Maldíveyjar - mas huni

boy cycling near green wall during daytime

Maldíveyjar eru eyríki í Indlandshafi suðvestur af Indlandi. Eyjarnar eru 26 talsins auk 1.196 kóraleyja. Höfuðborg landsins heitir Male og í landinu búa um 430 þúsund manns á svæði sem er álíka stórt og Flóahreppur að flatarmáli. Landsmenn eru nánast allir maldívskir að uppruna og tala tungumál sem nefnist dívehí, sem er indóevrópskt tungumál og því fjarskyldur ættingi íslenskunnar. Maldíveyjar eiga sér langa sögu og eyjarnar voru mikilvægur áfangastaður á siglingaleiðum um Indlandshaf. Ýmsir búddískir konungar ríktu yfir eyjunum á 1400 ára löngu tímabili eða þar til landsmenn tóku upp íslam á 12. öld. Þeir er múslímar enn í dag og fylgja sharíalögum. Íslam er eina trúarbragð eyjanna því trúfrelsi ríkir ekki og enginn sem ekki aðhyllist íslam má verða ríkisborgari. Eyjarnar hafa verið sjálfstæðar fyrir utan þrjú tímabil í sögunni. Fyrst voru þær hluti af Portúgal um miðja 16. öld um skamma hríð, síðan hluti af Hollandi í fjóra mánuði á 17. öld og loks voru eyjarnar hluti af Bretlandi á árunum 1887-1965. Haldnar voru kosningar tveimur árum eftir sjálfstæði um hvort landið ætti að vera konungsveldi eða lýðveldi. Maldíveyjar urðu að formlegu lýðveldi ári seinna. Túrismi fór að þróast á 8. áratugnum, sérstaklega eftir að nýr forseti tók við í landinu eftir að sá fyrri flúði til Singapúr með milljónir dollara úr ríkissjóði og á komst stöðugleiki í landinu. Þessi nýi forseti var þó ekki fullkominn. Hann ríkti í þrjátíu ár og þrisvar voru gerðar tilraunir til valdaráns. Síðasti áratugurinn hefur einkennst af miklum pólitískum óstöðugleika í landinu. Maldíveyjar eru algjör paradís þegar kemur að veðrinu en hitinn er í kringum 28°C alla daga ársins. Það er því ekki skrítið að allur þessi fjöldi ferðamanna heimsæki landið. Maldíveyjar standa þó frammi fyrir miklum vanda vegna hlýnunar jarðar. Vísindamenn hafa reiknað út að sjávarmál geti verið búið að hækka um 59 sm fyrir árið 2100. Það myndi þýða að nánast allar byggðar eyjar Maldíveyja yrðu óbyggjanlegar. Maldíveyjar leggja því mikla áherslu á að takamarka losun gróðurhúslofttegunda og landsmenn ætluðu í rauninni að vera hættir að losa nokkra gróðurhúsalofttegund árið 2020. Lífsgæðin á Maldíveyjum eru í kringum meðaltal heimsins. Meðal þess sem dregur lífsgæðin niður eru mörg brot á mannréttindum. Eins og áður sagði er ekki trúfrelsi á eyjunum, auk þess er ekki tjáningarfrelsi og sharíalög gilda í landinu. En nóg um það, skoðum aðeins matarmenninguna. 
Matarmenning Maldíveyja hefur verið undir nokkrum áhrifum frá Indlandi og Srí Lanka í gegnum tíðina. Nokkuð er notað af kryddum en í minna mæli en t.d. á Indlandi og mikið er borðað af fiski og sjávarfangi. Auk þess eru kókoshnetur, hirsi, rótargrænmeti og brauðávextir mikilvægt hráefni í eldhúsum Maldíveyja. 

Rétturinn sem ég eldaði frá Maldíveyjum inniheldur einmitt fisk og kókos. Rétturinn er túnfisksalat sem er borðað í morgunmat á eyjunum ásamt roti eða chapatibrauði og svörtu tei. 

Mas huni

1 laukur, smátt saxaður
1 chilipipar, smátt saxaður
2 dósir túnfiskur í olíu
2 dl kókosmjöl
safi úr einu lime
salt

1. Blandið öllu saman í skál og smakkið til með salti og meiri limesafa.
2. Berið fram með "brauði".

Þessi réttur kom mjög skemmtilega á óvart og var mjög góður. Ég hef gert hann nokkrum sinnum aftur en þá með mæjónesi, eins og íslenska túnfisksalatið. Það kemur virkilega vel út og mér finnst það jafnvel betra en venjulegt túnfisksalat, limeið gerir svo mikið fyrir salatið. 

Þá eru 109 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Íran!


Afríka: 29 af 54 (54%)
Asía: 23 af 49 (47%)
Evrópa: 27 af 46 (59%)
Eyjaálfa: 10 af 14 (71%)
Norður Ameríka: 13 af 23 (56%)
Suður Ameríka: 7 af 12 (58%)


Samtals: 109 af 198 (54,5%)

Ummæli

Vinsælar færslur