Íran - joojeh kebab

multicolored concrete hallway
Mynd: Steven Su
Nú er röðin komin að Íran og nú verð ég að passa mig að hafa þetta ekki of langa kynningu á þessu sögufræga landi. Íran er land í Mið-Austurlöndum sem á landamæri að Aserbaísjan, Armeníu, Afganistan, Tyrklandi, Túrkmenistan, Pakistan og Írak. Höfuðborg landsins heitir Teheran og í landinu búa rúmar 81 milljón manna á svæði sem er 16 sinnum stærra en Ísland. Opinbert tungumál landsins er persneska en þó hafa aðeins um 53% landsmanna tungumálið að móðurmáli. Fjölmörg önnur mál eru töluð í landinu af hinum ýmsu minnihlutahópum. Ríkistrú landsins er íslam. Lífsgæðin í Íran eru þokkaleg og eru t.d. betri en það sem gerist í Serbíu og Albaníu.
Íran á sér gríðarlanga sögu. Elsta borgin, Susa, var byggð 4.395 f.kr. og á þeim tíma eiga nokkrar borgir og samfélög að hafa verið búin að myndast á svæðinu. Á bronsöld myndast menningarsamfélög eins og Elam, Jiroft og Zayanderud og í Elam þróaðist letur þriðja árþúsundinu f.kr. Indóevrópskt fólk var komið á svæðið um 2000 f.kr. Á 10.-7. öld voru ýmis konungsríki um alla Íran sem loks voru sameinuð af Kýrosi mikla í kringum 550 f.kr. Hann myndaði keisaraveldi sem á tímabili ríkti yfir svæði allt frá Egyptalandi, Balkanskaga og austur til Indusárinnar. Það heimsveldi hrundi vegna Alexanders mikla árið 330 f.kr. Næst risu veldi Parþa og síðar Sassanída. Árið 651 e.kr. lögðu múslimar undir sig landið og Íslam tók við af Manikeisma og Sóróisma sem aðaltrúarbrögð Írana smátt og smátt. Arabar ríktu yfir svæðinu í tvær aldir en svo mynduðust ýmis ný írönsk konungsríki. 10. og 11. öld var gullöld Íran og á þeim tíma blómstruðu listir og vísindi. Íranar voru stolt þjóð og því náði hin arabíska menning aldrei yfirhöndinni í landinu eins og í mörgum öðrum íslömskum löndum. Á árunum 1219-1221 réðust Mongólar undir stjórn Genghis Khans inn í Íran með miklu ofbeldi og talið er að allt að þrír fjórðu landsmanna hafi dáið í innrásinni, um 10-15 milljónir manna. Mongólar ríktu yfir Íran allt fram á 16. öld. Safavídar náðu stjórn í Íran á 16. öld og neyddu Írana til að taka upp shía-íslam í stað sunni-íslam. Enn þann dag í dag aðhyllast Íranar shía-íslam. Safavídar háðu reglulega stríð við náganna sína í vestri, Ottomana. Afsharidar tóku við af Safavídum um 1736, síðan Zandættin um miðja 18. öld og loks Qajarættin árið 1794. Sú ætt stjórnaði landinu allt til 1925. Í fyrri heimstyrjöldinni hertóku Bretar stóran hluta vesturhluta Íran en drógu sig til baka stuttu eftir stríðið. Qajarættin var aldrei vinsæl og var steypt af stóli árið 1925 og Reza Khan varð að forsætisráðherra landsins en var stuttu seinna krýndur sem konungur. Í seinni heimstyrjöldinni neyddu bandamenn konunginn til að stíga til hliðar og leyfa syni hans að komast að. Eftir stríð reyndi Íran að verða að nútímalegri og vestrænni þjóð þar til Khomeini gerði byltingu árið 1979 og tók við stjórn landsins. Khomeini var íslamskur klerkur sem lokaði landinu og gerði landið að íslömsku ríki með nokkurs konar einræðisherra.

Matarmenning Íran er fjölbreytt enda búa fjölmargar þjóðir í landinu. Almennt er þó mikið notað af kryddjurtum og ávöxtum eins og plómum, granateplum, döðlum, sveskjum, apríkósum og rúsínum. Helstu kryddin eru saffran, þurrkuð lime, kanill og steinselja, ásamt lauk og hvítlauk. Hrísgrjón og brauð eru borðuð með flestum mat. Helsta grænmetið er grasker, spínat, grænar baunir, kúrbítur, laukur, gulrætur, tómatar, gúrka og eggaldin. Íranir eru hrifnir af alls kyns kebab-útgáfum. Helst eru naut, lamb eða kjúklingur notuð til þess. Kássur eru einnig vinsælar og þær eru borðaðar ýmist með hrísgrjónum eða brauði. Þá eru súpur og hrísgrjónaréttir vinsælir.
Rétturinn sem ég eldaði frá Íran er einmitt vinsælt kjúklingakebab þar í landi sem er kryddað með saffrani.

Joojeh kebab


700 g kjúklingabringur eða læri, í bitum
1 laukur, saxaður
3/4 dl sítrónusafi
1/4 tsk saffran - leyst upp í 1-2 msk af heitu vatni
3/4 dl grísk jógúrt
1/4 tsk túrmerik
1/2 tsk pipar
salt

1. Setjið lauk og sítrónusafa í matvinnsluvél og maukið. 
2. Setjið saffron í heitt vatn og geymið til hliðar.
3. Blandið lauk og sítrónumaukinu saman við jógúrt, túrmerik, pipar og salt. Þetta verður maríneringin.
4. Marínerið kjúklinginn í blöndunni í a.m.k. tvær klukkustundir eða yfir nótt.
5. Raðið kjúklingabitunum á grillspjót og grillið þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. 

Mér fannst þessi réttur bara alls ekkert sérstakur og ég skil kannski ekki alveg vinsældir hans. Ég er ekki hrifin af saffran-túrmerikbragði og það er í raun eina bragðið í þessum rétti. Ég hugsa að ég reyni þetta ekki aftur og elda frekar einhverja aðra íranska rétti því ég veit að þeir eru flestir rosalega góðir.

Þá eru 110 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Tansanía!

Afríka: 29 af 54 (54%)
Asía: 24 af 49 (49%)
Evrópa: 27 af 46 (59%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 13 af 23 (56%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 110 af 198 (55%)

Ummæli

Vinsælar færslur