Ítalía - cosciotto arrosto

Coliseum in Italy
Nú er komið að Ítalíu og það land ættu flestir að þekkja og alveg sérstaklega hina einstöku matarmenningu landsins. Landið er staðsett í Suður Evrópu og á landamæri að Frakklandi, Sviss, Austurríki og Slóveníu en svo umlykur Ítalía tvö lítil ríki, San Marínó og Vatíkanið. Höfuðborgin heitir Róm og í landinu búa rúmar 60 milljónir manna á svæði sem er þrisvar sinnum stærra en Ísland. Opinbert tungumál landsins er ítalska en landsmenn tala þó í rauninni ýmsar ítalskar málýskur eða tungumál náskyld ítölsku. Þó hallar mjög á þessar upprunalegu málýskur og svæðisbundnu tungumál. Lífsgæðin á Ítalíu eru mjög góð og landið er eitt af átta helstu iðnríkjum heims og hefur áttunda stærsta hagkerfi í heiminum. Nokkur skil eru þó á milli norður- og suðurhluta landsins en töluvert er um atvinnuleysi í suðurhlutanum sem byggir afkomu sína aðeins meira á landbúnaði. Ferðamannaiðnaðurinn er mjög mikilvægur fyrir Ítalíu en um 40 milljónir ferðamanna heimsækja landið ár hvert.
Á Ítalíu hefur fólk búið síðan á fornöld en hin eiginlega Ítalía sem við þekkjum í dag varð ekki til fyrr en á miðri 19. öld þegar nokkur ríki sameinuðust í eitt konungsríki undir stjórn Viktors Emanúels II. Ítalía barðist með bandamönnum í fyrri heimstyrjöldinni en gegn þeim í þeirri seinni. Ótti við byltingu bolsévika leiddu til þess að fasistinn og einræðisherrann Benito Mússolini náði völdum í landinu árið 1925 og hann ríkti í landnu til 1943. Eftir að bandamenn unnu heimstyrjöldina síðari breytti Ítalía um stefnu og varð að lýðveldi árið 1948. Margir stjórnmálamenn sem setið höfðu í fasistastjórninni stofnuðu þá nýjan flokk, Kristilega demókrataflokkin, sem fór svo óslitið með völd í landinu til 1993. Eftir það var tvíflokkakerfi tekið upp.
Hér er varla pláss til að skrifa um allt sem Ítalía hefur gefið heiminum á sviði lista, vísinda og menningar. Ítalía á flesta staði á heimsminjaskrá UNESCO af öllum löndum í heiminum. Þar í landi eru ótalmargar sögufrægar byggingar frá öllum tímabilum í sögu landins. Þá hefur Ítalía gefið heiminum ótal málverk og listaverk hæfileikaríkra listamanna eins og Botticelli, Michaelangelo og Caravaggio en Ítalía var leiðandi í mörgum listastefnum fyrri alda. Ítalir sömdu líka góða tónlist og meðal tónskálda Ítalíu eru Vivaldi og Verdi. Fatahönnun og hátíska er þó það sem maður tengir Ítalíu mest við í dag, fyrir utan matinn að sjálfsögðu. Ítalir eiga ótalmarga fræga og flotta fatahönnuði og voru leiðandi í fatahönnun alla 20. öldina og enn í dag. Þetta eru fatahönnuðir eins og Gucci, Dolce & Gabbana, Armani, Prada, Fendi og Versace. En þá að því mikilvægasta sem Ítalía hefur gefið heiminum - maturinn!
Eins og ég sagði áðan sameinaðist Ítalía ekki í eitt ríki fyrr en um miðja 19. öld. Það er því ekki skrítið að maturinn sé mismunandi eftir héruðum. Ítölsk matarmenning hefur haft áhrif á matarmenningu flestra landa heimsins í seinni tíð en hefur að sjálfsögðu líka tekið eitthvað frá öðrum löndum, sérstaklega nágrönnunum. Miklar breytingar urðu á matnum eftir að nýi heimurinn fannst á 15. öld. Þá komu inn hráefni eins og kartöflur, maís, tómatar og paprikur - eitthvað sem er nú alveg ómissandi í ítalska matargerð. Í grunninn er ítölsk matargerð þó miðjarðarhafsmatur þar sem mikið er borðað af pasta, fiski, ávöxtum og grænmeti og oft eru réttirnir mjög einfaldir og með fáum innihaldefnum. Ostar, vín og alls kyns skinkur eru vinsæl á Ítalíu og um heim allan. Þá hafa Ítalír þróað ýmsa eftirrétti sem helst innihalda möndlur, pistasíur, osta eins og ricotta og mascarpone ásamt kakói, vanillu og kanil.

Rétturinn sem ég valdi frá Ítalíu heitir cosciotto arrosto en það þýðir einfaldlega ofnsteikt lambalæri. Þetta er því einfaldlega lambalæri að ítölskum hætti fyrir þá sem vilja kannski prófa eitthvað nýtt.

Cosciotto arrosto

80 g smjör
2 kg lambalæri
80 g pancetta
6 salvíulauf
1 msk rósmarínnálar
ólífuolía til að pensla
4 hvítlauksrif, söxuð
5 msk hvítvínsedik
5 msk hvítvín
salt og pipar

1. Stillið ofninn á 200°C.
2. Vefjið pancetta utan um lærið og skerið litla skurði hér og þar.
3. Stingið salvíu og rósmaríni í skurðina.
4. Penslið lambið með ólífuolíu og leggið það í steikarfat, saltið og piprið.
5. Dreifið hvítlauknum og því sem eftir er af rósmaríninu yfir lærið og hellið edikinu og víninu yfir.
6. Steikið lamið í 1 1/2 klst.

Þetta lambalæri var æðislegt. Þetta er uppskrift sem ég kem til með að nota aftur. Mjög skemmtileg tilbreyting frá venjulegu íslensku læri. Pancettað varð stökkt og gott að utan og kryddin pössuðu hrikalega vel við lambakjötið. Mæli með þessu sem næstu sunnudagssteik.

Þá eru 112 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Palestína!

Afríka: 30 af 54 (55%)
Asía: 24 af 49 (49%)
Evrópa: 28 af 46 (61%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 13 af 23 (56%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 112 af 198 (56,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur