillið á miðlungshita í 8-10 mínútur.
6. Borðið með brauði og urnebes-sósunni.

Mér fannst þessi réttur æðislegur. Það er vissulega mjög mikið hvítlauksbragð af sósunni en hún er rosa góð samt. Þetta er klárlega réttur fyrir hvítlaukselskendur. Ég get vel hugsað mér að gera þennan rétt í sumar í góðu veðri. Mæli með þessari uppskrift!

Þá eru 105 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Nepal!


Afríka: 29 af 54 (54%)
Asía: 20 af 49 (40%)
Evrópa: 27 af 46 (59%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 12 af 23 (52%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 105 af 198 (53%)

Ummæli

Vinsælar færslur