Bangladess - Kata Moshlar Mangsho

girl wearing green scarf
Mynd: Adrien Taylor
Þá var röðin komin að Bangladess. Landið er staðsett í suður Asíu og liggur á milli Indlands og Mjanmar, við ósa Gangesfljóts. Landið er aðeins 147.570 km2 en þar búa þó yfir 165 milljónir manna, sem gerir landið að einu þéttbýlasta svæði heims. Ef Ísland væri jafn þéttbýlt byggju hér um 120 milljónir! Um 98% landsmanna í Bangladess eru Bengalir og þeir tala tungumálið bengölsku. Flestir eru þeir svo múslimar en þó nokkrir aðhyllast þó hindúisma. Hin 2% landsmanna skiptast í margar mismunandi minnihlutaþjóðir sem talar hver sitt eigið tungumál. I dag búa einnig um 1,3 milljónir Róhingjar sem hafa flúið þangað frá Mjanmar á síðustu árum vegna ofsókna. Bangladess á sér mjög langa sögu og vitað er með vissu að þar voru komnar stórar þróaðar borgir a.m.k. árið 500 f.kr. Íbúar svæðisins voru þá Hindúar og Búddistar og næstu aldirnar risu og hnigu hin ýmsu konungsveldi. Þessi ríki höfðu háþróað viðskiptalíf og gjaldmiðla, arkítektúr og listir og háskóla sem drógu að sér nemendur frá öðrum svæðum Asíu. Íslam náði fótfestu í Bangladess á 13. öld og áfram héldu hin mismunandi konungsríki að stjórna svæðinu. Árið 1757 náði Breska Austur-Indíafélagið völdum í landinu. Fjölmargar uppreisnir voru gerðar á 19. öld gegn Bretum og mikil spenna var alla tíð milli ríkra Hindúa landsins og múslimska meirihlutans. Árið 1947 fengu Indland og Pakistan sjálfstæði frá Bretlandi. Bangladess var þá hluti af Pakistan og var kallað Austur Pakistan. Nokkuð langt er á milli Pakistans og Bangladess svo það gekk ekki til lengdar að hafa ríkin saman í einu landi og stjórnvöld í Vestur Pakistan gerðu lítið fyrir Austur Pakistan, mismunuðu fólki þaðan meira að segja. Krafan um sjálfstæði frá Pakistan var því orðin hávær í byrjun 8. áratugar síðustu aldar. Austur Pakistanar byrjuðu með borgaralegri óhlýðni árið 1971, síðan mótmælum þegar komið var fram á vorið og þann 26. mars braust stríð út milli Vestur- og Austur Pakistan. Talið er að um 300.000 til 3 milljónir manna hafi dáið í stríðinu og nokkrar milljónir flóttamanna flúðu til Indlands. Heimsbyggðin fylgdis með og fáir studdu Vestur Pakistan í þessu stríði. Stríðið varði í níu mánuði og endaði með uppgjöf Vestur-Pakistan þann 16. desember 1971 og Bangladess varð að sjálfstæðu ríki. Í dag er Bangladess eitt fátækasta ríki Asíu, lífsgæðin eru slæm, misskipting auð nokkuð mikil og um 14% landsmanna lifa undir fátæktarmörkum, eða undir 230 kr. á dag. Eins er talið að um 1% landsmanna séu þrælar. Mikið er framleitt í landinu, bæði af landbúnaðarvörum og fatnaði.

Matarmenning landsins er lík því sem gerist á Indlandi, sérstaklega Vestur Bengal-héraði. Hvít hrísgrjón eru uppistaða flestra rétta ásamt grænmeti og linsubaunum. Ghee eða sólblómaolía eru notaðar við steikingu. Fiskur er aðal próteinuppspretta landsmanna. Þó er kjúklingur, nautakjöt, kindakjöt, endur og dúfur líka borðaðar. Margir réttanna í Bangladess eru vel kryddaðir pottréttir ásamt hrísgrjónum, kebab og hrísgrjónaréttir eru einnig vinsælir.  

Rétturinn sem ég gerði frá Bangladess er klassískur kjötréttur þar í landi og hann er sérstakur að því leyti að öll kryddin eiga að vera heil en ekki möluð.

Kata moshar mangsho

500 g nautagúllas
1/2 laukur
1/2 msk engifer, saxaður
1/2 msk hvítlaukur, saxaður
3-4 þurrkuð chili
2 kardimommur
1 kanilstöng
1 lárviðarlauf
3-4 svört piparkorn
1 msk edik
1 dl jógúrt
smjör eða olía til steikingar
1 tsk salt

1. Byrjið á að marínera kjötið í edikinu í um 30 mínútur.
2. Hitið smjör eða olíu í potti og steikið laukinn þar til hann er mjúkur.
3. Bætið öllum kryddunum út í og steikið aðeins áfram.
4. Setjið kjötið út í pottinn og steikið.
5. Setjið loks jógúrt og svipað magn af vatni út í pottinn og leyfið kjötinu að eldast í um klukkustund.

Berið fram með blómkáls- eða brokkolígrjónum.

Þessi réttur var bara mjög fínn. Ég hef reyndar fengið betri karrý en það var mjög gaman að prófa að gera eitthvað annað en þessi klassísku indversku. Mæli alveg með að prófa sig áfram með mismunandi karrýrétti til að sjá hvað manni finnst best.

Þá eru 108 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Maldíveyjar!


Afríka: 29 af 54 (54%)
Asía: 22 af 49 (45%)
Evrópa: 27 af 46 (59%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 13 af 23 (56%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 108 af 198 (54%)

Ummæli

Vinsælar færslur