St. Vinsent og Grenadínur - cod blaff

aerial photography of island at night time
St. Vinsent og Grendínur er eitt af þessum löndum sem maður hefur aldrei heyrt um áður. Þetta er sambandsríki nokkurra eyja í Karíbahafi og næstu nágrannar eru Sankti Lúsía og Barbados. Á eyjunum búa um 109 þúsund manns á svæði sem er aðeins örlítið stærra en Eyja- og Miklaholtshreppur. Höfuðborgin heitir Kingstown. Flestir landsmenn eru afkomendur afrískra þræla en þó verður að nefna að 2% landsmanna eru Karíbar. Karíbar eru frumbyggjar eyjanna eða í það minnst voru þeir íbúar eyjanna þegar fyrstu Evrópubúarnir komu í heimsókn. Aðeins eru um 4.000 Karíbar eftir í heiminum og þeir búa á St. Vinsent og Grenadínum og á Dominiku. 
Eyjan Sankti Vinsent hét upphaflega Youloumain en Kristófer Kólumbus nefndi hana svo eftir heilögum Vinsent frá Saragossa, verndardýrlingi Lissabon, þann 22. janúar 1502. Karíbar bjuggu þá á eyjunum og þeir náðu að halda St. Vinsent allt til ársins 1719. Fyrir þann tíma höfðu þó ýmsir afrískir þrælar frá eyjunum í kring flúið til eyjarinnar og samlagast samfélagi Karíba. Það voru Frakkar sem brutu niður vörn Karíba og þeir stofnuðu nýlendu þar árið 1719 og hófu ræktun á m.a. kaffi og tóbaki og notuðu til þess afríska þræla. Bretar náðu eyjunum á sitt vald árið 1763. Frakkar náðu þeim svo aftur árið 1779, en nú í aðeins fjögur ár. Bretar náðu eyjunum aftur. Þrælahald var bannað með lögum í breska heimsveldinu árið 1834 og þar með líka á St. Vinsent og Grenadínum. Í kjölfarið var mikill skortur á vinnuafli og þvi komu hundruð verkamanna frá Portúgal og Indlandi til eyjanna á árunum 1840-1890. Aðstæður voru erfiðar fyrir fyrrum þræla og nýju verkamennina og ekki bætti lágt verð á sykri ástand efnahagsins. Árið 1903 gaus svo eldfjall á eyjunni La Soufriere og 5.000 manns létust. Sankti Vinsent og Grenadínur fengu loks sjálfstæði árið 1979 og landinu hefur gengið þokkalega þrátt fyrir að að La Soufriere og fellibyljir hafi leikið landið grátt. Lífsgæðin eru í dag þokkaleg en margt mætti þó vissulega bæta.

Cod Blaff

700 g þorskur
4 lime
3 vorlaukar
2 laukar
3 hvítlauksrif
1 tsk timjan
2 allrahandaber
1 negulnagli
150 ml hvítvín
1 dl vatn
3 msk olía
3 grænir chili, i þunnum sneiðum
steinselja, söxuð
salt

  1. Setjið lauk og vorlauk í matvinnsluvél og maukið.
  2. Setjið allt sem fer í réttinn í skál og blandið saman. Marínerið fiskinn í tvo tíma, helst lengur.
  3. Hellið maríneringunni og fiskinum í stóran pott og eldið á háum hita í 3 mínútur, lækkið hitann og leyfið réttinum að malla í 15 mínútur.
  4. Takið lokið af pottinum og leyfið fiskinum að malla á lágum hita í 10 mínútur til viðbótar.
  5. Berið fram með blómkáls- eða brokkolígrjónum og grænmeti.

  Þessi réttur var ekki fyrir mig. Mér fannst hann ekkert sérstakur og ég fíla ekki alveg negul og allrahanda í fiskinum mínum. Ég mun ekki elda þennan rétt aftur. 


Þá eru 107 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Bangladess!


Afríka: 29 af 54 (54%)
Asía: 21 af 49 (43%)
Evrópa: 27 af 46 (59%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 13 af 23 (56%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 107 af 198 (53,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur